Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009
Spillta Ísland
25.4.2009 | 11:19
"Stjórnmálamennirnir sýna sterkan ásetning um að fela fyrir kjósendum mikilvægar upplýsingar um gjafir til þeirra frá stórfyrirtækjunum sem þeir áttu að beita aðhaldi fyrir okkar hönd. Þeir samtryggja sig um að fela krosstengslin milli stjórnmála og viðskipta. Það er í slíku samfélagi sem spilling þrífst...
Baráttan gegn spillingu er ekki aðeins hugsjón. Hún snýst þegar allt kemur til alls um hagkvæmni og velferð samfélagsins í heild. Spillingin gagnast hinum fáu, eins og þingmönnunum okkar og þeim ríkustu á meðal okkar, en hún kostar almenning. Hún endar alltaf á því að seilast í vasa almennings og færa fé yfir í hendur hinna fáu...
Árið 1993 fengu 1% ríkustu fjölskyldurnar á Íslandi 4,2% af heildartekjunum. Árið 2007 hafði hlutur hinna fáu aukist í tæp 20%...
Við vitum ekki enn hversu mikið stórfyrirtækin styrktu stjórnmálamennina, hverjir styrktu þá og hvað peningarnir voru notaðir í. Þannig vilja stjórnmálamennirnir okkar hafa það. En þeir verða að skilja, að þeir komast ekki upp með það...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sorugur Sjálfstæðisflokkur
10.4.2009 | 12:40
Sumir halda kannske að samtvinning auðvalds og stjórnmála í Sjálfstæðisflokknum sé nýtt fyrirbrigði. En það er ekki og áður náði hún hámarki á fyrrihluta síðustu aldar þegar Ólafur Thors gegndi starfi forsætisráðherra, bankaráðsmanns í Landsbankanum, forstjórastarfi í Kveldúlfi og formennsku í Sjálfstæðisflokknum, allt á sama tíma. Á fyrsta áratug þessarar aldar náði þessi samtvinning aftur hámarki þegar Sjálfstæðisflokkurinn bankavæddi samfélagið með aðstoð auðvaldsins og þegar bankarnir síðan eikavæddu samfélagið með aðstoð Sjálfstæðisflokksins. Þá var D-flokkurinn orðinn ómerkilegt peð á skákborði bankanna og fór aðeins með stjórnmálin í umboði þeirra.
Í þessu sérhagsmuna fyrirkomulagi taldi mikill fjöldi manna sér trú um að hag þeirra væri best komið undir pilsfaldi flokksins og að það gæti verið stórhættulegt fyrir þá að hafa sjálfstæða skoðun. Sennilega höfðu þeir rétt fyrir sér. Mörgum fannst þó lyktin vond þegar Reykjavíkurdeild flokksins gerði hvað eftir annað á sig svo um munaði og margur óbreyttur d-liðinn tapaði stórfé í kollsteypunni miklu. Þegar flokkurinn var svo "settur af" í janúar s.l. og stoðunum þar með kippt undan valdastoðunum þá fóru menn í alvöru að hugsa sinn gang.
Eftir nýjustu uppákomuna er svo ljóst að flokkurinn er að hrynja, - innanfrá. Hver á fætur öðrum verða menn nú tvísaga, muna ekki og benda á næsta mann. Það er ótvírætt merki um að menn séu að ljúga þegar þeir svara ekki því sem spurt er um heldur einhverri spurningu sem ekki var orðuð við þá. Þannig hafa þeir svarað Guðlaugur Þ, Kjartan G o.fl.
Og það er brostinn flótti í liðið. Margir hafa nú þegar lýst hneykslun sinni á vinnubrögðum flokksins og margir eiga eftir að tjá sig bæði um síðustu uppákomu og annað. Óbreyttum þingmönnum þykir erfitt að sitja undir ámæli um spillingu og margir sem orðið hafa undir í gegnum árin munu upplýsa um soruga gerninga. Og það er nú það.
Það þarf að upplýsa alla atburðarásina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sérhagsmunir Sjálfstæðisflokksins
6.4.2009 | 21:00
Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki áttað sig á því að hann er í málþófi. Og málþófið beinist gegn því að valdinu sé skipað í samræmi við óskir fólksins í landinu. Flokkurinn virðist ekki gera sér grein fyrir að allt vald býr með fólkinu og fólkið getur hagað framsali þess eins og því hentar best á hverjum tíma. Og nú hentar fólkinu best að taka valdið til að semja og/eða gera breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins frá Alþingi og færa það til stjórnlagaþings. Af hverju skyldi það nú vera?
- Gæti það verið vegna reynslunnar af því hvernig Alþingi hefur gengið að gera nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni?
- Gæti það verið vegna þess að það sé algjörlega út í hött af grundvallar ástæðum að Alþingi ávarði sjálft hvernig valdi þess sé háttað?
- Gæti það verið vegna þess að breytingar á stjórnarskrá séu svo mikilvægar að það beri að fela það samkomu (stjórnlagaþingi) sem er sérstaklega til þess kosin og til einskis annars?
- Gæti það verið vegna þess að þjóðin vill freista þess að losa sig úr málþófi eins og Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir á Alþingi þessa dagana?
Hlé á þingfundi vegna framboðsfundar? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |