Samfylking á skilorði

Í nýlegri könnun sögðust 37% myndu kjósa Samfylkinguna, en miklu fleiri hafa horft til hennar undanfarið í von um að hún sýndi af sér þor og dug í því ástandi sem ríkir. Nú er fólk að fá augnaþurrk og hálsríg af glápinu og það sjást engin merki um Samfylkingin ætli að axla ábyrgð eða sýna frumkvæði. Nú síðast stóð hún að skipun bankaráða í hrópandi ósamræmi við jafnréttislög (10/2008, gr. 15). Á sama tíma flytja nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar frumvarp um að jafnréttislög skuli einnig gilda um fjármálafyrirtæki í einkaeigu!!!

Í fyrrnefndri könnun kemur líka fram hversu mikil reiði, kvíði og óvissa ríkir í þjóðfélaginu. Ég fullyrði reyndar að reiðin sé í dag miklu almennari en þar kemur fram. Ofaná hinar fjárhagslegu hremmingar bætist nú reiðin yfir aðgerðarleysi, margsögli og leyndarhjúp sem hvílir yfir öllu. Forsætisráðherra mætir á fréttafundi og í viðtöl án þess að segja nokkuð. Hann telur að það ætti jafnvel að vera leyndarmál að hann sendi Kínverjum hjálparbeiðni. Viðskiptaráðherra mætir með honum og af hans munni streymir merkingarlaust orðagjálfur páfagauksins. 

 Þingmenn Samfylkingarinnar segja að það sé mikilvægt að jafnaðarmenn sitji í ríkisstjórn við núverandi aðstæður. Þeir segjast vera að vinna fjölmörg mál sem horfa til bóta fyrir þjóðfélagið og að nú sé ekki tími til að efna til kosninga. Og svo séu þeir bundnir í klafa stjórnarsáttmálans og vilja umfram allt sýna að þeir séu færir um að sitja í ríkisstjórn.

Allt er þetta einskisnýtt. Það er ekki nóg að vera jafnaðarmaður, það er ekki nóg að vera vinnusamur, það er ekki nóg að sitja í ríkisstjórn og stjórnarsáttmálinn er úrelt og ónýtt plagg.

Við, fólkið í landinu, verðum að fá  staðfestingu á því á hverjum einasta degi að Samfylkingin hafi það á stefnuskrá sinni að sækja um aðild að ESB, að hún ætli að hreinsa til í Seðlabankanum, að jafnrétti, jafnræði og lýðræði sé á dagskrá, að hún sé ekki hrædd við kosningar. Og allt þarf að vinna fyrir opnum dyrum og gluggum. Ekkert helvítis leyndarmakk. Við vitum ekki hvað ráðherrar og þingmenn hugsa. Það þarf að tala við okkur. Það þarf að segja okkur satt. Á hverjum degi, alltaf.

Ef ekki verður breyting á mun fólk grípa til ofbeldis eða gefast upp!!!


Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband