Sóley átti daginn
16.9.2009 | 12:07
Það var kraftur í ræðu Sóleyjar. Það er ekkert nýtt en sakar ekki að geta þess.
Borgarstýran var lélegust. Hún hélt því aftur og aftur fram að hún ætti engra annarra kosta völ. Það væru engir aðriri leikir í stöðunni. Hún yrði að gera þetta svona og gera þetta núna. Þetta væri bara allst ekki á hennar valdi. Þetta væri allt saman einhverri vondri eftirlitsstofnun úti í bæ aðkenna.
Óskar viðurkennir þó að hann telur rétt að gera þetta og finnst hann gera fínan samning.
Það finnst mér ekki. Ég held að þessi eign sé miklu meira virði. Það breytir ekki því að mesta ódæðisverkið verður unnið suður í Reykjanesbæ af fyrrverandi borgarstjóra okkar Reykvíkinga Árna Sigfússyni og félögum hans. Hann mun í kjölfar sölu OR selja Magma einkarétt á nýtingu mestallrar orku á Reykjanesi. Fyrir lágt kaupverð, gegn hlægilega (eða er það grátlega) lágu árlegu gjaldi (30 milljónir) en með fulltingi meirihlutans í Reykjavík.
Það verður erfitt að reisa þessa þjóð við ef menn byrja á að afhenda væntanlegan auðlindaarð okkar og næstu 2-4 kynslóða til innrásarvíkinga í boði xD.
Heitt og rafmagnað í Ráðhúsinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ingólfstorg: Ég mótmæli
9.9.2009 | 14:31
Í raun er það nokkuð merkilegt og talsvert mikil tilviljun að þetta torg skuli vera til. Allstórt torg í miðjum miðbæ Reykjavíkur sem er umlukið um 100 ára gömlum húsum á þrjá vegu. Mér telst til að elsta húsið sé frá 1881 og það yngsta frá 1920. Þá er ekki tekið tillit til seinnitíma breytinga og viðbóta. Ein tilviljunin er að ekki skúli hafa verið byggt á suðurhluta torgsins eftir að Hótel Ísland brann 1944, en hótelið stóð þar sem lengi var kallað Hallærisplan. Á norðurhluta torgsins ver rekin leigubílastöð, Bifreiðastöð Steindórs, allt þar til Ingólfstorg var formlega opnað 1993.
Torgið stóð einnig að mestu af sér "stórhuga" skipulagsbreytingar og uppbyggingu í miðbænum um 1930 og aftur á 7. áratug síðustu aldar. Á fyrra tímabilinu var t.d. elsti hluti Landsímahússins byggður, Hótel Borg, Nathan og Olsen húsið (Reykjavíkur Apótek) og húsið sem Café Paris er í. Á síðara tímabilinu var m.a byggt við Landssímahúsið og byggðar neðstu 2 hæðirnar á Miðbæjarmarkaðnum (Aðalstræti 9). Moggahúsið var byggt 1955 eftir skipulagi sem gerði ráðfyrir að farið yrði með stóra jarþýtu á Grjótaþorp og Suðurgötu og að lagt yrði breiðstræti sunnan Landssímahússins, norðan Alþingishússins og Dómkirkjunnar og upp Amtmansstíg. Hús Iðnaðarmanna við Hallveigarstíg var byggt eftir sama skipulagi.
Ingólfstorg hefur þá sérstöðu að út úr því opnast margar götur og að gömlu húsin ná inní allar þessar götur. Meðal þeirra húsa sem við upplifum frá torginu er t.d. elsta hús Reykjavíkur frá 1770. Margir þekkja erlendis frá þá tilfinningu að vera á gömlu torgi með spennandi götur í allar áttir. Frá Ingólfstorgi er aðeins steinsnar uppí Grjóraþorp, útí Hlaðvarpa og Gróf og inná Austurvöll. Margt af því sem okkur er kærast í Borginni er líka í næsta nágernni. Landnámssýningin, Alþingishúsið og Dómkirkjan, Tjörnin og Tjarnarbakkarnir. Ég er þess full viss að í náinni framtíð munum við gera torgið upp og bæta það. Þangað til a.m.k. megum við ekki missa einn einast fercentimeter af því.
Eftirfarandi tölvupóst sendi ég skipulagsyfirvöldum 7. september s.l:
Ég leyfi mér hér með að mótmæla í heild tillögu sem merkt er Vallarstræti, breyting á deiliskipulagi, síðast breytt 26. maí 2009. Í sjónrænu samhengi er útirýmið sameign allra vegfarenda. Það er opinbert rými sem varðar bæði þá sem eiga lögvarðra hagsmuna að gæta, t.d. vegna nýtingar á eða verndunar eigna, og þá sem nota rýmið til útivistar eða eiga þar leið um. Borgaryfirvöld á hverjum tíma viðurkenna þetta í reynd með því að verja hundruðum milljóna árlega í fegrun og viðhald á þessu rými.
1. Ég mótmæli því að Borgarland sé á þennan máta afhent framkvæmdaraðila. Land er takmörkuð auðlind og miðborgarland ætti aldrei að afhenda þriðja aðila nema víðtæk samstaða sé um að mikilsverð verðmæti komi á móti. Um það er ekki að ræða í þessu tilviki heldur eru framkvæmdaraðila látin eftir mikil umhverfisverðmæti að auki.
2. Ég mótmæli því hvernig sjónræn tengsl til húsanna við Aðalstræti 10 og 12 eru rofin og húsin, einkum Aðalstræti 10, í reynd færð út af Ingólfstorgi.
3. Ég mótmæli því hvernig Vallarstræti 4 og Aðalstræti 7 eru færð inn á Ingólfstorg eins og það er í dag.
4. Ég mótmæli því hvernig Vallarstræti er framlengt og gert að sólarlausu skuggasundi meira og minna til einkaafnota fyrir framkvæmdaraðilann. Um leið verður tengingin við Víkurtorg að mestu leyti marklaus.
5. Ég mótmæli hæð og umfangi þeirra húsa sem áætlað er að byggja sunnan við Ingólfstorg samkvæmt tillögunni.
6. Ég mótmæli stóraukinni skuggamyndun á Ingólfstorgi sem rýrir gildi þess til útivistar verulega.
7. Ég mótmæli því hvernig fyrirhugað er að minnka Ingólfstorg.
8. Ég mótmæli því hvernig fyrirhugað er að byggja fimm hæða hús strax aftan við Thorvaldsenstræti 2.
9. Ég mótmæli greinargerðinni á blaði nr. 1 sem að miklu leyti er innihaldslaust gaspur í þessu samhengi.
Ég get þó tekið undir ýmislegt af því sem ýjað er að í gr. 3 í greinargerðinni og sem kemur fram í tillögum að breyttu deiliskipulagi fyrir Ingólfastorg og er að því ég best veit óskylt tillögunni að skipulagi við Vallarstræti. Það er hins vegar dálítið öfugsnúið og ótrúverðugt ef Borgaryfirvöld gera sér grein fyrir að æskilegt sé að styrkja torgið til útivistar og samkomuhalds annar vegar en byrja á því að rýra stórlega þessi sömu gæði hins vegar.
Virðingarfyllst,
Guðlaugur Gauti Jónsson
Hér eru mjög fínar myndir Sturlu Snorrasonar frá Ingólfstogi og víðar
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Öflugir fjölmiðlar óskast
3.8.2009 | 00:10
Fyrr í sumar setti hið enska Daily Telegraph allt á annan endann í Englandi með því að birta leynilegar upplýsingar um misnotkun enskra þingmanna á endurgreiðslusjóðum þingsins. Ráðherrar sögðu af sér í kippum og þingmenn ýmist hættu eða lýstu því yfir að þeir myndu ekki gefa kost á sér í næstu kosningum. Brown varð amk í tvígang undir í umræðum um málið í þinginu og varð jafnoft að endurskoða og endurhanna þær ráðstafanir sem hann hygðist beita sér fyrir til að koma í veg fyrir að svona lagað gæti endurtekið sig. Forsætisnefnd þingsins varð sér til skammar þegar hún hugðist bregðast við með því að láta rannsaka hver hefði lekið en hvarf frá því vegna almennra og háværra mótmæla pressunnar, bloggheima og almennings.
Mér dettur þetta í hug núna þegar sú undarlega staða er komin upp að einum fjölmiðli hefur verið bannað að fjalla um lánabók Kaupþings frá því í fyrra haust, sem er öllum heiminum aðgengileg á netinu. Öðrum fjölmiðlum, þmt hinni útvarps- og sjónvarpsstöðinni, netmiðlunum, dagblöðunum, bloggurum og reyndar almenningi öllum hefur ekki verið bannað að fjalla um þessar upplýsingar.
Ég átti hálfpartinn von á að fréttastofa Bylgjunnar myndi veita fréttamönnum RÚV aðgang að stöðinni til að flytja þær fréttir sem þeir hefðu ella flutt í eigin miðli. Ekki gekk það eftir. Ég vona enn að á þriðjudaginn fái þeir fasta dálka á besta stað í dagblöðunum til hins sama. Það hlýtur að standa bæði pressunni og frétta- og blaðamönnum nærri að verja tjáningarfrelsi og jafnræði til síðasta blóðdropa. Umfjöllun þeirra miðla sem eru virkir á þessari mestu ferða- og sukkhelgi ársins er þó ekki í þeim anda. Með samtakamætti miðlanna mætti í raun brjóta lögbannið á bak aftur í þágu tjáningarfrelsis.
Því miður eigum við ekki jafn öfluga fjölmiðla og Bretar. Einmitt þessa dagana, þegar lánabókinni er varpað eins og logandi kyndli í langþurra sinu, þá er Kastljós í fríi, Silfrið í fríi og Kompás hefur verið kæfður. Dagblöðin og netmiðlarnir minna stundum á gömlu flokksblöðin. Þau höfðu þrátt fyrir marga ókosti þann kost að maður vissi í stórum dráttum hvaða sjónarmiða og hagsmuna þau þurftu að gæta. Nú láta flest dagblöðin og netmiðlarnir eins og þau séu frjáls og óháð, það þykir flottast, og tala bara óbeint fyrir stefnu eigenda sinna og aðstandenda. En það er erfitt að treysta þeim og flestir gæta þeir hagsmuna eigenda sinna þegar á reynir og það eru einmitt sömu aðilarnir sem settu okkur á hausinn.
Mörg blogg eru geysi öflug og reyndar svo mörg að ég treysti mér ekki til að reyna að telja þau upp. Þó get ég ekki stillt mig um að nefna Silfrið hans Egils sem hefur um árabil verið mjög öflugt. Egill nýtur þess að honum er treyst og margir verða til að senda honum frábært efni sem hann birtir okkur hinum. Þá á Lára Hanna mikið lof skilið fyrir að halda saman líklegasta og ólíklegasta efni fyrir okkur og á Tíðarandanum er hægt að fá yfirlit á einum stað yfir margt af því sem er verið að skrifa þá og þá stundina. Og svo er það Fésið.
Í heild er auðvitað miklu miklu meira efni í bloggheimum en hjá pressunni og í ljósvakamiðlum samanlagt og líklega birtist ekkert í blöðunum sem ekki hefur áður birst á bloggi. En blöð og ljósvakamiðlar hafa að mörgu leyti mikið forskot á bloggmiðla. Í bloggheimum er umræðan tiltölulega ómarkviss og efnið liggur oft hér og þar í bútum hjá mörgum aðilum og fólk les það á misjöfnum tímum og ekki sem heild. Þetta á að miklu leyti við um netmiðlana líka og það er erfitt að ræða efni sem mikill minnihluti manna þekkir á einhverjum tilteknum tíma. Í blöðum og í ljósvakamiðlum er efnið hinsvegar tekið saman, birt sem skipuleg heild og meðtekið af lesendum/áheyrendum á svipuðum tíma dagsins. Þetta er efnið sem rætt er á kaffistofum og í heitum pottum því það þekkja það allir.
Þessa stundina er ástandið þannig að það er búið að kippa þeim fjölmiðli sem bæði er öflugasti fjölmiðill landsins og sá fjölmiðill sem flestir treysta út úr umræðunni um lánbók Kaupþings. Fréttatímar RÚV og Spegillinn munu ekki flytja fréttir af henni eða af efni sem þar kemur fram. Þar verður ekki fjallað um það hvernig Kaupþing var tilbúið að lána milljarða fúlgur til félaga sem að þeirra eigin mati voru mjög áhættusöm, lána milljarða til félaga gegn veði í eigin hlutabréfum og lána til félaga gegn litlum sem engum veðum eins og í tilfelli Skúla Þorvaldssonar. RÚV mun ekki flytja fréttir af því að líklega hefur Kaupþing lánað skildum aðilum hærri upphæðir en það mátt að lögum og með tilliti til eiginfjárstöðu Kaupþings sjálfs.
Er það nokkur furða að við þessar aðstæður taki menn eftir því að tveir synir sýslumannsins í Reykjavík, Rúnars Guðjónssonar, sem úrskurðaði lögbannið á RÚV, séu Frosti Reyr Rúnarsson, fyrrum forstöðumaður og kúlulánsþegi hjá Kaupþingi og Guðjón Rúnarsson, forstöðumaður Samtaka fjármálafyrirtækja. Þetta er algjörlega magnað!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Algjört gegnsæi
30.6.2009 | 11:49
Fyrst og fremst erlendir aðilar, - óbindandi tilboðshugmyndir, - vill ekki segja hversu mörg tilboð.
Allt uppá borðinu og gegnsætt á þessum bæ eins og vanalega.
Erlendir bjóða í HS Orku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Reykásar og rökfærslur
12.6.2009 | 12:54
Guðni Th. segir frá því í Hruninu (bls. 144) að nokkrir starfsmenn FME hafi þegið rauðvín í áramótagjöf frá Kaupþingi og talið að það hefði verið ofurviðkvæmni að þiggja ekki þessar saklausu gjafir sem hefðu verið innan eðlilegra marka og þær gætu ekki flokkast sem mútur. Ekki kemur fram hvort hver stafsmaður þáði eina flösku eða kannske einn kassa enda skiptir það ekki máli. Svona var kúltúrinn hjá FME.
Valtýr Sig sér ekki að hann geti verið vanhæfur þótt sonur hans sé forstjóri eins þeirra félaga sem mun koma oft og mikið við sögu við rannsókn bankanna. Þegar fréttamaður spyr hann hvort það muni ekki koma til hans kasta að ákvarða hvað skuli gera við mál sem verður vísað til embættis hans frá t.d. FME og varðar Kaupþing eða fyrirtæki sonarins, þá vefst honum tunga um tönn.
Ættbogi Ragnars Reykáss er æði fjölmennur og áhrifamikill og teygir arma sína um allt íslenska þjóðfélagið. Nú um stundir einbeita þeir sér mjög í umræðum um Icesavemál og svo í árásum á Sigríði nokkra Benediktsdóttur. Konan sú situr í Rannsóknarnefnd Alþingis og hefur, að mati Reykásanna sem m.a. stjórnuðu rauðvínsklúbbi FME, unnið sér til vanhæfis að segja í almennum orðum frá framvindu mála á Íslandi í viðtali við skólablað í BNA. Ég las greinina og sýndist aðeins sagt frá málum sem eru á allra vitorði.
Marbara marbara áttar sig ekkáessu!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
To be or not to be!
11.6.2009 | 12:12
Enn er komið að grundvallar uppgjöri. Eva Joly hótar að hætta nema ríkisstjórnin sýni að hún sé tilbúin að standa að baki alvöru rannsókn. Ástandið í þjóðfélaginu er að verða eins og það var alvarlegast í vetur og ríkisstjórnin þarf að sanna fyrir þjóðinni hvort hún ætlar eða ætlar ekki:
- Ætlar hún að láta rannsaka hvort lögbrot voru framin í bönkunum?
- Ætlar hún að draga menn til saka ef lögbrot voru framin?
- Ætlar hún að leita að stolnu fé?
- Ætlar hún að hefja sig yfir feðraveldið á Íslandi?
Einhverjum kann að þykja að það sé við hæfi að taka ákvörðun um þessi atriði og upplýsa okkur kjósendur um þau á sama tíma og við erum upplýst um upphæðirnar sem okkur er ætlað að greiða vegna ófara bankanna. Ég er í þeim hópi.
Rannsóknin verður ekki einfalt verk og leikurinn mun berast um víðan völl. Sjálfsæðisflokkurinn hefur leitt krónprins Engeyjarættarinnar til formennsku og þar með tekið sér stöðu með Kolkrabbanum og á móti rannsókn. Jafnframt var leiddur fram Illugi nokkur formaður peningabréfasjóðs sem fékk sérstaka aðstoð umfram aðra slíka. Guðlaugur Þór var kosinn til mikilla áhrifa en hann var formaður Orkuveitunnar þegar til stóð að færa einkaaðilum öll verðmæti sem þar fyndust og hann hefur þegið ríflega styrki í formi peninga og fríðinda úr hendi greddugæjanna sem tröllriðu bönkunum. Varaformaðurinn Þorgerður Katrín naut gegnum eiginmann sinn vildarkjara" við kaup á hlutabréfum. Framsókn kaus Sigmund Davíð til formennsku, erkijarl Marglyttunnar og erfingja framsóknarauðæfa og nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar, t.d. Steinun Valdís og Helgi Hjörvar hafa þegið styrki frá sömu aðilum.
Þetta sýnir bara lítið brot af þeim hagsmunatengslum sem eflaust eiga eftir að koma í ljós þegar og ef rannsóknin kemst af stað. Stjórnkerfið mun verða fyrir áföllum bæði kerfislægum og persónubundnum. Stjórnmálamenn munu verða yfirheyrðir og kallaðir til að bera vitni fyrir dómstólum, einkavæðingarferli bankanna mun verða áberandi sem og aðgerðir eftir að í óefni var komið og etv munu mútur og stórhneyksli verða á allra vörum. Það mun hrikta í baktjaldanetum hinna einstöku hagsmunahópa.
Það var alltaf fyrirséð að Íslendingar myndu illa ráða við þetta verkefni sjálfir. Í okkar þjóðfélagi bætast ættar- og kunningjabönd við hagsmunanet sérhyggju og einkavina og hér hafa ættarböndin verið sterkustu böndin allt frá upphafi byggðar. Þess vegna batt ég miklar vonir við ráðningu Evu Joly. En svo virðist að þau öfl sem hafa hagsmuni af því að ekkert verði rannsakað séu langt komin með að vinna þessa baráttu áður en hún er hafin fyrir alvöru.
Ef ríkisstjórnin ætlar að svara einhverri af ofangreindum spurningum játandi þá er tími til aðgerða núna. Þó Eva geti líklega ekki formlega leitt þessa rannsókn þá þarf að líta á hana sem hinn raunverulega leiðtoga hennar. Það þýðir að hennar ráð verða okkar ráð. Það þarf greinilega að endurskipuleggja vinnuna og mér þætti ekkert skrítið þó ráða þyrfti hátt í 100 manns að henni, þar af ca þriðjung óháðra erlenda sérfræðinga. Og kostnaðurinn? Í fyrsta lagi verðum við að líta þannig á að þessum milljörðum sé varið til að styrkja innviði réttarríkisins. Í öðrulagi til að innheimta eitthvað af því fé sem virðist hafa horfið og í þriðja lagi til að stuðla að friði í samfélaginu.
Orð Jóhönnu í grein mbl.is um afstöðu ríkisstjórnarinnar vekja nokkra bjartsýni um að farið verði að ráðum Evu.
Ríkisstjórn styður Joly | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hversu áhættusækinn ertu?
7.6.2009 | 21:44
Ég var ekki við samningaborðið þegar samið var um Icesavemálið og ég svaf á mitt græna eyra þegar samningurinn var undirritaður. Það er kannske þessvegna sem ég veit svo lítið um hann. En mér finnst hann lykta illa. Hversvegna var hann t.d. undirritaður um miðja nótt? En þrátt fyrir þetta þá finnst mér líklegast að samningurinn sé sá besti sem hægt var að ná.
Þetta er vegna þess að í fyrrahaust var SJS algjörlega á móti því að við greiddum þessar Icesave skuldir og taldi líklegt að hér yrði uppreisn ef það yrði gert. SJS er þekktur fyrir að vera staðfastur í skoðunum sínum og það þarf áreiðanlega mikið, mjög mikið, til að hann skipti um skoðun í jafn stóru máli og þessu. Nú hefur hann skipt um skoðun og það hefur hann ekki gert nema sterk rök hnigi til þess að það sé okkur fyrir bestu.
Ég er líka ánægður með að þessi mál skuli leidd til lykta undir yfirumsjón SJS fremur en t.d. Bjarna Ben. SJS er ekki svo ég viti hokinn vegna sér- og/eða einkahagsmuna sem hann þarf að gæta á undan hagsmunum okkar, fólksins í landinu. Bjarni Ben er hinsvegar með gjörvallan kolkrabbann og afkomendur hans á bakinu. Hann hefði því þurft að gæta þeirra hagsmuna á undan okkar og jafnvel á undan hagsmunum D-flokksins líka. Fjölskylduböndin eru frá alda öðli sterkustu böndin í íslensku þjóðfélagi.
Ýmsir virðast hafa einhverjar patentlausnir á takteinunum sem að mestu byggjast á því að borga ekki neitt. Sömu aðilar láta eins og þeir viti að við munum nánast ekkert fá uppí skuldirnar úr eignum Landsbankans. Þeir telja sig vita betur en t.d alþjóðlegar (óháðar) endurskoðunarskrifstofur og innlendir sérfræðingar sem hafa metið eignasafnið. Er líklegt að svo sé?
En svo eru enn þessir sömu aðilar tilbúnir til að taka áhættuna og láta okkur bera kostnaðinn af málaferlum sem byggjast á mati lögfræðimenntaðra sérfræðinga þegar kemur að því að fara í mál útaf einhverju.
Það má vel vera að við hefðum getað tekið gríðarlega mikla og dýra áhættu og farið í málarekstur sem byggðist væntanlega á því að einhverjir aðilar hefðu verið svo vondir við okkur. Slíkur málarekstur hefði tekið mörg ár eða áratugi og hvað ætluðum við að gera á meðan og hvað ætluðum við að gera ef við töpuðum málinu? Erum við enn í sama áhættu- og græðgisgírnum eins og áður en hrunið dundi á okkur?
Í mínum huga snýst þetta mál að lokum um það að íslenskir aðilar stofnuðu til algjörlega óraunhæfra skulda með velþóknun íslenskra stjórnvalda. Þegar allt fór á versta veg hlaut að koma að því að við þyrftum að fara að lögum réttarríkisins og standa við þessar skuldbindingar. En seðlabankastjórinn DO sá til þess prívat og persónulega í "við borgum ekki" viðtali í sjónvarpi að aðrar þjóðir stilltu okkur upp við vegg.
Ef við blásum til uppreisnar skulum við gera það á réttum forsendum.
Óskiljanleg ákvörðun stjórnvalda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hvað er eiginlega í gangi?
4.5.2009 | 14:48
Er allt að falla í sama gamla flokkspólitíska farið þar sem hagsmunir FLOKKSINS ganga ávallt framar hagsmunum fólksins? Miklu framar. Leyndar- og lygahjúp er sveipað um málefnaumræður og gegnið á svig við yfirlýsingar í kosningabaráttunni. Formenn og forystulið gengur íbyggið um ganga og gefur misvísandi en einskisverðar upplýsingar um ekki neitt. Þetta kemur okkur ekkert við. FLOKKARNIR eru að semja.
Margir kusu VG vegna ítrekaðra yfirlýsinga um að ekki yrði mikið mál að semja um lýðræðislega leið til að fólkið fengi að tjá sig um ESB-viðræður. Margir kusu SF vegna þess að þeir héldu að flokkurinn sem setti D-flokkinn frá myndi starfa í anda gegnsæis og lýðræðis. En strax daginn eftir kosningar var kosningunum rænt af FLOKKUNUM. Djúp og að því er virðist illbrúanleg gjá opnaðist á milli forystumanna þeirra um ESB. Okkur var sagt að viðræður um ríkisfjármál og stjórnkerfisbætur væru hafnar og færu fram samhliða umræðum um ESB en í raun hófust þessar viðræður ekki fyrr en á laugardaginn var. Allt tóm lygi og við virðumst ekkert eiga inni frá stjórn hinna 80 daga nema skít undir teppum.
Allt er eins og það var 2008.
Ráðuneyti hinna 18 ölmusuúrræða er heillum horfin. Allar aðgerðir sem miða að því að forða heimilum og fyrirtækjum frá því að lenda á sveit eru sagðar kosta of mikið. En hvað kostar það ríkissjóð að yfirtaka húsnæði tugþúsunda fjölskyldna? Hvað verður um allar þessar fjölskyldur eftir að þær hafa verið settar á sveit? Hvað ætla bankar og íbúðalánasjóður að gera við allt þetta húsnæði?
Nú þegar sjást merki kreppunnar í skólum og á vinnustöðum en það er bara forsmekkur af því sem mun verða þegar fjöldagjaldþrotin dynja yfir. Tugþúsundir fjölskyldna, sumir segja 40 þús, á faraldsfæti. Börn flutt "en gross" milli skóla, stóraukin afbrotatíðni, þverrandi andlegt og líkamlegt heilbrigði, aukinn ójöfnuður og sár fátækt í meira mæli en við höfum séð áður. Hvað kostar þetta???
Væri ekki sniðugt að reikna út hvað þetta kostar frekar en að afskrifa með drambi allar tillögur um neyðarhjálp fyrir fólk sem ekki er alveg drukknað. Það fólk getur náð sér aftur þegar hlúð er að því. Þeir sem drukkna ná sér aldrei aftur. Tímarnir eru óvenjulegir og þeir kalla á óvenjulegar aðgerðir.
Aðgerðir til stuðnings fólki sem ekki er orðið gjaldþrota eiga sér stuðning í öllum flokkum þ.á.m. í stjórnarflokkunum. Þær hafa verið til umræðu síðan í fyrra haust t.d. í þessum pistli og margar útfærslur hafa litið dagsins ljós. E.t.v. þurfum við samt annarskonar stjórn til að þær nái fram að ganga og sama gildir um ESB.
Stjórnarmyndunarviðræðum haldið áfram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spillta Ísland
25.4.2009 | 11:19
"Stjórnmálamennirnir sýna sterkan ásetning um að fela fyrir kjósendum mikilvægar upplýsingar um gjafir til þeirra frá stórfyrirtækjunum sem þeir áttu að beita aðhaldi fyrir okkar hönd. Þeir samtryggja sig um að fela krosstengslin milli stjórnmála og viðskipta. Það er í slíku samfélagi sem spilling þrífst...
Baráttan gegn spillingu er ekki aðeins hugsjón. Hún snýst þegar allt kemur til alls um hagkvæmni og velferð samfélagsins í heild. Spillingin gagnast hinum fáu, eins og þingmönnunum okkar og þeim ríkustu á meðal okkar, en hún kostar almenning. Hún endar alltaf á því að seilast í vasa almennings og færa fé yfir í hendur hinna fáu...
Árið 1993 fengu 1% ríkustu fjölskyldurnar á Íslandi 4,2% af heildartekjunum. Árið 2007 hafði hlutur hinna fáu aukist í tæp 20%...
Við vitum ekki enn hversu mikið stórfyrirtækin styrktu stjórnmálamennina, hverjir styrktu þá og hvað peningarnir voru notaðir í. Þannig vilja stjórnmálamennirnir okkar hafa það. En þeir verða að skilja, að þeir komast ekki upp með það...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sorugur Sjálfstæðisflokkur
10.4.2009 | 12:40
Sumir halda kannske að samtvinning auðvalds og stjórnmála í Sjálfstæðisflokknum sé nýtt fyrirbrigði. En það er ekki og áður náði hún hámarki á fyrrihluta síðustu aldar þegar Ólafur Thors gegndi starfi forsætisráðherra, bankaráðsmanns í Landsbankanum, forstjórastarfi í Kveldúlfi og formennsku í Sjálfstæðisflokknum, allt á sama tíma. Á fyrsta áratug þessarar aldar náði þessi samtvinning aftur hámarki þegar Sjálfstæðisflokkurinn bankavæddi samfélagið með aðstoð auðvaldsins og þegar bankarnir síðan eikavæddu samfélagið með aðstoð Sjálfstæðisflokksins. Þá var D-flokkurinn orðinn ómerkilegt peð á skákborði bankanna og fór aðeins með stjórnmálin í umboði þeirra.
Í þessu sérhagsmuna fyrirkomulagi taldi mikill fjöldi manna sér trú um að hag þeirra væri best komið undir pilsfaldi flokksins og að það gæti verið stórhættulegt fyrir þá að hafa sjálfstæða skoðun. Sennilega höfðu þeir rétt fyrir sér. Mörgum fannst þó lyktin vond þegar Reykjavíkurdeild flokksins gerði hvað eftir annað á sig svo um munaði og margur óbreyttur d-liðinn tapaði stórfé í kollsteypunni miklu. Þegar flokkurinn var svo "settur af" í janúar s.l. og stoðunum þar með kippt undan valdastoðunum þá fóru menn í alvöru að hugsa sinn gang.
Eftir nýjustu uppákomuna er svo ljóst að flokkurinn er að hrynja, - innanfrá. Hver á fætur öðrum verða menn nú tvísaga, muna ekki og benda á næsta mann. Það er ótvírætt merki um að menn séu að ljúga þegar þeir svara ekki því sem spurt er um heldur einhverri spurningu sem ekki var orðuð við þá. Þannig hafa þeir svarað Guðlaugur Þ, Kjartan G o.fl.
Og það er brostinn flótti í liðið. Margir hafa nú þegar lýst hneykslun sinni á vinnubrögðum flokksins og margir eiga eftir að tjá sig bæði um síðustu uppákomu og annað. Óbreyttum þingmönnum þykir erfitt að sitja undir ámæli um spillingu og margir sem orðið hafa undir í gegnum árin munu upplýsa um soruga gerninga. Og það er nú það.
Það þarf að upplýsa alla atburðarásina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |