Færsluflokkur: Geir Haarde
Ísland úr NATO
3.3.2009 | 10:57
Eitt af því marga sem þarf að endurskoða eftir 18 ára valdatímabil Sjálfstæðisflokksins er þessi loftrýmiseftirlitssamningur. Það er í raun dálítið magnað að Ingibjörg Sólrún skuli ekki hafa gert það á þeim tveimur árum sem hún hefur setið í utanríkisráðuneytinu.
Til að byrja með má gera grein fyrir forsendum samninganna. Með hverju eru menn að hafa eftirlit og hvaða hætta steðjar að okkur sem eftirlitið á að upplýsa um? Mér finnst alveg koma til greina að segja sig frá öllu þessu hernaðarbrölti sem er undirrót meirihluta allra vandræða í heiminum.
„Þessa leiki þarna suðurfrá“ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Geir Haarde | Breytt s.d. kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Geir viðurkennir aldrei mistök
19.2.2009 | 13:52
Hvað er með þennan mann? Nú er að verða síðasta tækifæri fyrir hann til að hysja upp um sig áður en hann fer í úreldingu. Eða ætlar hann virkilega að flytja með allt niður um sig, algjörlega berrassaður (á typpinu segja börnin), á næsta skeið í lífinu?
Maðurinn hefur aftur og aftur orðið uppvís að leynimakki og lygi og hvað eftir annað hefur hann sýnt fádæma dómgreindarleysi. Og svo var hann hæstráðandi um efnahagsmál landsins í aðdraganda hrunsins. Aldrei hefur hann viðurkennt að hann hafi haft rangt fyrir sér, að hann hafi gert minnstu mistök.
Það lítur helst út fyrir að hann vonist til þess að hinn sérstaki saksóknari og rannsóknarnefnd þingsins kæri hann ekki fyrir brot á hegningarlögum því þá hafi hann syndakvittun. Það er eins og hann geri sér ekki grein fyrir að það er munur á sakhæfu athæfi og pólitískri ábyrgð.
Nú síðast kallaði hann Jóhönnu Sig lygara í ræðustúf á Alþingi. Þegar í ljós kemur að hún fór með rétt mál en hann rangt, þá hvað.... jú, - hann kennir öðrum um.
Kannast einhver við þetta mynstur?
Geir Haarde | Breytt 3.3.2009 kl. 22:09 | Slóð | Facebook
Virðingarvert en......
25.1.2009 | 12:05
Jísúskræst hvað stjórnmálamenn geta verið grunnir. Sennilega halda menn að nú dugi að fórna Björgvin. Sennilega hefði nægt að fórna honum ásamt Árna Matt fyrir þremur mánuðum síðan. Ekki fyrir það að í mínum huga hefur höfuðpaurinn Geir H alltaf verið efstur á blaði. E.t.v. hleypur Sjálfstæðisflokkurinn til eftir hádegið og fórnar Árna Matt og Davíð.
En eftir allt sem á undan er gengið eru aðrar og meiri kröfur uppi í samfélaginu. Það hefur orðið algjör trúnaðarbrestur milli þjóðarinnar og ríkisstjórnarinnar. Og meira en það því trúnaðarbresturinn hefur færst yfir á alla stjórnmálamenn. Það er afleit og stjórnarfarslega hættuleg staða og þess vegna dugar ekkert hálfkák núna.
Í vikunni sem leið kom fram eindregin krafa grasrótar Samfylkingarinnar um að slíta stjórnarsamstarfinu nú þegar. Allt annað verður talið til undanbragða. Um allt þjóðfélagið hljómar krafan um stjórnlagþing til að taka völdin af Alþingi og stjórnmálamönnunum sem þar sitja og munu væntanlega sitja eftir kosningar. Á stjórnlagaþingi á að endurskrifa stjórnarskránna ekki síst með það í huga að setja stjórnmálamönnum skorður og beina valdinu í auknum mæli til fólksins.
Ingibjörg stóð sig ágætlega sem borgarstjóri í góðæri. Við lok setu sinnar sýndi hún hinsvegar algjöran skort á pólitísku innsæi. Það sama hefur sýnt sig eftir strandið í október.
Því miður!
Björgvin segir af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Geir Haarde | Breytt 3.3.2009 kl. 22:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sjúkir stjórnmálaleiðtogar?
24.1.2009 | 19:29
Mín fyrstu viðbrögð við yfirlýsingu Geirs H um veikindi sín í gær voru að sennilega væri þetta bara spuni. Lýgin og leyndarmakkið undanfarna mánuði ásamt nýjum upplýsingum daglega um það svindl og svínarí sem átti sér stað í fjármálaheiminum hefur gert mig svo tortryggin að mér datt í alvöru í hug að kallinn væri að koma sér undan með enn einni barbabrellunni. Það þurfti massíft tiltal félaga og vina til að sannfæra mig um annað.
Allir hafa verið veikir. Allir vita að starfsgeta þeirra er stórlega skert í veikindum, eftir veikindi og meira að segja í aðdraganda veikinda áður en þeir vissu hvað var á seyði. Og þetta á við tiltölulega saklaus veikindi eins og kvef og gigtarkast. Það þarf enginn að segja mér að einstaklingur sem greinist með alvarlegan sjúkdóm sem getur leitt til mikilla og langvarandi veikinda sé með fulla starfsgetu. Sennilega býr sá hin sami aðeins við brot af eðlilegu þreki.
Báðir leiðtogar stjórnarflokkanna hafa greinst með þannig sjúkdóma. Við vissum fyrir að þeir þjást af alvarlegum dómgreindarskorti varðandi þarfir þjóðarinnar fyrir breytingar, hreinskilni og heiðaleika. Nú bætist við að þá virðist algjörlega skorta dómgreind til að meta áhrif persónulegra áfalla á sig sjálfa og líkamlegt og andlegt atgjörvi sitt. Þeir virðast halda að alvarlega sjúkir eða ekki, þá séu þeir bestir og e.t.v. þeir einu sem geta leitt flokka sína og þjóðin.
Þegar þetta er skrifað er boltinn enn og aftur hjá Ingibjörgu Sólrúnu. Sagt er að hún hafi umboð formanna flokksfélaganna um allt land en ekki sagt til hvers hún hefur umboð frekar en venjulega. Líklega kemur það þjóðinni ekki við. Flokksfélögin í Reykjavík og víðar hafa hinsvegar bæði veitt henni umboð og gert henni skylt að setjast niður með fleirum en formanni Sjálfstæðisflokksins með það fyrir augum að koma Sjálfstæðisflokknum frá.
Það er mikill og alvarlegur misskilningur Ingibjörg Sólrún að þær þúsundir manna sem mótmæltu um allt land í dag tali ekki fyrir þjóðina. Lestu bara skoðanakannanir þar að lútandi.
Mikill fjöldi á Austurvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Geir Haarde | Breytt 3.3.2009 kl. 22:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Góðar fréttir og slæmar
22.1.2009 | 00:19
Góðu fréttirnar eru samþykkt langstærsta flokksfélagsins innan Samfylkingarinnar um að tafarlaust skuli slíta stjórnarsamstarfinu og blása til kosninga eigi síðar en í maí. Nú á eftir að koma í ljós hvort línurnar milli grasrótarinnar og flokksforystunnar séu styttri en milli fólksins í landinu og ríkisstjórnarinnar. Á sama tíma hefur skyndilega opnast ný leið til að mynda stjórn án Sjálfstæðisflokksins til skamms tíma.
Slæmu fréttirnar eru þær að á hverjum deginum sem líður verður ljósara að Geir H ræður ekki við nokkurn skapaðan hlut og hrokinn í honum og hans liði öllu (t.d. Árna Matt) er nánast óskiljanlegur. Hvað hefur hann til að hreykja sér af? Ekki efnahagsstjórn síðustu 10 ára. Hann talar um vinnufrið sem hann hefur ekki unnið fyrir og hótar upplausn sem hann sér ekki að er löngu brostin á.
Útspil Guðlaugs Þórs í heilbrigðismálum sínir betur en margt annað hversu gjörsamlega blindir og ónæmir ráðherrarnir eru fyrir ástandinu í þjóðfélaginu. Það að varpa þessum tillögum inn í þetta ástand er sannarlega eins og að kasta olíu á eld. Er þetta rétti tíminn til að setja líf óteljandi einstaklinga, heilu vinnustaðanna, í uppnám. Er þetta rétti tíminn til að segja fólki upp, flytja það milli sveitarfélaga, neyða það til að selja húsin sín, færa börn milli skóla og rífa þau úr samhengi við vini sína og umhverfi, skipa fólki á nýja vinnustaði með nýju fólki. Og allt þetta fyrir og miklu meira fyrir ótrúlega lítinn sparnað sem væntanlega reiknast innan skekkjumarka þegar allt er talið.
Þessir menn hafa sýnt það að þá skortir dómgreind til að sinna starfi sínu. Burt með báða.
Samþykktu ályktun um stjórnarslit | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Geir Haarde | Breytt 3.3.2009 kl. 22:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ráðgjafar Geirs eru fundnir
18.11.2008 | 14:39
Þetta er alveg þrælmögnuð frétt.
- Fréttin er að langmestu um það hvernig Davíð hirtir efnahagsmálaráðherrann Geir H á fundi í höfuðvígi Sjálfstæðismanna, en fyrirsögnin er um fjölmiðla. Þetta er Mogginn!!!
- Davíð upplýsir um að hann sé alsaklaus og gefur smjörklípur á báða bóga til að varpa kastljósinu á aðra.
- Seðlabankastjóri talar eins og pólitíkus sem er auðvitað best til þess fallið að hvorki embættismenn. sérfræðingar eða stjórnmálamenn geta treyst honum.
Geir H svarar svo þessum ásökunum foringja síns og læriföðurs með nokkrum orðum í fréttum RÚV í hádeginu. Þar kemur fram að vissulaga hafi Davíð varað hann við. Það gerðu líka tugir af virtum innlendum og erlendum hagfræðingum. En Geir H fór með þetta allt saman á fund bankastjóranna og þeir sögðu honum að ekkert væri að óttast.
Þar með er staðfest að ráðgjafar Geirs H, efnahagsmálaráðherra, voru bankastjórar viðskiptabankanna sem áttu að vera undir sérstöku eftirliti hans og ríkisstjórnarinnar. Þetta er það sem ég taldi mig vita og kemur fram í færslu hér og hér.
Þetta gengur engan vegin.
Fjölmiðlar í heljargreipum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Geir Haarde | Breytt 3.3.2009 kl. 22:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvurn skrattan getum við að gert?
16.11.2008 | 16:22
Enn eitt frábært Silfur hjá Agli. Eftir að hann fór að bjóða til sín venjulegu fólki og fólki með sérþekkingu á því sem hæst ber þessa dagana hefur þátturinn gengið í endurnýjun lífdaga. Þessi svokallaða stjórnmálaumræða, eins og hún fór fram þar og í kastljósi, var alveg hætt að skila nokkrum sköpuðum hlut. Reyndar er langt síðan.
Samlíking Kristínar Helgu á ástandinu í fjölskyldu fíkilsins og á þjóðarheimilinu var sláandi.
Undanfarin ár hafa fíklar ráðið ferðinni hjá okkur. Eftir að hafa notfært sér velvilja, meðvirkni og fáfræði fjölskyldunnar (þjóðarinnar) til að harka út lán og komast hjá uppgjöri við lánadrottna, þá setja þeir heimilið á hausinn. En það nægir ekki til að fíklarnir sjái ljósið. Öllum nema þeim er ljóst að þeir þurfa að fara í meðferð en það er bæði gagnlaust og illmögulegt að koma þeim í meðferð nema með þeirra eigin samþykki.
Og þjóðin er einmitt í þessari stöðu. Allir sjá spillinguna, hrokann og yfirganginn sem stjórnvöld sýna okkur, - nema þau sjálf. Eru einhver vandamál þar spyr Geir H þegar hann er spurður um aðgerðir til að reisa við orðstý þjóðarinnar og breytingar í Seðlabankanum. Það eru spennandi og skemmtilegir tímar framundan segir Þorgerður Katrín. Eru þau nokkuð að spila hörpudúett meðan þjóðin þjáist? Og hvurn skrattann getum við gert? Þetta er eins og í tilviki fíkilsins. Við getum ekki lagt hann inn og við getum heldur ekki svipt hann forræði.
Það hlýtur að vanta eitthvað í stjórnskipun landsins!!!
Sá eini sem ekki virtist skilja neitt var Ágúst Ólafur, þingmaður og varaformaður Samfylkingarinnar. Heldur hann í raun að þingið geti skipað óháða nefnd Íslendinga sem rannsaka á hann og kollega hans? Þmt alla ráðherrana sem eru jú þingmenn. Heldur hann í raun að bankaráðin séu ópólitísk, óháð og eingöngu fagleg eða talar hann bara svona? Ágúst er ungur og vel menntaður maður en vantar hann svona gjörsamlega bæði reynslu og þroska eða er hann svona samdauna kerfinu?
Geir Haarde | Breytt 3.3.2009 kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er ekki í lagi með manninn
15.11.2008 | 13:16
Það fjölgar málunum þar sem Geir H er í tómu tjóni. Það má ekki spyrja um Seðlabankann, um ónýtt orðspor Íslands eða hvort hann hafi hugleitt að segja af sér. Þá bara bregst hann við með skætingi og hroka og dembir sér yfir spyrjandann.
Og hann lendir í algjöru rugli þegar hann er spurður um fyrri yfirlýsingar um eðli Icesave-málsins og lausnina sem hann er búinn að samþykkja núna. Brown sá sér hag í að fórna Íslendingum en það er jafn augljóst að Geir H þurfti á smjörklípu að halda til að beina kastljósinu frá sjálfum sér og Sjálfstæðisflokknum. Múgæsingartal hans um að allir í heiminum væru asnar og fífl nema hann sjálfur sýndi, að hann var líka tilbúinn að fórna íslenskum hagsmunum. Hann var greinilega tilbúinn til að bjóða öllum byrgin á kostnað okkar.
Nú er komið í ljós að ESB var alltaf tilbúið að setja málið í gerð. Árni Matt (vá, liðið sem er að vinna fyrir okkur maður) var meira að segja búinn að samþykkja það fyrir okkar hönd. En það passaði ekki inn í málflutning Geirs svo Árni var á augabragði gerður að ómerking á alþjóðlegum vettvangi. - Enn og aftur!!!. Eftirá skýringar sem ætlaðar eru til innanlandsneyslu duga ekki.
Þetta gengur engan vegin. Við verðum að losna við Sjálfstæðisflokkinn. Geir H er margflæktur í eigin lygar og útúrsnúninga, Davíð er sérstakt efnahagslegt vandamál og Árni er.... ...ja hann er bara eins og hann er. Ég meinti Árna Matt en ekki samþingmanninn frá Vestmannaeyjum.
Það er allt útlit fyrir að Ingibjörg Sólrún hafi leyst Icesave-málið og samskiptavandamálin við IMF og ESB. Um leið og ég er kröfuharður og læt óspart í ljós skoðanir mínar á öllu sem miður fer, þá er ég alveg til í að benda á það sem gert er af viti.
Geir Haarde | Breytt 3.3.2009 kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Geir fattar ekki málið!
13.11.2008 | 11:30
Það er mjög líklegt að ástæðan fyrir því að IMF vill ekki veita okkur fyrirgreiðslu sé allt önnur en sú sem íslensk stjórnvöld segja okkur. Geir H segir Breta og Hollendinga beita þrýstingi til að Icesave málin verði leyst áður en IMF afgreiði umsókn okkar. Hann telur þetta til marks um að þeir blandi saman óskyldum málum og beiti bolabrögðum.
Sennilega er rétta skýringin sú að IMF telur sig ekki vita hver efnahagsleg staða Íslands er eða hver hún verður fyrr en búið er að ganga frá uppgjöri um Icesave reikningana. Jón Daníelsson telur að skuldirnar sem Ísland gæti þurft að taka á sig nemi sem svarar vergri landsframleiðslu. Það munar um minna og eðlilegt að IMF og önnur ríki geti illa tekið afstöðu til lána án þess að vita hver staða þjóðarbúsins sé.
Þetta er líklega það sem Geir H hefur ekki fattað og það sem hefur tafið fyrir endurreisninni. Það er tími til kominn að horfast í augu við raunveruleikann og snúa sér að lögfræðilegum rökum varðandi Icesave. Við þekkjum útúrsnúningarök Sjálfstæðisflokksins vel frá umræðunni hér innanlands og vitum að þau eru ekki boðleg.
Samningar um Icesave eina leiðin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Geir Haarde | Breytt 3.3.2009 kl. 22:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þögnin er sjálfstætt vandamál
12.11.2008 | 12:42
Af hverju segir enginn okkur hvað er að gerast. Í illa unninni frétt sem tengist þessari færslu staðfestir Geir H að "enn sé eftir að ganga frá fjármögnun annarra ríkja sem þurfi að fylgja láni IMF." Allt annað er í véfrétta stíl. Á mbl.is og visir.is eru amk 7 misvísandi fréttir bara í dag. Athygli vekur að margar skástu heimildirnar eru erlendar. Auk þess er frétt á visir.is um það sem blaðið hefur ekki fengið svör um.
Þögnin er orðin sjálfstætt vandamál.
Ingibjörg: Hollendingar og Bretar leggja ofurkapp á að tefja vegna Icesave
Engar ástæður gefnar fyrir frestun
IMF-lán strandar á öðrum lánum
Bretar styðja IMF-lán, Hollendingar standa í veginum
IMF-lán strandar á öðrum lánum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Geir Haarde | Breytt 3.3.2009 kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)