Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010
Magma og heillum horfin Samfylking
26.7.2010 | 11:49
Úr stofnskrá Samfylkingarinnar samþ. 2000:
"Samfylkingin telur að sameiginlegar auðlindir Íslendinga, svo sem nytjastofnar sjávar og orkan í fallvötnum og á jarðhitasvæðum, skuli vera ævarandi þjóðareign. Eðlilegt endurgjald fyrir afnot af þeim á að renna til þjóðarinnar."
Úr stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar 2007:
"Samfylkingin vill að þjóðareign á sameiginlegum auðlindum verði bundin í stjórnarskrá."
Úr stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar 2009:
"Nauðsynlegt er að breyta stjórnarskrá til að tryggja þjóðareign á sameiginlegum auðlindum..."
Úr stefnuræðu formanns Samfylkingarinnar á landsfundi 2009:
"Við leggjum mikla áherslu á að ákvæði um þjóðareign á auðlindum verði sett í stjórnarskrá og að þannig verði komið í veg fyrir að eignarhald okkar mikilvægustu auðlinda lendi í einkaeign fárra."
Úr samstarfsyfirlýsingu Samfylkingar og VG 2009:
"Standa þarf vörð um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum sínum."
Miðað við samantektina hér að ofan myndu sumir halda að stefna Samfylkingarinnar í auðlindamálum væri nokkuð skýr. Margir myndu líka halda að þegar Samfylkingin er í stjórnarsamstarfi með flokki sem í aðalatriðum hefur sömu afstöðu til eignarhalds á auðlindum þá sé öllu óhætt. Staðreyndin er hinsvegar sú að forystumenn Samfylkingarinnar virðast handónýtir þegar kemur því að varðveita eða að koma auðlindunum í þjóðareign.
Þegar alþjóðleg risafyrirtæki eru að sölsa undir sig auðlindir þá beita þau gjarnan málflutningi sem byggist á því "að enn sé ekkert ákveðið, að eingöngu sé um könnun að ræða, að það sé nægur tími til að gera athugasemdir" o.s.frv. Um leið eru hinsvegar settir frestir og bundnar dagsetningar og fyrr en varir er orðið allt of seint að hafa skoðun á málinu. Mér finnst eins og stjórnvöld hafi beitt almenning svipuðum aðferðum varðandi þetta Magma mál. Í 4 ár hefur okkur verið sagt að ekkert væri að óttast og að stjórnvöld hefðu fullan rétt til að koma að málinu á síðari stigum.
Það er ömurlegt að þurfa nú að hlusta á fulltrúa Magma endurtaka í sífellu að stjórnvöld hafi haft ótal tækifæri til að hafa áhrif á og/eða koma í veg fyrir þessa samninga en nú sé það um seinan.
Miðað við kynningu á þessum samningi sem ég hlustaði á í Grindavík í fyrra þá er hann ein svívirða frá upphafi til enda. Sjálfbær nýting auðlindanna er ekki tryggð, tímalengdin jafngildir nánast sölu á auðlindunum og endurgjaldið fyrir afnotin er svo lágt að engu tali tekur.
Hvað þýðir eiginlega þjóðareign? Á þjóðareign við um það þegar hlutafélög á markaði eða lífeyrissjóðir eiga auðlindir. Ég held ekki og dæmin sýna að hvorugt gengur upp. Við þurftum að fara gegnum ansi erfiða atburðarás til að átta okkur á þessu enda var þetta ein af kennisetningum útrásarapanna og þeirra stjórnmálaafla sem deildu völdum með þeim. En getur þjóðareign átt við um eign sem er í eigu fámenns sveitarfélags? Nei. Þjóðareign þýðir bara þjóðareign, eign sem öll þjóðin á, ber ábyrgð á og nýtur arðs af ef svo vill til.
Styðja ekki ríkisstjórnina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)