Kosningabaráttunni lauk í gærkvöldi þegar formenn stjórnmálaflokkanna sátu fyrir svörum í sjónvarpi og útvarpi. Enn og aftur sátu menn og ræddu saman eins og síðastliðinn vetur hefði verið fremur tíðindalaus. Það var engin leið að merkja að eldar hefðu brunnið á
Austurvelli, bumbur hefðu verið barðar og að tugir eða hundruð lögreglumanna hefðu staðið vörð um Alþingishúsið og Alþingismenn, gráir fyrir járnum.
Það var ekki minnst orði á að þúsundir mótmæltu á Austurvelli í 23 vikur samfellt. Það jafngildir því að margar milljónir hefðu mótmælt helgi eftir helgi í Washington eða hundruð þúsunda í London. Það var ekki minnst á kröfur fólksins um lýðræðisbætur og stjórnlagaþing eða að grasrótin í Samfylkingunni gerði uppreisn gegn forystu flokksins. Það var ekki minnst á þann fáheyrða atburð að ráðherra sagði af sér eða á mútugreiðslur til stjórnmálaflokka og/eða styrki til einstakra Alþingismanna.
Í stjórnmálum eru traust og heiðarleiki langmikilvægustu eiginleikar fólks og flokka. Þegar hvorugt er til staðar er lítils virði að ræða um fjármál, atvinnumál og velferð. Þetta er það sem brennur á kjósendum eftir fjárhagshrunið í vetur sem leið og siðferðisbresti kjörinna fulltrúa sem komu í ljós í framhaldinu.
HVAÐ ER TIL RÁÐA HVAÐ Á MAÐUR AÐ KJÓSA?
"Stjórnmálamennirnir sýna sterkan ásetning um að fela fyrir kjósendum mikilvægar upplýsingar um gjafir til þeirra frá stórfyrirtækjunum sem þeir áttu að beita aðhaldi fyrir okkar hönd. Þeir samtryggja sig um að fela krosstengslin milli stjórnmála og viðskipta. Það er í slíku samfélagi sem spilling þrífst...
Baráttan gegn spillingu er ekki aðeins hugsjón. Hún snýst þegar allt kemur til alls um hagkvæmni og velferð samfélagsins í heild. Spillingin gagnast hinum fáu, eins og þingmönnunum okkar og þeim ríkustu á meðal okkar, en hún kostar almenning. Hún endar alltaf á því að seilast í vasa almennings og færa fé yfir í hendur hinna fáu...
Árið 1993 fengu 1% ríkustu fjölskyldurnar á Íslandi 4,2% af heildartekjunum. Árið 2007 hafði hlutur hinna fáu aukist í tæp 20%...
Við vitum ekki enn hversu mikið stórfyrirtækin styrktu stjórnmálamennina, hverjir styrktu þá og hvað peningarnir voru notaðir í. Þannig vilja stjórnmálamennirnir okkar hafa það. En þeir verða að skilja, að þeir komast ekki upp með það...
Stóra kosningamálið í ár er ekki ESB, ekki fiskveiðistjórnunarkerfið og ekki virkjanaframkvæmdir. Stóra spurningin í kosningunum er: Hverjum getum við treyst?... "
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.