Eva Joly, Ragna og Gylfi

Eva-Joly-1

Þessa dagana eru menn mikið sammála um tvennt.

Annarsvegar um það hversu sterkur leikur það var hjá ríkisstjórninni að kalla tvo ópólitíska fagmenn til starfa með stjórninni. Þau Ragna og Gylfi hafa unnið sér sess  fyrir hógværð, látleysi og fagmennsku. Engir útúrsnúningar eða ráðherrarembingur þar. Þau svara spurningum hreint og beint og þurfa ekki að aðlaga svörin að  flokkshagsmunum eða hugsanlegum ómálefnalegum árásum andstæðinga. Þau virðast í raun eiga miklu færri andstæðinga en flokkspólitískir ráðherrar og geta betur sinnt þeim störfum sem þeim eru ætluð. Þetta er akkúrat það sem þjóðin þarf á að halda þessa dagana.

 Hitt atriðið varðar ráðningu Evu Joly til ráðgjafar fyrir þá sem sinna eiga rannsókn á hruninu og aðdraganda þess. Ég hef stundum hugsað hvort það sé hluti af drambsemi Íslendinga að telja sig geta allt sjálfir og vera bestir í öllu. Þessi hrokafulla afstaða átti örugglega sinn þátt í að við misstum allt. Drambsömu drengirnir ætluðu að breyta klukkunni, taka upp nýtt móðurmál og fundu enga í öllum heiminum sem stóð þeim á sporði.

Við hin horfum á þessa örfáu aðila sem eiga að finna, rannsaka og sækja til sakar þá sem etv hafa brotið af sér og finna þá sem bera pólitíska ábyrgð líka. Það sker í augun hversu fámennar þessar stofnanir eru og varla hægt að búast við að hver stofnun ráði við nema 2-3 mál. Sennilega verður þörf á að rannsaka 20-30 ef ekki 200-300 mál hjá hverri stofnun. 

Ráðning Evu voru því einhverjar bestu fréttir undanfarinna mánuða.  Það verður að gera hlutina upp á trúverðugan hátt. Í þjóðfélaginu ríkir reiði og tortryggni. Traust er beinlínis undirstöðuatriði til að hægt sé að starfa í lýðræði. Traust á kerfinu, traust til Alþingis og traust til stjórnmálamanna. En stofnanir og einstaklingar eru rúin trausti eins og nú er og margir liggja beinlínis undir grun um að þeir séu glæpamenn. Þessu verður að linna og Eva vekur von um að það megi takast.

Og hún byrjar vel með því að kalla mönnunina á embætti hins sérstaka saksóknara brandara. 


mbl.is Eva Joly sérstakur ráðgjafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athugasemdir

1 identicon

Hjartanlega sammála hverju einasta orði.  Og að fá Evu Joly til liðs við okkur er bestu fréttir lengi. 

ASE (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 20:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband