Samfylkingin, fallisti ársins?

Þetta ár færði okkur marga fallista en fáa sigurvegara. Í mínum huga standa tveir upp úr, sinn í hvorum flokki.

samfylkingin.jpg

 Samfylkingin er fallisti ársins. Allt fram í september leit út fyrir að hún myndi setja mark sitt á núverandi ríkisstjórnarsamstarf. Fyrstu fjárlögin lofuðu góðu og allt leit út fyrir að hún myndi hafa forgöngu um að endurreisa velferðarkerfi sem svo mjög var laskað eftir 12 ára frjálshyggjufyllirí Sjálfstæðisflokks (og Framsóknar). Hún virtist ætla að standa sig þokkalega í góðærinu.

 Þegar kreppan skall á virtist hana skorta þekkingu, þor og pólitískan metnað. Hún gerði t.d. ekkert af því sem Göran Person lýsti sem undirstöðuatriðum til að ná tökum á afleitu ástandi. Hún greindi ekki ástandið á skipulagðan hátt, hún markaði ekki skilgreindar leiðir út úr kreppunni og hún kynnti ekki heilsteypta aðgerðaáætlun til skamms og langs tíma.

 Til viðbótar þessu þá hlustaði hún ekki á fólkið í landinu sem tjáði sig á Austurvelli og í Háskólabíói, á hundruðum bloggsíðna, í sjónvarpi og útvarpi, í dagblöðum og heitum pottum.  Jafnvel örvæntingaróp fólks á eigin flokksstjórnarfundi, sem sagðist ekki geta stutt flokkinn sinn nema hann tæki sig á, megnuðu ekki að vekja forystuna til lífs.

 Það er svo langt frá því að það sé nóg að hamra á því að við núverandi aðstæður sé aldeilis nauðsynlegt að jafnaðarmenn sitji í ríkisstjórn. Í ríkisstjórn verða að sitja jafnaðarmenn sem tjá sig kvölds og morgna um lýðræði og jöfnuð, um spillingu og vanhæfi, um skilgreind markmið og leiðir. Það er ekki nóg að draga eitt og eitt lagafrumvarp upp úr hatti og veifa því. Við krefjumst þess að jafnaðar menn tali og tali opinskátt og af hreinskilni. Á þetta hefur vantað stórlega.

thorger_ur.jpg

 Sigurvegari ársins kemur úr ólíklegustu átt, - úr Sjálfstæðisflokknum. Hún heitir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Það er langt frá því að ég sé sammála henni um alla hluti. Ég skil t.d. ekkert í tali hennar um að nú þurfi að smala fólki til mennta og að skera um leið niður námslán og framlög til menntamála. En hún þorði að veita Davíði tiltal og hún hefur nánast ein og óstudd snúið Evrópustefnu Davíðs og Sjálfstæðisflokksins í hálfhring.

 Og nú bíðum við kosninga. Þegar þetta er skrifað er ekki líklegt að kosningar skili miklu. Það er ekki von til þess að núverandi stjórnmálaflokkar með að miklu leyti sama fólk í framboði geti tekið á þeim þjóðfélagsmeinum sem hafa komið svo skýrt í ljós að undanförnu. Þess vegna bíðum við líka eftir nýjum stjórnmálaöflum sem eru reiðubúin að berjast fyrir uppskurði á íslensku stjórnarfari.

 Við viljum meiri þátttöku almennings, virkara og rismeira þing og aukna ábyrgð framkvæmdavaldsins.


Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband