Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Öflugir fjölmiðlar óskast

Fyrr í sumar setti hið enska Daily Telegraph allt á annan endann í Englandi með því að birta leynilegar upplýsingar um misnotkun enskra þingmanna á endurgreiðslusjóðum þingsins. Ráðherrar sögðu af sér í kippum og þingmenn ýmist hættu eða lýstu því yfir að þeir myndu ekki gefa kost á sér í næstu kosningum. Brown varð amk í tvígang undir í umræðum um málið í þinginu og varð jafnoft að endurskoða og endurhanna þær ráðstafanir sem hann hygðist beita sér fyrir til að koma í veg fyrir að svona lagað gæti endurtekið sig. Forsætisnefnd þingsins varð sér til skammar þegar hún hugðist bregðast við með því að láta rannsaka hver hefði lekið en hvarf frá því vegna almennra og háværra mótmæla pressunnar, bloggheima og almennings.

Mér dettur þetta í hug núna þegar sú undarlega staða er komin upp að einum fjölmiðli hefur verið bannað að fjalla um lánabók Kaupþings frá því í fyrra haust, sem er öllum heiminum aðgengileg á netinu. Öðrum fjölmiðlum, þmt hinni útvarps- og sjónvarpsstöðinni,  netmiðlunum, dagblöðunum, bloggurum og reyndar almenningi öllum hefur ekki verið bannað að fjalla um þessar upplýsingar.

Ég átti hálfpartinn von á að fréttastofa Bylgjunnar myndi veita fréttamönnum RÚV aðgang að stöðinni til að flytja þær fréttir sem þeir hefðu ella flutt í eigin miðli. Ekki gekk það eftir. Ég vona enn að á þriðjudaginn fái þeir fasta dálka á besta stað í dagblöðunum til hins sama. Það hlýtur að standa bæði pressunni og frétta- og blaðamönnum nærri að verja tjáningarfrelsi og jafnræði til síðasta blóðdropa. Umfjöllun þeirra miðla sem eru virkir á þessari mestu ferða- og sukkhelgi ársins er þó ekki í þeim anda. Með samtakamætti miðlanna mætti í raun brjóta lögbannið á bak aftur í þágu tjáningarfrelsis.

Því miður eigum við ekki jafn öfluga fjölmiðla og Bretar. Einmitt þessa dagana, þegar lánabókinni er varpað eins og logandi kyndli í langþurra sinu, þá er Kastljós í fríi, Silfrið í fríi og Kompás hefur verið kæfður. Dagblöðin og netmiðlarnir minna stundum á gömlu flokksblöðin. Þau höfðu þrátt fyrir marga ókosti þann kost að maður vissi í stórum  dráttum hvaða sjónarmiða og hagsmuna þau þurftu að gæta. Nú láta flest dagblöðin og netmiðlarnir eins og þau séu frjáls og óháð, það þykir flottast, og tala bara óbeint fyrir stefnu eigenda sinna og aðstandenda. En það er erfitt að treysta þeim og flestir gæta þeir hagsmuna eigenda sinna þegar á reynir og það eru einmitt sömu aðilarnir sem settu okkur á hausinn. 

 Mörg blogg eru geysi öflug og reyndar svo mörg að ég treysti mér ekki til að reyna að telja þau upp. Þó get ég ekki stillt mig um að nefna Silfrið hans Egils sem hefur um árabil verið mjög öflugt. Egill nýtur þess að honum er treyst og margir verða til að senda honum frábært efni sem hann birtir okkur hinum. Þá á Lára Hanna mikið lof skilið fyrir að halda saman líklegasta og ólíklegasta efni fyrir okkur og á Tíðarandanum er hægt að fá yfirlit á einum stað yfir margt af því sem er verið að skrifa þá og þá stundina. Og svo er það Fésið.

Í heild er auðvitað miklu miklu meira efni í bloggheimum en hjá pressunni og í ljósvakamiðlum samanlagt og líklega birtist ekkert í blöðunum sem ekki hefur áður birst á bloggi. En blöð og ljósvakamiðlar hafa að mörgu leyti mikið forskot á bloggmiðla. Í bloggheimum er umræðan tiltölulega ómarkviss og efnið liggur oft hér og þar í bútum hjá mörgum aðilum og fólk les það á misjöfnum tímum og ekki sem heild. Þetta á að miklu leyti við um netmiðlana líka og það er erfitt að ræða efni sem mikill minnihluti manna þekkir á einhverjum tilteknum tíma. Í blöðum og í ljósvakamiðlum er efnið hinsvegar tekið saman, birt sem skipuleg heild og meðtekið af lesendum/áheyrendum á svipuðum tíma dagsins. Þetta er efnið sem rætt er á kaffistofum og í heitum pottum því það þekkja það allir.

 Þessa stundina er ástandið þannig að það er búið að kippa þeim fjölmiðli sem bæði er öflugasti fjölmiðill landsins og sá fjölmiðill sem flestir treysta út úr umræðunni um lánbók Kaupþings. Fréttatímar RÚV og Spegillinn munu ekki flytja fréttir af henni eða af efni sem þar kemur fram. Þar verður ekki fjallað um það hvernig Kaupþing var tilbúið að lána milljarða fúlgur til félaga sem að þeirra eigin mati voru mjög áhættusöm, lána milljarða til félaga gegn veði í eigin hlutabréfum og lána til félaga gegn litlum sem engum veðum eins og í tilfelli Skúla Þorvaldssonar. RÚV mun ekki flytja fréttir af því að líklega hefur Kaupþing lánað skildum aðilum hærri upphæðir en það mátt að lögum og með tilliti til eiginfjárstöðu Kaupþings sjálfs.

Er það nokkur furða að við þessar aðstæður taki menn eftir því að tveir synir sýslumannsins í Reykjavík, Rúnars Guðjónssonar, sem úrskurðaði lögbannið á RÚV, séu Frosti Reyr Rúnarsson, fyrrum forstöðumaður og kúlulánsþegi hjá Kaupþingi og Guðjón Rúnarsson, forstöðumaður Samtaka fjármálafyrirtækja. Þetta er algjörlega magnað!

 
 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband