Magnað Silfur hjá Agli

Þetta var magnað Silfur hjá Agli í dag, einkum þó þættir þeirra Einars Más og Jóns Baldvins. Fátítt er að sjá spekinga og/eða rabbara mæta í þáttinn og vera svona mikið niðri fyrir. Reiðin í þjóðfélaginu er alveg mögnuð. Ég man ekki eftir öðru eins. Margir voru reiðir þegar Davíð ætlaði að setja prívat fjölmiðlalög í landinu en reiðin var ekki jafn almenn þá og nú. 

Það magnaða er að rekja má frumorsakir þessa ástands sem nú ríkir  til eins manns. Að vísu hafa margir tekið þátt í tryllingunni en í stjórnatíð Davíðs hefur aðeins einn ráðið. Aðrir hafa verið einskonar hestadrengir hjá honum en hann einn hefur alltaf ráðið förinni.


mbl.is Jón Baldvin: Seðlabankastjóri þvælist fyrir á strandstaðnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ein smjörklípan?

"Stjórnvöld, fyrrverandi stjórnendur viðskiptabankanna og eftirlitsstofnanir eru á einu máli um að neikvæð afstaða erlendra seðlabanka til lánveitingar til Íslands hafi orðið íslensku bönkunum að falli. Augljóst hafi verið að erlendu seðlabankarnir höfðu samráð sín á milli um þessa afstöðu."

Að erlendir seðlabankar hafi fellt íslensku bankana virðist vera týpísk eftirá skýring eins og vænta má frá Davíði. Hann hefur alla tíð haft lag á áð búa til skýringar sem henta honum og sem varpa rýrð á aðra. Smjörklípuaðferðin. Erlendir seðlabankar eru ekki og hafa aldrei verið lánastofnanir fyrir íslenska banka. Íslenski seðlabanikinn er sá aðili sem ætti að hlaupa undir bagga með þeim og hefði vafalaust gert það ef annar en Davíð hefði verið þar við stjórnvölinn. En við fáum svo aldrei að vita hvort það hefði nægt.

Mínar heimildir segja að nú sé það Davíð sem aftekur alveg að leitað verði til IMF. Það virðist hinsvegar vera  eina færa leiðin. Erlendir seðlabankar hafa komið sér saman um að gera það að skilyrði fyrir aðstöð við íslenska ríkið, íslensku þjóðina. Sömuleiðis skilst mér að Davíð segi algjörlega nei við að endurreisnarstefnan verði sett á EB. Og það þorir enginn í Sjálfstæðisflokknum að setja sig upp á móti átrúnaðargoðinu Davíði.

Davíð er í augnablikinu mesti vandi íslensku þjóðarinnar. 


mbl.is Þeir felldu bankana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigum við að ganga úr NATO?

Jörgen Jörgenson

Þetta er hárrétt hjá Samtökum hernaðarandstæðinga. Þarna er útgjaldaliður sem við getum sparað okkur án þess að við finnum fyrir því. Mér fannst að aldrei kæmu fram forsendurnar fyrir samningunum sem gerðir voru eftir að varnarliðið fór (loksins) og að sjálfsögðu fengum við enga almenna umræðu eða atkvæðagreiðslu um þær. Hver er hin aðsteðjandi hætta? Engan virðist hafa grunað að hættan væri frekar efnahagsleg en hernaðarleg og að ógnvaldurinn væri bandamaður okkar í NATO en ekki Rússar eða Arabar.

Fyrir 200 árum var landið hernumið af Jörundi nokkrum sem kom frá Bretlandi, árið 1940 var landið hernumið af Englendingum og eitt stríð höfum við háð, - gegn Englendingum. Ég geri mér grein fyrir að forsendur og aðstæður eru mjög ólíkar í þessum tilvikum, en að það skuli vera hægt að nefna England í öllum tilvikum segir samt einhverja sögu.

Sumir tala um að NATO séu slík friðar- og mannúðarsamtök að við verðum að taka þátt þess vegna. Erum við ekki ágætlaga í stakk búin til að sinna friðar- og mannúðarmálum og standa utan við NATO? Ég held það og sennilega gætum við verið áhrifameiri þannig.

P.S: Það er vert að rifja upp hvernig Davíð leyndi þjóðina því að herinn myndi fara á meðan hann háði kosningabaráttu. Honum fannst greinilega að þetta kæmi þjóðinni ekki við fyrr en honum sýndist svo. Enn eitt dæmið um hroka hans, óabyrga stjórnarhætti og rangt stöðumat.

 


mbl.is Vilja að hætt verði að bjóða erlendum her hingað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn megum við gjalda í boði Sjálfstæðisflokksins

Það þarf ekki langt mál um þessa yfirlýsingu Geirs. Hún sýnir svo ekki verður um villst að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki fær um að reka Davíð og koma skikk á stjórn Seðlabankans. Persónulegu vandamálin sem rúið hafa stjórn bankans öllu trausti bæði innanlands og utan verða því enn um skeið vandamál allrar þjóðarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn til að láta okkur blæða fyrir gömul og ný afglöp Davíðs sem eiga enn eftir að kosta okkur ómældar fjárhæðir auk þess vantrausts sem honum fylgir. 

Því fyrr sem stjórnarslit geta orðið því betra. 


mbl.is Ekki persónugera viðfangsefnin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvolparnir hennar Lísu

Venni með snuð Ég hef átt hunda í um 17 ár. Þegar ég eignaðist fyrsta hundinn, Venna, var sonur minn 8 ára og mér fannst vanta eitthvað mjúkt á heimilið, enda var þetta bara tveggja manna fjölskylda. Þess vegna varð Collie hundur (Lassí) fyrir valinu. Reyndar var ákvörðunin tekin að hluta vegna þess að mér bauðst þessi hundur, en hvað um það, þá svínvirkaði þetta þriðja element fyrir okkur báða. Hundar eru aldeilis ótrúleg dýr. T.d. getur þú verið með sama hundinn á heitri sólarströndu og í trylltu vetrarveðri á Íslandi eða inni á heimili þínu mestan hluta dagsins en stokkið með hann út í frost og skafrenning án þess að hann þurfi nokkurn undirbúning. Sjálfur þarf maður að kappklæða sig og dúða.

Kolla og Lísa eru gegt vinkonur Nú á ég Border Collie tík (Kollu) sem, líkt og Venni, er loðin með langt nef og dökkbrún augu. Mér fannst alltaf að þannig ættu kósý hundar að vera. En þá kynntist ég Lísu. Hún Frænka mín er í hundunum líka. Hún á einn eiginmann, 2 dætur, einn hund (Timor) og 3 tíkur (Aniku, Birtu og Lísu). Þegar maður er með hund er alveg nauðsynlegt að eiga svona Frænku. Hún segir að það sé allt í lagi að passa Kollu mína. Það muni ekkert um einn hund í viðbót. En á móti fæ ég stundum að passa hundana hennar og þannig kynntist ég Birtu og Lísu.

Allir saman, - alltaf Ég hef ekki verið mjög spenntur fyrir Labrador hundum og þeir eru gjörólíkir Border Collie hundum. Border Collie hundar eru fremur kvikir og spenntir. Þegar ég skil Kollu eftir í bínum þá situr hún og horfir í áttina á eftir mér þangað til ég kem aftur. Labrador situr kannske smá tíma en fær sér síðan legging í rólegheitum. Hann er afar tryggur og af því hann er veiðihundur þá gengur hann við hæl þegar honum er sagt að gera það, ekki bara nokkurn vegin við hæl. Þeir eru sagði afar barngóðir, þola öll veður og ég hef séð menn koma með drulluskítuga hunda úr veiði og spúla af þeim á bílaþvottaplani. Bara gott það.

Er maður sætur eða er maður sætur En hundar hafa ekki síður einstaklings einkenni en kynbundin einkenni. Og Lísa er alveg í sérklassa hvað varðar skap og viðmót. Það er eins og hún sé alltaf brosandi. Og frábærlega hlýðin og vel vanin. Maður þarf aldrei að segja hlutina nema einu sinni við hana, enda margverðlaunuð bæði fyrir veiðimennsku og útlit.

Og nú á hún 9 gullfallega hvolpa með þessum svaka gæja sem heitir Tiger og er líka marg verðlaunaður. Þegar við bætist að Frænka og fjölskyldan er með hvolpana í fanginu mestallan daginn þá má búast við að þeir verði ekki bara fallegir heldur líka meðfærilegir og mannelskir einstaklingar sem eiga eftir að gleðja væntanlega húsbændur sína í mörg ár.

Til hamingju Frænka (og Guðjón), til hamingju Lísa.

Það eru 4 hvolpar til sölu þegar þetta er skrifað (822 7705)


Paul Krugaman og Þorvaldur Gylfason

A funny thing happened to me this morning … skrifar Paul Krugman á bloggsíðu sína The Conscience of a Liberal í morgun. Það hlýtur að vera nokkuð sérstök tilfinning að vakna við svona fréttir.

Paul skrifar dálk í NYT á mánu- og fimmtudögum. Hann er einn þessara manna sem geta talað um flókin mál á einfaldan hátt þannig að jafnvel ég get skilið, - eða held að ég skilji. Við eigum slíka menn á Íslandi. Þorvaldur Gylfason er einn þeirra en hann vitnar m.a. talsvert til Paul. Ekki veit ég hvort þeir aðhyllast svipaðar stefnur í hagfræði en Paul er klárlega frjálslyndur og skammast sín ekki fyrir það þótt umhverfið sem hann starfar í sé (BNA) sé haldið örgustu íhaldssemi.

Sennileg hefðu ýmsir hérlendir áhrifamenn haft gott af að lesa greinarnar hans Paul Krugman og hlusta með meiri athygli á Þorvald Gylfason. 

29. ágúst 2005 skrifaði Paul:

"How bad will that aftermath be? The U.S. economy is currently suffering from twin imbalances. On one side, domestic spending is swollen by the housing bubble, which has led both to a huge surge in construction and to high consumer spending, as people extract equity from their homes. On the other side, we have a huge trade deficit, which we cover by selling bonds to foreigners. As I like to say, these days Americans make a living by selling each other houses, paid for with money borrowed from China."

Kannast einhver við svipuð orð á sama tíma mælt á íslensku?


Velkomin til starfa Ingibjörg Sólrún...

....en ég vona að greinin sé einmitt til vitnis um að þú sért búin að ná þér nægilega til að koma til starfa á ný, a.m.k. að einhverju leyti. Í fjarveru þinni hefur okkur sárvantað  skynsemisraddir sem tala um jafnrétti, jafnræði og "hagfræði hinnar hagsýnu húsmóður." Það er alls ekki laust við að ég sakni máflutnings sem ég kenni við Kvennalista í seinnitíma umræðum um stjórnmál. Ekki það að  ég væri alltaf sammála Kvennalistanum, en ég var yfirleitt ánægður með málflutninginn.

Vissulega er þessi kreppa alþjóðleg og við hefðum aldrei getað ráðið neinu um tilurð hennar. En hitt er jafn víst, að kreppan hefur farið miklu verr með okkur en aðrar vestrænar þjóðir. Og hvers vegna er það? Þegar ég rifja upp forsöguna standa nokkur atriði uppúr í mínu pólitíska og gloppótta minni:

  •  Eftir að við stofnuðum EES var umræða um að við tækjum næstu skref og sæktum um fulla aðild að ESB og tækjum upp Evru "tekin út af borðinu" og læst niður í skúffu í 10 ár.
  • Við einkavinavæðingu bankanna var þess vandlega gætt að engar hömlur væru á starfsemi þeirra og eigenda þeirra. Það gekk svo langt að steinar voru lagðir í götu annarra sem vildu komast að þessu alsgnægta borði og þeir lagðir í einelti
  • Frjálshyggjustefna Sjálfsæðisflokksins hefur skarað ágóða að útrásareldi fárra aðila og þeir hafa skrækt ámátlega í hvert skipti sem imprað hefur verið á regluverki og jafnræði.
  • Hávaxtastefna Seðlabankans hefur átt þátt í að skapa hér verðbólgu sem hefur gert okkur mjög erfitt fyrir um hagstjórn og eðlilega dreifingu á bættum kjörum.
  • Athafnir Seðlabankans síðustu 2-3 vikur hafa verið mjög umdeilanlegar og í sumum tilfellum algjörlega út í hött.
Öll atriðin eiga það sameiginlegt að vera að fullu og öllu á ábyrgð Davíðs Oddssonar, átrúnaðargoðs Sjálfstæðismanna. Reiði mín beinist því ekki að útrásar forkólfunum sem störfuðu eftir íslenskum lögum og reglum heldur að Davíð og Sjálfstæðisflokknum sem eru ábyrgir fyrir kerfinu. Þar liggur meinsemdin.
 
Ég er sammála þér um tækifærin sem felast í stöðunni og einkum þó því að "við verðum... að vita hvert við stefnum og læra af þeim mistökum sem við höfum þegar gert," og svo hinu að "nú eru það leikreglurnar sem eiga að gilda en ekki samböndin."
 
Gangi þér vel og góðan bata. 

mbl.is Ingibjörg Sólrún: Fyrst IMF og svo ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hryðjuverk í seðlabanka

Seðlabankinn

 

Nú liggur fyrir að Bretar beittu lögum gegn hryðjuverkum til að stöðva starfsemi íslensku bankanna í Englandi. Þetta var fyrsta og eina skiptið, síðan þessi lög voru sett eftir 11. sept. 2001, sem þau hafa verið notuð á þennan hátt. Geir H. segir það vera aldeilis óviðunandi að bresk stjórnvöld beiti slíkum lögum gegn Íslendingum og íslenskum hagsmunum og boðar viðeigandi viðbrögð af hálfu íslenskra stjórnvalda. 

 Í meira en áratug hafa leiknir og lærðir kallað eftir aðildarviðræðum að ESB.  Í nokkur undanfarin ár hefur atvinnulífið kallað eftir Evru og sérfræðingar varað við þeim atburðum sem nú hafa gerst og að hið litla íslenska hagkerfi sé ekki nægilega stórt og öflugt til að verja bankana. Í mörg ár hafa bankarnir sóst eftir leyfi til að gera upp í Evrum.

Munurinn á íslensku kreppunni og Evrópu kreppunni er sá, að við búum við lítið hagkerfi, háa vexti, mikla verðbólgu og veikan gjaldmiðil. Þetta eru allt afleiðingar af stefnu Davíðs Oddssonar í íslenskum stjórnmálum og Seðlabanka. Það er afleitt að vera flokkaður með hryðjuverkamönnum af erlendum stjórnvöldum. En aðgerðir Davíðs síðustu tvær vikur eru ekkert annað en hryðjuverk. 

Davíð er orðinn (fyrir löngu síðan segja sumir) sjálfstætt þjóðhagslegt vandamál. Þrátt fyrir það er ekki annað að sjá, en að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að slá skjaldborg um hann.  Ég vona að svo verði ekki en óttast að þannig verði það.

Annað vandamál Sjálfstæðisflokksins er auðvitað Árni Matthiesen.


mbl.is FME yfirtekur Kaupþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband