Hversu áhættusækinn ertu?
7.6.2009 | 21:44
Ég var ekki við samningaborðið þegar samið var um Icesavemálið og ég svaf á mitt græna eyra þegar samningurinn var undirritaður. Það er kannske þessvegna sem ég veit svo lítið um hann. En mér finnst hann lykta illa. Hversvegna var hann t.d. undirritaður um miðja nótt? En þrátt fyrir þetta þá finnst mér líklegast að samningurinn sé sá besti sem hægt var að ná.
Þetta er vegna þess að í fyrrahaust var SJS algjörlega á móti því að við greiddum þessar Icesave skuldir og taldi líklegt að hér yrði uppreisn ef það yrði gert. SJS er þekktur fyrir að vera staðfastur í skoðunum sínum og það þarf áreiðanlega mikið, mjög mikið, til að hann skipti um skoðun í jafn stóru máli og þessu. Nú hefur hann skipt um skoðun og það hefur hann ekki gert nema sterk rök hnigi til þess að það sé okkur fyrir bestu.
Ég er líka ánægður með að þessi mál skuli leidd til lykta undir yfirumsjón SJS fremur en t.d. Bjarna Ben. SJS er ekki svo ég viti hokinn vegna sér- og/eða einkahagsmuna sem hann þarf að gæta á undan hagsmunum okkar, fólksins í landinu. Bjarni Ben er hinsvegar með gjörvallan kolkrabbann og afkomendur hans á bakinu. Hann hefði því þurft að gæta þeirra hagsmuna á undan okkar og jafnvel á undan hagsmunum D-flokksins líka. Fjölskylduböndin eru frá alda öðli sterkustu böndin í íslensku þjóðfélagi.
Ýmsir virðast hafa einhverjar patentlausnir á takteinunum sem að mestu byggjast á því að borga ekki neitt. Sömu aðilar láta eins og þeir viti að við munum nánast ekkert fá uppí skuldirnar úr eignum Landsbankans. Þeir telja sig vita betur en t.d alþjóðlegar (óháðar) endurskoðunarskrifstofur og innlendir sérfræðingar sem hafa metið eignasafnið. Er líklegt að svo sé?
En svo eru enn þessir sömu aðilar tilbúnir til að taka áhættuna og láta okkur bera kostnaðinn af málaferlum sem byggjast á mati lögfræðimenntaðra sérfræðinga þegar kemur að því að fara í mál útaf einhverju.
Það má vel vera að við hefðum getað tekið gríðarlega mikla og dýra áhættu og farið í málarekstur sem byggðist væntanlega á því að einhverjir aðilar hefðu verið svo vondir við okkur. Slíkur málarekstur hefði tekið mörg ár eða áratugi og hvað ætluðum við að gera á meðan og hvað ætluðum við að gera ef við töpuðum málinu? Erum við enn í sama áhættu- og græðgisgírnum eins og áður en hrunið dundi á okkur?
Í mínum huga snýst þetta mál að lokum um það að íslenskir aðilar stofnuðu til algjörlega óraunhæfra skulda með velþóknun íslenskra stjórnvalda. Þegar allt fór á versta veg hlaut að koma að því að við þyrftum að fara að lögum réttarríkisins og standa við þessar skuldbindingar. En seðlabankastjórinn DO sá til þess prívat og persónulega í "við borgum ekki" viðtali í sjónvarpi að aðrar þjóðir stilltu okkur upp við vegg.
Ef við blásum til uppreisnar skulum við gera það á réttum forsendum.
Óskiljanleg ákvörðun stjórnvalda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þú sendir mér slóðina á þetta blogg og því vil ég gjarnan svara með því að vísa í stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar en þar fjöllum við sérstaklega um þetta mál:
6. Strax verði hafist handa við að meta heildarskuldir þjóðarbúsins og að því loknu gert upp við lánardrottna eftir bestu getu. ICESAVE-reikningar Landsbankans og aðrar skuldir bankanna erlendis verði ekki greiddar fyrr en álit óháðra sérfræðinga liggur fyrir um skyldur Íslands, m.t.t. þess að sennilega hafi verið um svikamyllu að ræða en ekki eðlilega bankastarfsemi. Rannsakað verði hvað varð um allar færslur á reikningum bankanna erlendis sem og lánveitingar þeirra til tengdra aðila, fjármunirnir sóttir og þeim skilað til eigenda. Stjórnendur og eigendur bankanna verði gerðir ábyrgir fyrir því sem upp á vantar. Samið verður við grannþjóðirnar um það sem út af stendur m.t.t. neyðarástands efnahagsmála á Íslandi og reynt að fá þær skuldir niðurfelldar. Samhliða því verði gefið loforð um að 2% af VLF Íslands renni til þróunaraðstoðar á ári í tíu ár til að sýna góðan vilja Íslendinga til að verða ábyrg þjóð meðal þjóða.
Birgitta Jónsdóttir, 7.6.2009 kl. 22:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.