Skyni skroppnir sjálfstæðismenn?

Mikilli prófkjörshelgi er að ljúka og margt athyglisvert hefur komið í ljós. Eitt það merkilegasta og í raun það alvarlegasta er hvað þátttaka var tiltölulega lítil. Eftir magnaðasta vetur sem um getur í stjórnmálasögu Ísland, eftir hrun banka- og efnahagskerfis landsins og í skugganum af rannsóknum og málaferlum, sem etv eiga eftir að rífa íslenskt þjóðlíf í tætlur, þá er þátttakan mun minni en var 2007. 

Eftir 18 ára stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins hefur jafnvel flokksbundið fólk svo gjörsamlega tapað trausti til stjórnmálamanna að það mætir ekki til að kjósa þá á framboðslista. 

 Annað sem sker í augu er hvernig Sjálfstæðismenn raða á listana sína. Í Reykjavík úthluta þeir fyrrverandi stjórnarformanni peningabréfasjóðs nr. 9 hjá Glitni fyrsta sæti listans. Það á enn eftir að rannsaka allt varðandi þennan sjóð og þ.á.m. hvernig á því stóð að forsætis- og fjármálaráðherrar lýðveldisins nánast heimtuðu að fá að kaupa verðlitla pappíra af sjóðnum fyrir 11 milljarða án heimildar á fjárlögum og áður en neyðarlögin vegna yfirtöku bankanna voru samþykkt. Það er ekki víst að þarna hafi spillingarhrammur Sjálfstæðisflokksins verið að verki en það kann vel að vera.

Annað sætið lendir hjá fyrrverandi útrásarstjórnarformanni OR. Þetta er maðurinn sem var við stjórnvölinn þegar gerð var tilraun til að gefa græðgigæjunum fyrirtækið. Þetta er sami maðurinn sem taldi að janúar 2009 væri heppilegur tími til að setja allt á annan endann með misráðnum breytingum á heilbrigðiskerfinu. Eftir að hans menn höfðu ýtt okkur fram af hengifluginu ákvað hann að fjarlægja öryggisnetið líka.

Í Garðabæ var tilvonandi flokksformaður settur í fyrsta sæti. Maður sem væntanlega er persónulega og gegnum fjölskyldu sína meira flæktur í fjármálaævintýri síðustu ára en nokkur annar þingmaður.  Í öðru sæti er kona sem var aðili að fyrirtæki sem átti í grunsamlegum viðskiptum við Kaupþing svo ekki sé meira sagt. Þetta er ekki búið að rannsaka og sekt eða sakleysi því ósannað.

Sjálfstæðismenn eru ekki alltaf sammála um það hvort hrunið og kreppan eru stefnu flokksins eða "bara" þingmönnum flokksins að kenna. Hvorugu skal því breytt að sinni.

 


mbl.is Illugi sigraði í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sæll Gauti

Ég er sammála þér í því að Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera búinn að missa aðdráttaraflið.  Grátlega léleg aðsókn hjá flokknum í Reykjavík sýnir það.

Það er líka sorglegt hvað þeir sem mættu höfðu lítinn metnað til að endurnýja í þingmannaliði flokksins.

Kv.

Maddi

Marinó G. Njálsson, 16.3.2009 kl. 00:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband