Færsluflokkur: Umhverfismál

Á Svandís að segja af sér?

Hverslags þvæla er eiginlega í gangi varðandi þetta risastóra Svandísar-Urriðafossmál? Mér finnst virðulegasta fólk bara rugla út í eitt.

Í fyrsta lagi situr Svandís ekki á þingi í umboði VG eins og margir tala um. Þessu var m.a. haldið  fram í Silfrinu (13.2.2011) og í máli stjórnmálafræðings (sic!) í síðdegisútvarpinu (14.2.2011). VG á heiðurinn af því að stilla henni upp til kjörs í Alþingiskosningum en Svandís situr að sjálfsögðu á þingi í umboði kjósenda VG. Framgangsmátinn við val á ráðherrum eftir því sem ég best veit þannig að flokksformaðurinn tilnefnir ráðherra og þingflokkurinn samþykkir eða synjar. Það má því etv segja að flokkformenn eða þingflokkar beri ábyrgð á ráðherrum en um ráðherraábyrgð fer annars að lögum. 

Í öðru lagi er varla hægt að gera það að ástæðu til afsagnar ráðherra að hann sé ekki óskeikull um það hvað felist í og hvernig eigi að túlka lög sem ágreiningur er um. Í því tilfelli sem hér um ræðir hefur ráðherra lagt annan skilning í viðkomandi lög en hæstiréttur gerir að lokum. Það má reikna með að ráðherrann hafi sótt lagaskilning sinn til starfsmanna ráðuneytisins og etv út fyrir ráðuneytið líka og komist að þeirri niðurstöðu að tilhögun við gerð aðalskipulagsins sem um ræðir hefði verið ábótavant. Ef lög væru alltaf auðskilin og aldrei kæmu upp álitamál varðandi túlkun þeirra þá þyrfti enga dómstóla. Ef ágreiningur er um túlkun laga þá ber að láta dómsstóla skera úr. Það var gert varðandi þetta tiltekna aðalskipulag. 

Í þriðja lagi hefur ekki verið sýnt framá að ákvörðun ráðherra um að synja hluta aðalskipulagsins staðfestingar hafi valdið töfum á framkvæmdum í sveitarfélaginu þrátt fyrir yfirlýsingar um það. Og þó ákvörðun ráðherra hefði valdið töfum þá fór hún hárrétta leið með málið, - lét dómsstóla skera úr um lagaóvissu. 

 


mbl.is Vildu láta ávíta ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magma og heillum horfin Samfylking

2_juni_2007_027.jpg

 Úr stofnskrá Samfylkingarinnar samþ. 2000:

"Samfylkingin telur að sameiginlegar auðlindir Íslendinga, svo sem nytjastofnar sjávar og orkan í fallvötnum og á jarðhitasvæðum, skuli vera ævarandi þjóðareign. Eðlilegt endurgjald fyrir afnot af þeim á að renna til þjóðarinnar."

Úr stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar 2007:

"Samfylkingin vill að þjóðareign á sameiginlegum auðlindum verði bundin í stjórnarskrá."

Úr stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar 2009:

"Nauðsynlegt er að breyta stjórnarskrá til að tryggja þjóðareign á sameiginlegum auðlindum..." 

Úr stefnuræðu formanns Samfylkingarinnar á landsfundi 2009:

"Við leggjum mikla áherslu á að ákvæði um þjóðareign á auðlindum verði sett í stjórnarskrá og að þannig verði komið í veg fyrir að eignarhald okkar mikilvægustu auðlinda lendi í einkaeign fárra."

Úr samstarfsyfirlýsingu Samfylkingar og VG 2009: 

"Standa þarf vörð um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum sínum."

Miðað við samantektina hér að ofan myndu sumir halda að stefna Samfylkingarinnar í auðlindamálum væri nokkuð skýr. Margir myndu líka halda að þegar Samfylkingin er í stjórnarsamstarfi með flokki sem í aðalatriðum hefur sömu afstöðu til eignarhalds á auðlindum þá sé öllu óhætt.  Staðreyndin er hinsvegar sú að forystumenn Samfylkingarinnar virðast handónýtir þegar kemur því að varðveita eða að koma auðlindunum í þjóðareign.

Þegar alþjóðleg risafyrirtæki eru að sölsa undir sig auðlindir þá beita þau gjarnan málflutningi sem byggist á því "að enn sé ekkert ákveðið, að eingöngu sé um könnun að ræða, að það sé nægur tími til að gera athugasemdir" o.s.frv. Um leið eru hinsvegar settir frestir og bundnar dagsetningar og fyrr en varir er orðið allt of seint að hafa skoðun á málinu. Mér finnst eins og stjórnvöld hafi beitt almenning svipuðum aðferðum varðandi þetta Magma mál. Í 4 ár hefur okkur verið sagt að ekkert væri að óttast og að stjórnvöld hefðu fullan rétt til að koma að málinu á síðari stigum.

Það er ömurlegt að þurfa nú að hlusta á fulltrúa Magma endurtaka í sífellu að stjórnvöld hafi haft ótal tækifæri til að hafa áhrif á og/eða koma í veg fyrir þessa samninga en nú sé það um seinan.

Miðað við kynningu á þessum samningi sem ég hlustaði á í Grindavík í fyrra þá er hann ein svívirða frá upphafi til enda. Sjálfbær nýting auðlindanna er ekki tryggð, tímalengdin jafngildir nánast sölu á auðlindunum og endurgjaldið fyrir afnotin er svo lágt að engu tali tekur.

Hvað þýðir eiginlega þjóðareign? Á þjóðareign við um það þegar hlutafélög á markaði eða lífeyrissjóðir eiga auðlindir. Ég held ekki og dæmin sýna að hvorugt gengur upp. Við þurftum að fara gegnum ansi erfiða atburðarás til að átta okkur á þessu enda var þetta ein af kennisetningum útrásarapanna og þeirra stjórnmálaafla sem deildu völdum með þeim. En getur þjóðareign átt við um eign sem er í eigu fámenns sveitarfélags? Nei.  Þjóðareign þýðir bara þjóðareign, eign sem öll þjóðin á, ber ábyrgð á og nýtur arðs af ef svo vill til.

 

 


mbl.is Styðja ekki ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband