Á Sjálfstæðisflokkurinn að bjarga okkur?

Í sautján og hálft ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn farið með stjórn efnahags- og fjármála Íslands. Í 12 ár hafði hann Framsóknarflokkinn sér til fulltingis og satt að segja nenni ég varla að tilgreina sérstaklega forsætisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar því fæstir gerðu sér grein fyrir að tveir flokkar sætu í ríkisstjórn. Enda skræmti drengjaliðið í Sjálfstæðisflokknum undan því að ráða- og flokksmenn Samfylkingarinnar leyfðu sér að hafa aðra skoðun á einstökum málum en Sjálfatæðisflokkurinn. Þeir höfðu aldrei kynnst öðru eins.

Með hverjum degi sem líður koma frjálshyggju vinnubrögð Sjálfstæðisflokksins betur í ljós. Á sama tíma og þjóðfélagið var á floti í peningum, á meðan bankar ýttu auknum lánum að almenningi, á meðan þeir kölluðu sparifjáreigendur til sín og hvöttu þá til að taka meiri áhættu með því að fjárfesta í sjóðum og hlutabréfum og á meðan stjórnvöld sungu útrásaróð við texta sem saminn var í þessum sömu bönkum, þá var ekki greitt í varasjóði þjóðarinnar. Ábyrgðarsjóður launa er stórskuldugur eftir uppgangstíma, gjaldeyrisvarasjóðurinn nánast tómur og innistæðutryggingasjóðir sömuleiðis. Þetta hlýtur að vera dæmalaust.

Síðustu ár hafa varnaðarorð hagfræðinga dunið í eyrum okkar. Íslenskir hagfræðingar sem starfa hérlendir eða erlendis og erlendir hagfræðingar í búntum hafa reynt að vara stjórnvöld við. Ég man  ekki eftir einum einast hagfræðingi sem lýsti trausti á þessi galdraverk sem í gangi voru. Eins og títt er um galdra var þetta full flókið fyrir almenning, en stjórnvöld áttu að skilja viðvaranirnar. Þeim bar skylda til þess.

En eru ráðherrar ekki bara menn eins og þú og ég, menn sem ekki hafa sérþekkingu á efnahagsmálum? Auðvitað eru þeir það, en þeir eiga að hafa reynslu og þeir hafa aðgang að fjölda sérfræðinga í ráðuneytunum og stofnunum ríkisins (reyndar fór Davíðþá leið að reka bara þá sem ekki voru samþykkir honum). Þeir geta líka ráðfært sig við utanaðkomandi sérfræðinga og ýmsar nefndir eru skipaðar einmitt í þeim tilgangi. Ef efnahagsstjórnin byggist á ráðgjöf frá þessum hópum þá þarf heldur betur að taka til þar.

En þetta er ekki líklegt. Líklegast er að efnahagsstefnan sé byggð á ráðgjöf sem kemur frá einkavina- og sérhagsmunaneti Sjálfstæðisflokksins. Efstur á blaði er trúlega hinn geðþekki seðlabankastjóri Davíð Oddson með Hannes Hólmstein og Kjartan Gunnarsson á hæla sér. Þar fyrir utan hygg ég að flesta ráðgjafana sé að finna í hópi þeirra sem keyptu bankana, (matvöruverslunina), samgöngutækin og fjölmiðlana ásamt smáfyrirtækjum sem fylgdu með svo sem tryggingarfélögin, byggingarvöruverslanirnar og eldsneytisdreifinguna.

Það gengur hreinlega ekki að  Sjálfstæðisflokkurinn stjórni endurreisnarstarfinu.

Í mínum huga ber Samfylkingin litla ábyrgð á efnahagsstefnu síðustu 13 ára. En héðan í frá verður hún ekki stikkfrí. Það verður tekið vel eftir því hvað hún gerir og gerir ekki í þessari stöðu. Framtíð hennar til næstu ára og jafnvel áratuga verður mótuð á næstu vikum.


Athugasemdir

1 identicon

Ég vissi að þessi sjálfstæðisklíka ekki hafði hlustað á aðra en sjálfa sig, en að ekki hlusta á fjöldan allan af hagfræðingum, innlendum og erlendum, það er í raun og veru glæpsamlegt og ætti að enda fyrir dómstólum.

jgauti (IP-tala skráð) 28.10.2008 kl. 19:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband