To be or not to be!

Enn er komið að grundvallar uppgjöri. Eva Joly hótar að hætta nema ríkisstjórnin sýni að hún sé tilbúin að standa að baki alvöru rannsókn. Ástandið í þjóðfélaginu er að verða eins og það var alvarlegast í vetur og ríkisstjórnin þarf að sanna fyrir þjóðinni hvort hún ætlar eða ætlar ekki:

  • Ætlar hún að láta rannsaka hvort lögbrot voru framin í bönkunum?
  • Ætlar hún að draga menn til saka ef lögbrot voru framin?
  • Ætlar hún að leita að stolnu fé?
  • Ætlar hún að hefja sig yfir feðraveldið á Íslandi?

 

Einhverjum kann að þykja að það sé við hæfi að taka ákvörðun um þessi atriði og upplýsa okkur kjósendur um þau á sama tíma og við erum upplýst um upphæðirnar sem okkur er ætlað að greiða vegna ófara bankanna. Ég er í þeim hópi.

Rannsóknin verður ekki einfalt verk og leikurinn mun berast um víðan völl. Sjálfsæðisflokkurinn hefur leitt krónprins Engeyjarættarinnar til formennsku og þar með tekið sér stöðu með Kolkrabbanum og á móti rannsókn. Jafnframt var leiddur fram Illugi nokkur formaður peningabréfasjóðs sem fékk sérstaka aðstoð umfram aðra slíka. Guðlaugur Þór var kosinn til mikilla áhrifa en hann var formaður Orkuveitunnar þegar til stóð að færa einkaaðilum öll verðmæti sem þar fyndust og hann hefur þegið ríflega styrki í formi peninga og fríðinda úr hendi greddugæjanna sem tröllriðu bönkunum. Varaformaðurinn Þorgerður Katrín naut gegnum eiginmann sinn „vildarkjara" við kaup á hlutabréfum. Framsókn kaus Sigmund Davíð til formennsku, erkijarl Marglyttunnar og erfingja framsóknarauðæfa og nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar, t.d. Steinun Valdís og Helgi Hjörvar hafa þegið styrki frá sömu aðilum.

Þetta sýnir bara lítið brot af þeim hagsmunatengslum sem eflaust eiga eftir að koma í ljós þegar og ef rannsóknin kemst af stað. Stjórnkerfið mun verða fyrir áföllum bæði kerfislægum og persónubundnum. Stjórnmálamenn munu verða yfirheyrðir og kallaðir til að bera vitni fyrir dómstólum, einkavæðingarferli bankanna mun verða áberandi sem og aðgerðir eftir að í óefni var komið og etv munu mútur og stórhneyksli verða á allra vörum. Það mun hrikta í baktjaldanetum hinna einstöku hagsmunahópa. 

Það var alltaf fyrirséð að Íslendingar myndu illa ráða við þetta verkefni sjálfir. Í okkar þjóðfélagi bætast ættar- og kunningjabönd við hagsmunanet sérhyggju og einkavina og hér hafa ættarböndin verið sterkustu böndin allt frá upphafi byggðar. Þess vegna batt ég miklar vonir við ráðningu Evu Joly. En svo virðist að þau öfl sem hafa hagsmuni af því að ekkert verði rannsakað séu langt komin með að vinna þessa baráttu áður en hún er hafin fyrir alvöru.

Ef ríkisstjórnin ætlar að svara einhverri af ofangreindum spurningum játandi þá er tími til aðgerða núna. Þó Eva geti líklega ekki formlega leitt þessa rannsókn þá þarf að líta á hana sem hinn raunverulega leiðtoga hennar. Það þýðir að hennar ráð verða okkar ráð. Það þarf greinilega að endurskipuleggja vinnuna og mér þætti ekkert skrítið þó ráða þyrfti hátt í 100 manns að henni, þar af ca þriðjung óháðra erlenda sérfræðinga. Og kostnaðurinn? Í fyrsta lagi verðum við að líta þannig á að þessum milljörðum sé varið til að styrkja innviði réttarríkisins.  Í öðrulagi til að innheimta eitthvað af því fé sem virðist hafa horfið og í þriðja lagi til að stuðla að friði í samfélaginu.

Orð Jóhönnu í grein mbl.is um afstöðu ríkisstjórnarinnar vekja nokkra bjartsýni um að farið verði að ráðum Evu.


mbl.is Ríkisstjórn styður Joly
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband