Færsluflokkur: Hreingerningar

Almannarómur og innantómur áróður

traust_til_stórmálamanna.gif   Í BNA eru repúblikhanar að ganga af göflunum yfir velgengni og vinsældum Obama. Ekkert er þeim heilagt í baráttunni gegn honum og hans málefnum. Frammámenn meðal fyrrnefndra hana taka þátt í skrípaleik um það hvort Obama sé í raun Bandaríkjamaður, hvort óhætt sé að leyfa honum að flytja ávarp fyrir skólabörn og nú síðast var gjammað frammí þegar hann ávarpaði sameinað þing.  Við erum að vísu vön frammíköllum vanstilltra og lítt þroskaðra þingmanna en mér skilst að þetta hafi ALDREI gerst áður þar vestra. Og þingmaðurinn sem braut hefðina er um þessar mundir þjóðhetja hægri öfgamanna á meðan æ fleiri eru farnir að nefna rasisma sem undirrót að öllu saman. Víst er um það að þingmaðurinn Wilson (sem gjammaði) á sér skrautlega  fortíð í rasisma.

 Hér heima hefur stjórnarandstaðan í þinginu haft hæst og þar eiga margir skrautlega fortíð líka. Ég hef reyndar haldið því fram að sumir á þeim bænum muni hljóta stöðu grunaðra í komandi uppgjöri. Málflutningur þeirra hefur varla verið frambærilegur og meira að segja persónuníð hafa ekki vafist fyrir þeim.  En þeir hafa hrakist úr einu horni í annað og nú heitir það að Jóhanna sé horfin. Og öfugt við það sem var fyrr í sumar, þegar stjórnarandstaðan taldi Jóhönnu og Steingrím varla opna munninn nema það væri til stórtjóns fyrir land og þjóð, þá á það að vera hið versta mál að þau skuli ekki standa daglangt á torgum úti núna. 

En almenningur í landinu sér gegnum þetta. Það sýnir skoðanakönnunin sem er efni moggafréttarinnar sem er tilefni þessa pistils. Þótt þau skötuhjúin moki viku eftir viku og mánuð eftir mánuð skítinn sem xD og xF skildu eftir sig og að skítaverk séu alls ekki vinsælust verka, þá bera þau bæði höfuð og herðar yfir aðra forystumenn stjórnmálanna.  Ég held að það sé m.a. vegna þess að  þjóðin veit að þau hafa enga hugsjón aðra en að vinn henni vel. Það er hægt að treysta þeim.

Hversu mikils virði er það á þessum tímum?


mbl.is Steingrímur nýtur mest trausts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öflugir fjölmiðlar óskast

Fyrr í sumar setti hið enska Daily Telegraph allt á annan endann í Englandi með því að birta leynilegar upplýsingar um misnotkun enskra þingmanna á endurgreiðslusjóðum þingsins. Ráðherrar sögðu af sér í kippum og þingmenn ýmist hættu eða lýstu því yfir að þeir myndu ekki gefa kost á sér í næstu kosningum. Brown varð amk í tvígang undir í umræðum um málið í þinginu og varð jafnoft að endurskoða og endurhanna þær ráðstafanir sem hann hygðist beita sér fyrir til að koma í veg fyrir að svona lagað gæti endurtekið sig. Forsætisnefnd þingsins varð sér til skammar þegar hún hugðist bregðast við með því að láta rannsaka hver hefði lekið en hvarf frá því vegna almennra og háværra mótmæla pressunnar, bloggheima og almennings.

Mér dettur þetta í hug núna þegar sú undarlega staða er komin upp að einum fjölmiðli hefur verið bannað að fjalla um lánabók Kaupþings frá því í fyrra haust, sem er öllum heiminum aðgengileg á netinu. Öðrum fjölmiðlum, þmt hinni útvarps- og sjónvarpsstöðinni,  netmiðlunum, dagblöðunum, bloggurum og reyndar almenningi öllum hefur ekki verið bannað að fjalla um þessar upplýsingar.

Ég átti hálfpartinn von á að fréttastofa Bylgjunnar myndi veita fréttamönnum RÚV aðgang að stöðinni til að flytja þær fréttir sem þeir hefðu ella flutt í eigin miðli. Ekki gekk það eftir. Ég vona enn að á þriðjudaginn fái þeir fasta dálka á besta stað í dagblöðunum til hins sama. Það hlýtur að standa bæði pressunni og frétta- og blaðamönnum nærri að verja tjáningarfrelsi og jafnræði til síðasta blóðdropa. Umfjöllun þeirra miðla sem eru virkir á þessari mestu ferða- og sukkhelgi ársins er þó ekki í þeim anda. Með samtakamætti miðlanna mætti í raun brjóta lögbannið á bak aftur í þágu tjáningarfrelsis.

Því miður eigum við ekki jafn öfluga fjölmiðla og Bretar. Einmitt þessa dagana, þegar lánabókinni er varpað eins og logandi kyndli í langþurra sinu, þá er Kastljós í fríi, Silfrið í fríi og Kompás hefur verið kæfður. Dagblöðin og netmiðlarnir minna stundum á gömlu flokksblöðin. Þau höfðu þrátt fyrir marga ókosti þann kost að maður vissi í stórum  dráttum hvaða sjónarmiða og hagsmuna þau þurftu að gæta. Nú láta flest dagblöðin og netmiðlarnir eins og þau séu frjáls og óháð, það þykir flottast, og tala bara óbeint fyrir stefnu eigenda sinna og aðstandenda. En það er erfitt að treysta þeim og flestir gæta þeir hagsmuna eigenda sinna þegar á reynir og það eru einmitt sömu aðilarnir sem settu okkur á hausinn. 

 Mörg blogg eru geysi öflug og reyndar svo mörg að ég treysti mér ekki til að reyna að telja þau upp. Þó get ég ekki stillt mig um að nefna Silfrið hans Egils sem hefur um árabil verið mjög öflugt. Egill nýtur þess að honum er treyst og margir verða til að senda honum frábært efni sem hann birtir okkur hinum. Þá á Lára Hanna mikið lof skilið fyrir að halda saman líklegasta og ólíklegasta efni fyrir okkur og á Tíðarandanum er hægt að fá yfirlit á einum stað yfir margt af því sem er verið að skrifa þá og þá stundina. Og svo er það Fésið.

Í heild er auðvitað miklu miklu meira efni í bloggheimum en hjá pressunni og í ljósvakamiðlum samanlagt og líklega birtist ekkert í blöðunum sem ekki hefur áður birst á bloggi. En blöð og ljósvakamiðlar hafa að mörgu leyti mikið forskot á bloggmiðla. Í bloggheimum er umræðan tiltölulega ómarkviss og efnið liggur oft hér og þar í bútum hjá mörgum aðilum og fólk les það á misjöfnum tímum og ekki sem heild. Þetta á að miklu leyti við um netmiðlana líka og það er erfitt að ræða efni sem mikill minnihluti manna þekkir á einhverjum tilteknum tíma. Í blöðum og í ljósvakamiðlum er efnið hinsvegar tekið saman, birt sem skipuleg heild og meðtekið af lesendum/áheyrendum á svipuðum tíma dagsins. Þetta er efnið sem rætt er á kaffistofum og í heitum pottum því það þekkja það allir.

 Þessa stundina er ástandið þannig að það er búið að kippa þeim fjölmiðli sem bæði er öflugasti fjölmiðill landsins og sá fjölmiðill sem flestir treysta út úr umræðunni um lánbók Kaupþings. Fréttatímar RÚV og Spegillinn munu ekki flytja fréttir af henni eða af efni sem þar kemur fram. Þar verður ekki fjallað um það hvernig Kaupþing var tilbúið að lána milljarða fúlgur til félaga sem að þeirra eigin mati voru mjög áhættusöm, lána milljarða til félaga gegn veði í eigin hlutabréfum og lána til félaga gegn litlum sem engum veðum eins og í tilfelli Skúla Þorvaldssonar. RÚV mun ekki flytja fréttir af því að líklega hefur Kaupþing lánað skildum aðilum hærri upphæðir en það mátt að lögum og með tilliti til eiginfjárstöðu Kaupþings sjálfs.

Er það nokkur furða að við þessar aðstæður taki menn eftir því að tveir synir sýslumannsins í Reykjavík, Rúnars Guðjónssonar, sem úrskurðaði lögbannið á RÚV, séu Frosti Reyr Rúnarsson, fyrrum forstöðumaður og kúlulánsþegi hjá Kaupþingi og Guðjón Rúnarsson, forstöðumaður Samtaka fjármálafyrirtækja. Þetta er algjörlega magnað!

 
 


Algjört gegnsæi

Fyrst og fremst erlendir aðilar, - óbindandi tilboðshugmyndir, - vill ekki segja hversu mörg tilboð.

 Allt uppá borðinu og gegnsætt á þessum bæ eins og vanalega. 


mbl.is Erlendir bjóða í HS Orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reykásar og rökfærslur

Guðni Th. segir frá því í Hruninu (bls. 144) að nokkrir starfsmenn FME hafi þegið rauðvín í áramótagjöf frá Kaupþingi og talið að það hefði verið ofurviðkvæmni að þiggja ekki þessar saklausu gjafir sem hefðu verið innan eðlilegra marka og þær gætu ekki flokkast sem mútur. Ekki kemur fram hvort hver stafsmaður þáði eina flösku eða kannske einn kassa enda skiptir það ekki máli. Svona var kúltúrinn hjá FME. 

Valtýr Sig sér ekki að hann geti verið vanhæfur þótt sonur hans sé forstjóri eins þeirra félaga sem mun koma oft og mikið við sögu við rannsókn bankanna. Þegar fréttamaður spyr hann hvort það muni ekki koma til hans kasta að ákvarða hvað skuli gera við mál sem verður vísað til embættis hans frá t.d. FME og varðar Kaupþing eða fyrirtæki sonarins, þá vefst honum tunga um tönn. 

Ættbogi Ragnars Reykáss er æði fjölmennur og áhrifamikill og teygir arma sína um allt íslenska þjóðfélagið. Nú um stundir einbeita þeir sér mjög í umræðum um Icesavemál og svo í árásum á Sigríði nokkra Benediktsdóttur. Konan sú situr í Rannsóknarnefnd Alþingis og hefur, að mati Reykásanna sem m.a. stjórnuðu rauðvínsklúbbi FME, unnið sér til vanhæfis að segja í almennum orðum frá framvindu mála á Íslandi í viðtali við skólablað í BNA. Ég las greinina og sýndist aðeins sagt frá málum sem eru á allra vitorði.

Marbara marbara áttar sig ekkáessu!


To be or not to be!

Enn er komið að grundvallar uppgjöri. Eva Joly hótar að hætta nema ríkisstjórnin sýni að hún sé tilbúin að standa að baki alvöru rannsókn. Ástandið í þjóðfélaginu er að verða eins og það var alvarlegast í vetur og ríkisstjórnin þarf að sanna fyrir þjóðinni hvort hún ætlar eða ætlar ekki:

  • Ætlar hún að láta rannsaka hvort lögbrot voru framin í bönkunum?
  • Ætlar hún að draga menn til saka ef lögbrot voru framin?
  • Ætlar hún að leita að stolnu fé?
  • Ætlar hún að hefja sig yfir feðraveldið á Íslandi?

 

Einhverjum kann að þykja að það sé við hæfi að taka ákvörðun um þessi atriði og upplýsa okkur kjósendur um þau á sama tíma og við erum upplýst um upphæðirnar sem okkur er ætlað að greiða vegna ófara bankanna. Ég er í þeim hópi.

Rannsóknin verður ekki einfalt verk og leikurinn mun berast um víðan völl. Sjálfsæðisflokkurinn hefur leitt krónprins Engeyjarættarinnar til formennsku og þar með tekið sér stöðu með Kolkrabbanum og á móti rannsókn. Jafnframt var leiddur fram Illugi nokkur formaður peningabréfasjóðs sem fékk sérstaka aðstoð umfram aðra slíka. Guðlaugur Þór var kosinn til mikilla áhrifa en hann var formaður Orkuveitunnar þegar til stóð að færa einkaaðilum öll verðmæti sem þar fyndust og hann hefur þegið ríflega styrki í formi peninga og fríðinda úr hendi greddugæjanna sem tröllriðu bönkunum. Varaformaðurinn Þorgerður Katrín naut gegnum eiginmann sinn „vildarkjara" við kaup á hlutabréfum. Framsókn kaus Sigmund Davíð til formennsku, erkijarl Marglyttunnar og erfingja framsóknarauðæfa og nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar, t.d. Steinun Valdís og Helgi Hjörvar hafa þegið styrki frá sömu aðilum.

Þetta sýnir bara lítið brot af þeim hagsmunatengslum sem eflaust eiga eftir að koma í ljós þegar og ef rannsóknin kemst af stað. Stjórnkerfið mun verða fyrir áföllum bæði kerfislægum og persónubundnum. Stjórnmálamenn munu verða yfirheyrðir og kallaðir til að bera vitni fyrir dómstólum, einkavæðingarferli bankanna mun verða áberandi sem og aðgerðir eftir að í óefni var komið og etv munu mútur og stórhneyksli verða á allra vörum. Það mun hrikta í baktjaldanetum hinna einstöku hagsmunahópa. 

Það var alltaf fyrirséð að Íslendingar myndu illa ráða við þetta verkefni sjálfir. Í okkar þjóðfélagi bætast ættar- og kunningjabönd við hagsmunanet sérhyggju og einkavina og hér hafa ættarböndin verið sterkustu böndin allt frá upphafi byggðar. Þess vegna batt ég miklar vonir við ráðningu Evu Joly. En svo virðist að þau öfl sem hafa hagsmuni af því að ekkert verði rannsakað séu langt komin með að vinna þessa baráttu áður en hún er hafin fyrir alvöru.

Ef ríkisstjórnin ætlar að svara einhverri af ofangreindum spurningum játandi þá er tími til aðgerða núna. Þó Eva geti líklega ekki formlega leitt þessa rannsókn þá þarf að líta á hana sem hinn raunverulega leiðtoga hennar. Það þýðir að hennar ráð verða okkar ráð. Það þarf greinilega að endurskipuleggja vinnuna og mér þætti ekkert skrítið þó ráða þyrfti hátt í 100 manns að henni, þar af ca þriðjung óháðra erlenda sérfræðinga. Og kostnaðurinn? Í fyrsta lagi verðum við að líta þannig á að þessum milljörðum sé varið til að styrkja innviði réttarríkisins.  Í öðrulagi til að innheimta eitthvað af því fé sem virðist hafa horfið og í þriðja lagi til að stuðla að friði í samfélaginu.

Orð Jóhönnu í grein mbl.is um afstöðu ríkisstjórnarinnar vekja nokkra bjartsýni um að farið verði að ráðum Evu.


mbl.is Ríkisstjórn styður Joly
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband