Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Dreifum byrðunum

Neyðarástand og neyðarlög.

Nú stefnir í það að byrðunum verði velt að miklu leyti á skuldara þessa lands. Skuldarar geta fengið lítilsháttar gálgafrest en þeir skulu borga brúsann. Við núverandi aðstæður er það lágmarks sanngirni að skuldarar og lánadrottnar skipti með sér byrðunum. Tillaga Benedikts gengur út á það.

Ef svo fer sem horfir verða foreldrar þessa lands að bera byrðina en lánadrottnar skulu hafa allt sitt á hreinu. Þegar atvinna minnkar hrökklast konur fyrst af vinnumarkaði og síðan karlar. Fyrst verður vinnan minni og síðan kannski engin, verðlag hækkar.  Vanskil hrannast upp á heimilunum, kvíði og þunglyndi hreiðrar um sig, heilsan versnar. Börnin verða líka fórnarlömb. Allt þetta má minnka og koma í veg fyrir með því að dreifa byrðunum rétt. 

Dreifum byrðunum bæði á skuldara og lánadrottna.


mbl.is Verðtryggingin verði fryst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðgjafar Geirs eru fundnir

Þetta er alveg þrælmögnuð frétt.

  1. Fréttin er að langmestu um það hvernig Davíð hirtir efnahagsmálaráðherrann Geir H á fundi í höfuðvígi Sjálfstæðismanna, en fyrirsögnin er um fjölmiðla. Þetta er Mogginn!!! 
  2. Davíð upplýsir um að hann sé alsaklaus og gefur smjörklípur á báða bóga til að varpa kastljósinu á aðra.
  3. Seðlabankastjóri talar eins og pólitíkus sem er auðvitað best til þess fallið að hvorki embættismenn. sérfræðingar eða stjórnmálamenn geta treyst honum.

Geir H svarar svo þessum ásökunum foringja síns og læriföðurs með nokkrum orðum í fréttum RÚV í hádeginu. Þar kemur fram að vissulaga hafi Davíð varað hann við. Það gerðu líka tugir af virtum innlendum og erlendum hagfræðingum. En Geir H fór með þetta allt saman á fund bankastjóranna og þeir sögðu honum að ekkert væri að óttast.

Þar með er staðfest að ráðgjafar Geirs H, efnahagsmálaráðherra, voru bankastjórar viðskiptabankanna sem áttu að vera undir sérstöku eftirliti hans og ríkisstjórnarinnar. Þetta er það sem ég taldi mig vita og kemur fram í færslu hér og hér.

Þetta gengur engan vegin.


mbl.is Fjölmiðlar í heljargreipum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvurn skrattan getum við að gert?

Enn eitt frábært Silfur hjá Agli. Eftir að hann fór að bjóða til sín venjulegu fólki og fólki með sérþekkingu á því sem hæst ber þessa dagana hefur þátturinn gengið í endurnýjun lífdaga. Þessi svokallaða stjórnmálaumræða, eins og hún fór fram þar og í kastljósi, var alveg hætt að skila nokkrum sköpuðum hlut. Reyndar er langt síðan.

Samlíking Kristínar Helgu á  ástandinu í fjölskyldu fíkilsins og á þjóðarheimilinu var sláandi.

Undanfarin ár hafa fíklar ráðið ferðinni hjá okkur. Eftir að hafa notfært sér velvilja, meðvirkni og fáfræði fjölskyldunnar (þjóðarinnar) til að harka út lán og komast hjá uppgjöri við lánadrottna, þá setja þeir heimilið á hausinn. En það nægir ekki til að fíklarnir sjái ljósið. Öllum nema þeim er ljóst að þeir þurfa að fara í meðferð en það er bæði gagnlaust og illmögulegt að koma þeim í meðferð nema með þeirra eigin samþykki.

Og þjóðin er einmitt í þessari stöðu. Allir sjá spillinguna, hrokann og yfirganginn sem stjórnvöld sýna okkur, - nema þau sjálf. Eru einhver vandamál þar spyr Geir H þegar hann er spurður um aðgerðir til að reisa við orðstý þjóðarinnar og breytingar í Seðlabankanum.  Það eru spennandi og skemmtilegir tímar framundan segir Þorgerður Katrín. Eru þau nokkuð að spila hörpudúett meðan þjóðin þjáist? Og hvurn skrattann getum við gert? Þetta er eins og í tilviki fíkilsins. Við getum ekki lagt hann inn og við getum heldur ekki svipt hann forræði. 

Það hlýtur að vanta eitthvað í stjórnskipun landsins!!!

Sá eini sem ekki virtist skilja neitt var Ágúst Ólafur, þingmaður og varaformaður Samfylkingarinnar. Heldur hann í raun að þingið geti skipað óháða nefnd Íslendinga sem rannsaka á hann og kollega hans? Þmt alla ráðherrana sem eru jú þingmenn. Heldur hann í raun að bankaráðin séu ópólitísk, óháð og eingöngu fagleg eða talar hann bara svona? Ágúst er ungur og vel menntaður maður en vantar hann svona gjörsamlega bæði reynslu og þroska eða er hann svona samdauna kerfinu?


Það er ekki í lagi með manninn

Myndbandið hennar Láru Hönnu.

 Það fjölgar málunum þar sem Geir H er í tómu tjóni. Það má ekki spyrja um Seðlabankann, um ónýtt orðspor Íslands eða hvort hann hafi hugleitt að segja af sér. Þá bara bregst hann við með skætingi og hroka og dembir sér yfir spyrjandann. 

Og hann lendir í algjöru rugli þegar hann er spurður um fyrri yfirlýsingar um eðli Icesave-málsins og lausnina sem hann er búinn að samþykkja núna. Brown sá sér hag í að fórna Íslendingum en það er jafn augljóst að Geir H þurfti á smjörklípu að halda til að beina kastljósinu frá sjálfum sér og Sjálfstæðisflokknum. Múgæsingartal hans um að allir í heiminum væru asnar og fífl nema hann sjálfur sýndi, að  hann var líka tilbúinn að fórna íslenskum hagsmunum. Hann var greinilega tilbúinn til að bjóða öllum byrgin á kostnað okkar.

Nú er komið í ljós að ESB var alltaf tilbúið að setja málið í gerð. Árni Matt (vá, liðið sem er að vinna fyrir okkur maður) var meira að segja búinn að samþykkja það fyrir okkar hönd. En það passaði ekki inn í málflutning Geirs svo Árni var á augabragði gerður að ómerking á alþjóðlegum vettvangi. - Enn og aftur!!!. Eftirá skýringar sem ætlaðar eru til innanlandsneyslu duga ekki.

 Þetta gengur engan vegin. Við verðum að losna við Sjálfstæðisflokkinn. Geir H er margflæktur í eigin lygar og útúrsnúninga, Davíð er sérstakt efnahagslegt vandamál og Árni er....    ...ja hann er bara eins og hann er. Ég meinti Árna Matt en ekki samþingmanninn frá Vestmannaeyjum.

Það er allt útlit fyrir að Ingibjörg Sólrún hafi leyst Icesave-málið og samskiptavandamálin við IMF og ESB. Um leið og ég er kröfuharður og læt óspart í ljós skoðanir mínar á öllu sem miður fer, þá er ég alveg til í að benda á það sem gert er af viti.


Burt með Árna Matt!

Ferill Árna Matt sem ráðherra er æði sóðalegur. Dómaraskipunin kemur fyrst upp í hugan og sá hroki sem birtist í röksemdafærslu hans þar. Allt sem hann kemur nálægt á þessum síðustu og verstu tímum bendir til þess að hann hafi ekkert lært. Framkoma hans bendir öll til þess að hann ráði ekki við verkefnið. Ýmsar upplýsingar um störf hans benda til þess að hann sé eitt af stóru vandamálunum.
mbl.is Deilur vegna Íslands í gerðardóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir fattar ekki málið!

Það er mjög líklegt að ástæðan fyrir því að IMF vill ekki veita okkur fyrirgreiðslu sé allt önnur en sú sem íslensk stjórnvöld segja okkur. Geir H segir  Breta og Hollendinga beita þrýstingi til að Icesave málin verði leyst áður en IMF afgreiði umsókn okkar. Hann telur þetta til marks um að þeir blandi saman óskyldum málum og beiti bolabrögðum.

Sennilega er rétta skýringin sú að IMF telur sig ekki vita hver efnahagsleg staða Íslands er eða hver hún verður  fyrr en búið er að ganga frá uppgjöri um Icesave reikningana. Jón Daníelsson telur að skuldirnar sem Ísland gæti þurft að taka á sig nemi sem svarar vergri landsframleiðslu. Það munar um minna og eðlilegt að IMF og önnur ríki geti illa tekið afstöðu til lána án þess að vita hver staða þjóðarbúsins sé.

Þetta er líklega það sem Geir H hefur ekki fattað og það sem hefur tafið fyrir endurreisninni. Það er tími til kominn að horfast í augu við raunveruleikann og snúa sér að lögfræðilegum rökum varðandi Icesave. Við þekkjum útúrsnúningarök Sjálfstæðisflokksins vel frá umræðunni hér innanlands og vitum að þau eru ekki boðleg.


mbl.is Samningar um Icesave eina leiðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þögnin er sjálfstætt vandamál

Af hverju segir enginn okkur hvað er að gerast. Í illa unninni frétt sem tengist þessari færslu staðfestir Geir H að "enn sé eftir að ganga frá fjármögnun annarra ríkja sem þurfi að fylgja láni IMF." Allt annað er í véfrétta stíl. Á mbl.is og visir.is eru amk 7 misvísandi fréttir bara í dag. Athygli vekur að margar skástu heimildirnar eru erlendar. Auk þess er frétt á visir.is um það sem blaðið hefur ekki fengið svör um. 

Þögnin er orðin sjálfstætt vandamál.

Ingibjörg: Hollendingar og Bretar leggja ofurkapp á að tefja vegna Icesave

Afgreiðslu umsóknar frestað

Engar ástæður gefnar fyrir frestun

IMF-lán strandar á öðrum lánum

Beita sér ekki gegn Íslandi

Bretar styðja IMF-lán, Hollendingar standa í veginum

Fátt um svör hjá ráðamönnum


mbl.is IMF-lán strandar á öðrum lánum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Éttu skít segir forsætisráðherra

Takið eftir að í myndskeiðinu sem fylgir fréttinni segir forsætisráðherra að okkur komi bara hreint ekkert við hverjir sitja í Ríkisstjórn Íslands. Það er ekkert verið að skafa utan af því. Okkur er sagt að éta skít. Sjá líka fyrri færslu mína frá 4. nóv.

Þetta gegngur bara alls ekki !!!


mbl.is Vegið ómaklega að ráðherrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að sparka Davíð uppávið?

Gárungarnir eru að benda á að hinn séríslenska leið til að losna við fólk úr stöðum í stjórnkerfinu sé að sparka þeim uppávið. Að vísu hafði Davíð ekki þann mátann á heldur sparkaði hann bara mönnum út á götu.

Þar sem við sitjum uppi með Davíð í stöðu sem hann hefur staðið sig verulega illa í hafa menn bent á að nota íslensku leiðina og gera hann að forsætisráðherra. Þannig myndum við líka losna við Geir H.


Samfylking á skilorði

Í nýlegri könnun sögðust 37% myndu kjósa Samfylkinguna, en miklu fleiri hafa horft til hennar undanfarið í von um að hún sýndi af sér þor og dug í því ástandi sem ríkir. Nú er fólk að fá augnaþurrk og hálsríg af glápinu og það sjást engin merki um Samfylkingin ætli að axla ábyrgð eða sýna frumkvæði. Nú síðast stóð hún að skipun bankaráða í hrópandi ósamræmi við jafnréttislög (10/2008, gr. 15). Á sama tíma flytja nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar frumvarp um að jafnréttislög skuli einnig gilda um fjármálafyrirtæki í einkaeigu!!!

Í fyrrnefndri könnun kemur líka fram hversu mikil reiði, kvíði og óvissa ríkir í þjóðfélaginu. Ég fullyrði reyndar að reiðin sé í dag miklu almennari en þar kemur fram. Ofaná hinar fjárhagslegu hremmingar bætist nú reiðin yfir aðgerðarleysi, margsögli og leyndarhjúp sem hvílir yfir öllu. Forsætisráðherra mætir á fréttafundi og í viðtöl án þess að segja nokkuð. Hann telur að það ætti jafnvel að vera leyndarmál að hann sendi Kínverjum hjálparbeiðni. Viðskiptaráðherra mætir með honum og af hans munni streymir merkingarlaust orðagjálfur páfagauksins. 

 Þingmenn Samfylkingarinnar segja að það sé mikilvægt að jafnaðarmenn sitji í ríkisstjórn við núverandi aðstæður. Þeir segjast vera að vinna fjölmörg mál sem horfa til bóta fyrir þjóðfélagið og að nú sé ekki tími til að efna til kosninga. Og svo séu þeir bundnir í klafa stjórnarsáttmálans og vilja umfram allt sýna að þeir séu færir um að sitja í ríkisstjórn.

Allt er þetta einskisnýtt. Það er ekki nóg að vera jafnaðarmaður, það er ekki nóg að vera vinnusamur, það er ekki nóg að sitja í ríkisstjórn og stjórnarsáttmálinn er úrelt og ónýtt plagg.

Við, fólkið í landinu, verðum að fá  staðfestingu á því á hverjum einasta degi að Samfylkingin hafi það á stefnuskrá sinni að sækja um aðild að ESB, að hún ætli að hreinsa til í Seðlabankanum, að jafnrétti, jafnræði og lýðræði sé á dagskrá, að hún sé ekki hrædd við kosningar. Og allt þarf að vinna fyrir opnum dyrum og gluggum. Ekkert helvítis leyndarmakk. Við vitum ekki hvað ráðherrar og þingmenn hugsa. Það þarf að tala við okkur. Það þarf að segja okkur satt. Á hverjum degi, alltaf.

Ef ekki verður breyting á mun fólk grípa til ofbeldis eða gefast upp!!!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband