Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Hvað er eiginlega í gangi?

Er allt að falla í sama gamla flokkspólitíska farið þar sem hagsmunir FLOKKSINS ganga ávallt framar hagsmunum fólksins? Miklu framar. Leyndar- og lygahjúp er sveipað um málefnaumræður og gegnið á svig við yfirlýsingar í kosningabaráttunni. Formenn og forystulið gengur íbyggið um ganga og gefur misvísandi en einskisverðar upplýsingar um ekki neitt. Þetta kemur okkur ekkert við. FLOKKARNIR eru að semja.

Margir kusu VG vegna ítrekaðra yfirlýsinga um að ekki yrði mikið mál að semja um lýðræðislega leið til að fólkið fengi að tjá sig um ESB-viðræður. Margir kusu SF vegna þess að þeir héldu að flokkurinn sem setti D-flokkinn frá myndi starfa í anda gegnsæis og lýðræðis.  En strax daginn eftir kosningar var kosningunum rænt af FLOKKUNUM. Djúp og að því er virðist illbrúanleg gjá opnaðist á milli forystumanna þeirra um ESB.  Okkur var sagt að viðræður um ríkisfjármál og stjórnkerfisbætur væru hafnar og færu fram samhliða umræðum um ESB en í raun hófust þessar viðræður ekki fyrr en á laugardaginn var. Allt tóm lygi og við virðumst ekkert eiga inni frá stjórn hinna 80 daga nema skít undir teppum. 

 Allt er eins og það var 2008.

Ráðuneyti hinna 18 ölmusuúrræða  er heillum horfin. Allar aðgerðir sem miða að því að forða heimilum og fyrirtækjum frá því að lenda á sveit eru sagðar kosta of mikið. En hvað kostar það ríkissjóð að yfirtaka húsnæði tugþúsunda fjölskyldna? Hvað verður um allar þessar fjölskyldur eftir að þær hafa verið settar á sveit? Hvað ætla bankar og íbúðalánasjóður að gera við allt þetta húsnæði? 

Nú þegar sjást merki kreppunnar í skólum og á vinnustöðum en það er bara forsmekkur af því sem mun verða þegar fjöldagjaldþrotin dynja yfir. Tugþúsundir fjölskyldna, sumir segja 40 þús, á faraldsfæti. Börn flutt "en gross" milli skóla, stóraukin afbrotatíðni, þverrandi andlegt og líkamlegt heilbrigði, aukinn ójöfnuður og sár fátækt í meira mæli en við höfum séð áður. Hvað kostar þetta???

Væri ekki sniðugt að reikna út hvað þetta kostar frekar en að afskrifa með drambi allar tillögur um neyðarhjálp fyrir fólk sem ekki er alveg drukknað. Það fólk getur náð sér aftur þegar hlúð er að því. Þeir sem drukkna ná sér aldrei aftur. Tímarnir eru óvenjulegir og þeir kalla á óvenjulegar aðgerðir.

Aðgerðir til stuðnings fólki sem ekki er orðið gjaldþrota eiga sér stuðning í öllum flokkum þ.á.m. í stjórnarflokkunum. Þær hafa verið til umræðu síðan í fyrra haust t.d. í þessum pistli og margar útfærslur hafa litið dagsins ljós. E.t.v. þurfum við samt annarskonar stjórn til að þær nái fram að ganga og sama gildir um ESB. 

 


mbl.is Stjórnarmyndunarviðræðum haldið áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband