Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Hvolparnir hennar Lísu

Venni með snuð Ég hef átt hunda í um 17 ár. Þegar ég eignaðist fyrsta hundinn, Venna, var sonur minn 8 ára og mér fannst vanta eitthvað mjúkt á heimilið, enda var þetta bara tveggja manna fjölskylda. Þess vegna varð Collie hundur (Lassí) fyrir valinu. Reyndar var ákvörðunin tekin að hluta vegna þess að mér bauðst þessi hundur, en hvað um það, þá svínvirkaði þetta þriðja element fyrir okkur báða. Hundar eru aldeilis ótrúleg dýr. T.d. getur þú verið með sama hundinn á heitri sólarströndu og í trylltu vetrarveðri á Íslandi eða inni á heimili þínu mestan hluta dagsins en stokkið með hann út í frost og skafrenning án þess að hann þurfi nokkurn undirbúning. Sjálfur þarf maður að kappklæða sig og dúða.

Kolla og Lísa eru gegt vinkonur Nú á ég Border Collie tík (Kollu) sem, líkt og Venni, er loðin með langt nef og dökkbrún augu. Mér fannst alltaf að þannig ættu kósý hundar að vera. En þá kynntist ég Lísu. Hún Frænka mín er í hundunum líka. Hún á einn eiginmann, 2 dætur, einn hund (Timor) og 3 tíkur (Aniku, Birtu og Lísu). Þegar maður er með hund er alveg nauðsynlegt að eiga svona Frænku. Hún segir að það sé allt í lagi að passa Kollu mína. Það muni ekkert um einn hund í viðbót. En á móti fæ ég stundum að passa hundana hennar og þannig kynntist ég Birtu og Lísu.

Allir saman, - alltaf Ég hef ekki verið mjög spenntur fyrir Labrador hundum og þeir eru gjörólíkir Border Collie hundum. Border Collie hundar eru fremur kvikir og spenntir. Þegar ég skil Kollu eftir í bínum þá situr hún og horfir í áttina á eftir mér þangað til ég kem aftur. Labrador situr kannske smá tíma en fær sér síðan legging í rólegheitum. Hann er afar tryggur og af því hann er veiðihundur þá gengur hann við hæl þegar honum er sagt að gera það, ekki bara nokkurn vegin við hæl. Þeir eru sagði afar barngóðir, þola öll veður og ég hef séð menn koma með drulluskítuga hunda úr veiði og spúla af þeim á bílaþvottaplani. Bara gott það.

Er maður sætur eða er maður sætur En hundar hafa ekki síður einstaklings einkenni en kynbundin einkenni. Og Lísa er alveg í sérklassa hvað varðar skap og viðmót. Það er eins og hún sé alltaf brosandi. Og frábærlega hlýðin og vel vanin. Maður þarf aldrei að segja hlutina nema einu sinni við hana, enda margverðlaunuð bæði fyrir veiðimennsku og útlit.

Og nú á hún 9 gullfallega hvolpa með þessum svaka gæja sem heitir Tiger og er líka marg verðlaunaður. Þegar við bætist að Frænka og fjölskyldan er með hvolpana í fanginu mestallan daginn þá má búast við að þeir verði ekki bara fallegir heldur líka meðfærilegir og mannelskir einstaklingar sem eiga eftir að gleðja væntanlega húsbændur sína í mörg ár.

Til hamingju Frænka (og Guðjón), til hamingju Lísa.

Það eru 4 hvolpar til sölu þegar þetta er skrifað (822 7705)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband