Færsluflokkur: Sjálfstæðisflokkurinn

Á Sjálfstæðisflokkurinn að bjarga okkur?

Í sautján og hálft ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn farið með stjórn efnahags- og fjármála Íslands. Í 12 ár hafði hann Framsóknarflokkinn sér til fulltingis og satt að segja nenni ég varla að tilgreina sérstaklega forsætisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar því fæstir gerðu sér grein fyrir að tveir flokkar sætu í ríkisstjórn. Enda skræmti drengjaliðið í Sjálfstæðisflokknum undan því að ráða- og flokksmenn Samfylkingarinnar leyfðu sér að hafa aðra skoðun á einstökum málum en Sjálfatæðisflokkurinn. Þeir höfðu aldrei kynnst öðru eins.

Með hverjum degi sem líður koma frjálshyggju vinnubrögð Sjálfstæðisflokksins betur í ljós. Á sama tíma og þjóðfélagið var á floti í peningum, á meðan bankar ýttu auknum lánum að almenningi, á meðan þeir kölluðu sparifjáreigendur til sín og hvöttu þá til að taka meiri áhættu með því að fjárfesta í sjóðum og hlutabréfum og á meðan stjórnvöld sungu útrásaróð við texta sem saminn var í þessum sömu bönkum, þá var ekki greitt í varasjóði þjóðarinnar. Ábyrgðarsjóður launa er stórskuldugur eftir uppgangstíma, gjaldeyrisvarasjóðurinn nánast tómur og innistæðutryggingasjóðir sömuleiðis. Þetta hlýtur að vera dæmalaust.

Síðustu ár hafa varnaðarorð hagfræðinga dunið í eyrum okkar. Íslenskir hagfræðingar sem starfa hérlendir eða erlendis og erlendir hagfræðingar í búntum hafa reynt að vara stjórnvöld við. Ég man  ekki eftir einum einast hagfræðingi sem lýsti trausti á þessi galdraverk sem í gangi voru. Eins og títt er um galdra var þetta full flókið fyrir almenning, en stjórnvöld áttu að skilja viðvaranirnar. Þeim bar skylda til þess.

En eru ráðherrar ekki bara menn eins og þú og ég, menn sem ekki hafa sérþekkingu á efnahagsmálum? Auðvitað eru þeir það, en þeir eiga að hafa reynslu og þeir hafa aðgang að fjölda sérfræðinga í ráðuneytunum og stofnunum ríkisins (reyndar fór Davíðþá leið að reka bara þá sem ekki voru samþykkir honum). Þeir geta líka ráðfært sig við utanaðkomandi sérfræðinga og ýmsar nefndir eru skipaðar einmitt í þeim tilgangi. Ef efnahagsstjórnin byggist á ráðgjöf frá þessum hópum þá þarf heldur betur að taka til þar.

En þetta er ekki líklegt. Líklegast er að efnahagsstefnan sé byggð á ráðgjöf sem kemur frá einkavina- og sérhagsmunaneti Sjálfstæðisflokksins. Efstur á blaði er trúlega hinn geðþekki seðlabankastjóri Davíð Oddson með Hannes Hólmstein og Kjartan Gunnarsson á hæla sér. Þar fyrir utan hygg ég að flesta ráðgjafana sé að finna í hópi þeirra sem keyptu bankana, (matvöruverslunina), samgöngutækin og fjölmiðlana ásamt smáfyrirtækjum sem fylgdu með svo sem tryggingarfélögin, byggingarvöruverslanirnar og eldsneytisdreifinguna.

Það gengur hreinlega ekki að  Sjálfstæðisflokkurinn stjórni endurreisnarstarfinu.

Í mínum huga ber Samfylkingin litla ábyrgð á efnahagsstefnu síðustu 13 ára. En héðan í frá verður hún ekki stikkfrí. Það verður tekið vel eftir því hvað hún gerir og gerir ekki í þessari stöðu. Framtíð hennar til næstu ára og jafnvel áratuga verður mótuð á næstu vikum.


Við viljum kosningar

Þetta er allt dálítið öfugsnúið. Ég held að Vagerður Sverrisdóttir hafi staðið sig vel, - fyrir sinn flokk. Hinsvegar hef ég nánast alltaf verið ósammála henni þangað til núna. Ég er sem sagt sammála henni um að það eigi að blása til kosninga eins fljótt og unnt er.  T.d. næsta vor.

Staðan er þannig að Sjálfstæðismenn fara með embætti forsætis- og fjármálaráðherra, eins og þeir hafa gert í meira en 17 ár. Að mínu mati er það út í hött að endurreisnarstarfinu verði stjórnað af Sjálfstæðisflokknum. Það bara gengur ekki. Nú þarf ný viðhorf og ný vinnubrögð. Það verður að víkja sérhagsmunaneti Sjálfstæðisflokksins til hliðar um stund. 

Nú leita menn logandi ljósi að ráðgjöfum Sjálfstæðisflokksins undanfarin ár.  Ekki svo að skilja að Davíð Oddsson hafi talið sig hafa þörf fyrir ráðgjafa, en líklegast er að ráðgjafarnir hafi verið sömu mennirnir sem keyptu bankana, - og settu þá á hausinn. 


mbl.is Stjórnmálin biðu hnekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn megum við gjalda í boði Sjálfstæðisflokksins

Það þarf ekki langt mál um þessa yfirlýsingu Geirs. Hún sýnir svo ekki verður um villst að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki fær um að reka Davíð og koma skikk á stjórn Seðlabankans. Persónulegu vandamálin sem rúið hafa stjórn bankans öllu trausti bæði innanlands og utan verða því enn um skeið vandamál allrar þjóðarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn til að láta okkur blæða fyrir gömul og ný afglöp Davíðs sem eiga enn eftir að kosta okkur ómældar fjárhæðir auk þess vantrausts sem honum fylgir. 

Því fyrr sem stjórnarslit geta orðið því betra. 


mbl.is Ekki persónugera viðfangsefnin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hryðjuverk í seðlabanka

Seðlabankinn

 

Nú liggur fyrir að Bretar beittu lögum gegn hryðjuverkum til að stöðva starfsemi íslensku bankanna í Englandi. Þetta var fyrsta og eina skiptið, síðan þessi lög voru sett eftir 11. sept. 2001, sem þau hafa verið notuð á þennan hátt. Geir H. segir það vera aldeilis óviðunandi að bresk stjórnvöld beiti slíkum lögum gegn Íslendingum og íslenskum hagsmunum og boðar viðeigandi viðbrögð af hálfu íslenskra stjórnvalda. 

 Í meira en áratug hafa leiknir og lærðir kallað eftir aðildarviðræðum að ESB.  Í nokkur undanfarin ár hefur atvinnulífið kallað eftir Evru og sérfræðingar varað við þeim atburðum sem nú hafa gerst og að hið litla íslenska hagkerfi sé ekki nægilega stórt og öflugt til að verja bankana. Í mörg ár hafa bankarnir sóst eftir leyfi til að gera upp í Evrum.

Munurinn á íslensku kreppunni og Evrópu kreppunni er sá, að við búum við lítið hagkerfi, háa vexti, mikla verðbólgu og veikan gjaldmiðil. Þetta eru allt afleiðingar af stefnu Davíðs Oddssonar í íslenskum stjórnmálum og Seðlabanka. Það er afleitt að vera flokkaður með hryðjuverkamönnum af erlendum stjórnvöldum. En aðgerðir Davíðs síðustu tvær vikur eru ekkert annað en hryðjuverk. 

Davíð er orðinn (fyrir löngu síðan segja sumir) sjálfstætt þjóðhagslegt vandamál. Þrátt fyrir það er ekki annað að sjá, en að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að slá skjaldborg um hann.  Ég vona að svo verði ekki en óttast að þannig verði það.

Annað vandamál Sjálfstæðisflokksins er auðvitað Árni Matthiesen.


mbl.is FME yfirtekur Kaupþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband