Éttu skít segir forsætisráðherra

Takið eftir að í myndskeiðinu sem fylgir fréttinni segir forsætisráðherra að okkur komi bara hreint ekkert við hverjir sitja í Ríkisstjórn Íslands. Það er ekkert verið að skafa utan af því. Okkur er sagt að éta skít. Sjá líka fyrri færslu mína frá 4. nóv.

Þetta gegngur bara alls ekki !!!


mbl.is Vegið ómaklega að ráðherrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að sparka Davíð uppávið?

Gárungarnir eru að benda á að hinn séríslenska leið til að losna við fólk úr stöðum í stjórnkerfinu sé að sparka þeim uppávið. Að vísu hafði Davíð ekki þann mátann á heldur sparkaði hann bara mönnum út á götu.

Þar sem við sitjum uppi með Davíð í stöðu sem hann hefur staðið sig verulega illa í hafa menn bent á að nota íslensku leiðina og gera hann að forsætisráðherra. Þannig myndum við líka losna við Geir H.


Samfylking á skilorði

Í nýlegri könnun sögðust 37% myndu kjósa Samfylkinguna, en miklu fleiri hafa horft til hennar undanfarið í von um að hún sýndi af sér þor og dug í því ástandi sem ríkir. Nú er fólk að fá augnaþurrk og hálsríg af glápinu og það sjást engin merki um Samfylkingin ætli að axla ábyrgð eða sýna frumkvæði. Nú síðast stóð hún að skipun bankaráða í hrópandi ósamræmi við jafnréttislög (10/2008, gr. 15). Á sama tíma flytja nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar frumvarp um að jafnréttislög skuli einnig gilda um fjármálafyrirtæki í einkaeigu!!!

Í fyrrnefndri könnun kemur líka fram hversu mikil reiði, kvíði og óvissa ríkir í þjóðfélaginu. Ég fullyrði reyndar að reiðin sé í dag miklu almennari en þar kemur fram. Ofaná hinar fjárhagslegu hremmingar bætist nú reiðin yfir aðgerðarleysi, margsögli og leyndarhjúp sem hvílir yfir öllu. Forsætisráðherra mætir á fréttafundi og í viðtöl án þess að segja nokkuð. Hann telur að það ætti jafnvel að vera leyndarmál að hann sendi Kínverjum hjálparbeiðni. Viðskiptaráðherra mætir með honum og af hans munni streymir merkingarlaust orðagjálfur páfagauksins. 

 Þingmenn Samfylkingarinnar segja að það sé mikilvægt að jafnaðarmenn sitji í ríkisstjórn við núverandi aðstæður. Þeir segjast vera að vinna fjölmörg mál sem horfa til bóta fyrir þjóðfélagið og að nú sé ekki tími til að efna til kosninga. Og svo séu þeir bundnir í klafa stjórnarsáttmálans og vilja umfram allt sýna að þeir séu færir um að sitja í ríkisstjórn.

Allt er þetta einskisnýtt. Það er ekki nóg að vera jafnaðarmaður, það er ekki nóg að vera vinnusamur, það er ekki nóg að sitja í ríkisstjórn og stjórnarsáttmálinn er úrelt og ónýtt plagg.

Við, fólkið í landinu, verðum að fá  staðfestingu á því á hverjum einasta degi að Samfylkingin hafi það á stefnuskrá sinni að sækja um aðild að ESB, að hún ætli að hreinsa til í Seðlabankanum, að jafnrétti, jafnræði og lýðræði sé á dagskrá, að hún sé ekki hrædd við kosningar. Og allt þarf að vinna fyrir opnum dyrum og gluggum. Ekkert helvítis leyndarmakk. Við vitum ekki hvað ráðherrar og þingmenn hugsa. Það þarf að tala við okkur. Það þarf að segja okkur satt. Á hverjum degi, alltaf.

Ef ekki verður breyting á mun fólk grípa til ofbeldis eða gefast upp!!!


Hvað varð um jafnræðið?

Ég þekki ekki alla sem þarna eru skipaðir, en þeir sem ég þekki starfa eða hafa starfað í áberandi stöðum fyrir stjórnmálaflokkana. Er það svo að flokkarnir hafi ekki hugmyndaflug til að skipa aðra? Þetta er liðið sem á að taka ákvarðanir um lánafyrirgreiðslur til athafnamanna í kreppunni.

 Auk þess er þetta afar undarlegt jafnræði. Fjórar konur í einu bankaráðinu og ein í öðru. Þetta er dálítið eins og Árni Matt hafi hugsað sem svo: "Ok. Í þessari stöðu kemst ég ekki upp meða að skipa færri en 7 konur. Best að fórna bara einu bankaráðinu til að við strákarnir getum haft það huggulegt í hinum tveimur."

Auk þess er engin kona formaður bankaráðs.

 

Þetta gengur engan vegin að mínu mati. 
Enn hefur Árni klúðrað skipuninni. 

 


mbl.is Ný bankaráð skipuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherrar Sjálfstæðisfokksins segja okkur að éta skít

Reiðin er mikil í þjóðfélaginu þessa dagana. Margir segja "þeir setja allt á hausinn og ætla svo að láta okkur borga" eða eitthvað í þessa veru. Það þarf ekki hámenntaðan hagfræðing til að átta sig á að auðvitað verða einstaklingar og fyrirtæki í landinu að borga allt sem landið skuldar og að byggja upp á ný. Það er ekki öðrum til að dreifa.

En hitt skiptir miklu að byrðunum sé deilt á sanngjarnan hátt.

Og þar kemur að Sjálfstæðisflokknum og sérhagsmunaneti hans. Að öllu jöfnu teljum við eðlilegt að sá sem sóðar út taki til eftir sig, en það er hreinlega óhugsandi að flokkurinn sem leiddi okkur í þessar ógöngur stjórni tiltektinni. Við sjáum nú þegar tilburði flokksins til að koma sér fyrir í rústunum til að helga sér svæði. Björn Bjarna sér ekkert athugavert við það að feður drengjanna sem áttu bankana skipuleggi og stjórni gjaldþrotaskiptum á ábyrgðinni. Björn telur að þeir sem hafa eitthvað við þetta að athuga séu haldnir misskilningi og drengjaliðið í flokknum étur upp eftir honum.

Þetta eru sömu rök sem færð voru  fyrir fjölmiðlafumvarpinu, dómararáðningunum, prófessoraráðningum, stríðsþátttöku o.m.fl.  Þeir gætu eins sagt almenningi að éta skít, honum komi þetta ekkert við. Mikilsmetinn lagaprófessor skrifaði m.a í tilefni af veitingu Árna Matt á dómaraembætti að innan Sjálfstæðisflokksins megi finna „ofsatrúarhópa" þar sem „valdboðið eitt er haft að leiðarljósi …".  Árni hafði auðvitað áður sagt almenningi, umboðsmanni alþingis og dómnefnd, sem skipuð var að lögum til að meta umsækjendur,  að éta skít.

 Almenningur  krefst þess að Sjálfstæðisflokkurinn verði ekki látinn stjórna uppbyggingunni sem framundan er. Á hverjum einasta degi koma í ljós nýir gjörningar sem benda til þess að spillingarkerfi Sjálfstæðisflokksins hafi náð djúpt inn í bankana eða að spillingarkerfi bankanna hafi náð djúpt inn í Sjálfstæðisflokksins. Við getum ráðið hvort við köllum það.  Ljósglætan er sú, að það vottar aðeins fyrir þeirri skoðun meðal fáeinna Sjálfstæðismanna að ekki sé allt í fínast lagi. Í þeim tilfellum sem ég þekki (Ragnheiður Ríkharðs og Þorgerður Katrín) eru það konur sem hafa tjáð sig.

Af hverju kemur það ekki á óvart?


Palin heilkennið

Í þættinum Vikulokin á Rás 1 í morgun sagði Bjarni Ben eitthvað í þá veru að Ingibjörg Sólrún og aðrir andstæðingar í pólík  mættu ekki tala um stjórn Seðlabankans og Davíð Oddsson eins og það gerir. Við höfum æði oft heyrt það úr herbúðum Sjálfstæðismanna að ekki mætti tala um mál sem eru á allra vitorði. Það er nokkuð dæmigert fyrir Sjálfstæðisflokkinn að forðast opna umræðu og taka ákvarðanir um mál í læstum bakherbergjum. Dæmin eru mörg en eitt það versta er um stuðning okkar við innrásina í Iraq.

Það er ótrúlegt hversu mikið af öfugsnúinni röksemdafærslu"neo-cons" og Bushista í USA finnur leið inn í raðir drengjaliðs Sjálfstæðisflokksins. Það nýjast frá Söru Palin kom fram á viðtali í íhaldsútvarpi í gær. Þar heldur hún því fram að það sé árás á rétt hennar til málfrelsis ef/þegar fjölmiðlar kalla persónuárásir hennar á Obama "neikvæðan málflutning." Henni finnst að hún megi hafa skoðun en aðrir megi ekki hafa skoðun á skoðun hennar. --- Varaforsetaefni McCains!!!

 Allir vita að vera Davíðs í sjálfskipað embætti Seðlabankastjóra hefur rúið bankann trausti bæði innanlands og utan. Bjarni verður að reyna að sætta sig við það og hitt líka, að menn mega segja það og að ekkert er eðlilegra en að menn tjái sig um það. 

En Sjálfstæðisflokkurinn hefur slegið skjaldborg um (fyrrverandi?) foringja sinn jafnvel þótt það hafi þegar haft afgerandi áhrif til hins verra fyrir alla sem búa í þessu landi. Einkunnarorð McCains eru Country First jafnvel þó hann hagi sér og tali með allt öðrum hætti. Hvernig væri að Geir og co litu til þjóðarinnar og settu hagsmuni hennar ofar sínum eigin flokks- og sérhagsmunum?


mbl.is Ingibjörg segir Davíð skaða orðsporið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylking er eina vonin

Ég hef bent á það í fyrri færslum að eina von almennings í þessu landi er að Samfylkingin hafi styrk og þor til að stjórna endurreisninni. Það er gífurlega mikilvægt að það verði ekki Sjálfstæðisflokkurinn. Honum er ekki treystandi til þess að standa fyrir þeim úrbótum á íslensku lýðræði, jafnrétti og jafnræði sem þörf er á. Framtíð Samfylkingarinnar veltur líka á því að hún sýni að hún ráði við þetta verkefni.

Samfylkingin hefur lítið sem ekki komið að stjórn efnahagsmála fram til þessa.  Nú er hennar tími runninn upp. Ef hún bregst mun skapast tómarúm sem verður fyllt af - Sjálfstæðisflokknum. Aðrir flokkar hafa ekki burði til þess.

Myndbandið og textinn sem fylgir frétt mbl.is gefur til kynna að Samylkingin muni kikna. Hins vegar er engan vegin víst að fréttin gefi rétta mynd af því sem fram fór á Alþingi. Það væri ekki í fyrsta skipti sem fréttir þar eru litaðar af sérhagsmunum Sjálfstæðisflokksins og "hans" manna. 


mbl.is Ekki benda á mig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisfokkinn burt

Sjálfstæðisflokkurinn hefur í síauknum mæli tekið upp vinnubrögð sem kennd eru við "neo-cons" eða GWB. Á 17 ára valdaferli flokksins má sjá hvernig flokkurinn hefur tileinkað sér hrokafullan málflutning samfara því að hann hefur lagt til hliðar lýðræðisleg vinnubrögð og látið sérhagsmuni ráða. Dæmin eru ótalmörg:

  • Fjölmiðlalög
  • Dómararáðningar
  • Prófessoraráðningar
  • Stríðsþátttaka
  • Lagðar niður "óþægar" stofnanir

Röksemdafærslan fyrir aðgerðum flokksins hefur lýst þvílíkum hroka að leitun er á öðru eins. Þar má t.d. nefna að ekki þurfi að fara eftir gildandi lögum af því að þau "séu börn síns tíma," að dómnefndir vegna ráðningar í dómarastöður séu minna virði en einkavinaráðgjöf og prívat skoðanir einstaka ráðherra eða að þjóðinni komi ekki við hvort hún er látin styðja ólöglegt árásarstríð í fjarlægum heimshlutum.

Framundan eru gífurlegar eignatilfærslur í íslensku þjóðfélagi. Fyrst munu stjórnvöld skipa stjórnir og bankastjóra  í þjóðnýttum bönkum, en síðan munu bankarnir verða eikavæddir á ný. Fjöldi fyrirtækja munu verða gjaldþrota og þá ríður á miklu að nýir menn taki við rekstrinum svo framleiðsla stöðvist ekki. Sjálfstæðisflokkurinn mun kappkosta að koma sínum mönnum á rétta staði þannig að "þeirra" menn fái aðgang að lánsfé til að kaupa upp þjóðfélagið, - að nýju.

Í endurreisninni sem framundan er  verðum við að leggja áherslu á aukið lýðræði og meira gegnsæi. Það er t.d. alveg fráleitt að kjósendur skuli ekki fá vitneskju um það hverjir fjármagna stjórnmálaflokkana. Nú reynir á að Samfylkingin sýni frumkvæði. Samfylkingin hefur verið í stjórnarandstöðu frá því hún var stofnuð og ber því litla ábyrgð á ástandinu núna. Hún benti meira að segja á misstökin í hagstjórninni í rituðu máli og töluðu fyrir síðustu kosningar. Henni ber því að leiða endurreisnarstarfið og næstu mánuðir munu skera úr um það hvort Samfylkingin verður leiðandi afl í íslensku þjóðfélagi eða ekki.


mbl.is Þjóðin í gíslingu Sjálfstæðisflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á Sjálfstæðisflokkurinn að bjarga okkur?

Í sautján og hálft ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn farið með stjórn efnahags- og fjármála Íslands. Í 12 ár hafði hann Framsóknarflokkinn sér til fulltingis og satt að segja nenni ég varla að tilgreina sérstaklega forsætisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar því fæstir gerðu sér grein fyrir að tveir flokkar sætu í ríkisstjórn. Enda skræmti drengjaliðið í Sjálfstæðisflokknum undan því að ráða- og flokksmenn Samfylkingarinnar leyfðu sér að hafa aðra skoðun á einstökum málum en Sjálfatæðisflokkurinn. Þeir höfðu aldrei kynnst öðru eins.

Með hverjum degi sem líður koma frjálshyggju vinnubrögð Sjálfstæðisflokksins betur í ljós. Á sama tíma og þjóðfélagið var á floti í peningum, á meðan bankar ýttu auknum lánum að almenningi, á meðan þeir kölluðu sparifjáreigendur til sín og hvöttu þá til að taka meiri áhættu með því að fjárfesta í sjóðum og hlutabréfum og á meðan stjórnvöld sungu útrásaróð við texta sem saminn var í þessum sömu bönkum, þá var ekki greitt í varasjóði þjóðarinnar. Ábyrgðarsjóður launa er stórskuldugur eftir uppgangstíma, gjaldeyrisvarasjóðurinn nánast tómur og innistæðutryggingasjóðir sömuleiðis. Þetta hlýtur að vera dæmalaust.

Síðustu ár hafa varnaðarorð hagfræðinga dunið í eyrum okkar. Íslenskir hagfræðingar sem starfa hérlendir eða erlendis og erlendir hagfræðingar í búntum hafa reynt að vara stjórnvöld við. Ég man  ekki eftir einum einast hagfræðingi sem lýsti trausti á þessi galdraverk sem í gangi voru. Eins og títt er um galdra var þetta full flókið fyrir almenning, en stjórnvöld áttu að skilja viðvaranirnar. Þeim bar skylda til þess.

En eru ráðherrar ekki bara menn eins og þú og ég, menn sem ekki hafa sérþekkingu á efnahagsmálum? Auðvitað eru þeir það, en þeir eiga að hafa reynslu og þeir hafa aðgang að fjölda sérfræðinga í ráðuneytunum og stofnunum ríkisins (reyndar fór Davíðþá leið að reka bara þá sem ekki voru samþykkir honum). Þeir geta líka ráðfært sig við utanaðkomandi sérfræðinga og ýmsar nefndir eru skipaðar einmitt í þeim tilgangi. Ef efnahagsstjórnin byggist á ráðgjöf frá þessum hópum þá þarf heldur betur að taka til þar.

En þetta er ekki líklegt. Líklegast er að efnahagsstefnan sé byggð á ráðgjöf sem kemur frá einkavina- og sérhagsmunaneti Sjálfstæðisflokksins. Efstur á blaði er trúlega hinn geðþekki seðlabankastjóri Davíð Oddson með Hannes Hólmstein og Kjartan Gunnarsson á hæla sér. Þar fyrir utan hygg ég að flesta ráðgjafana sé að finna í hópi þeirra sem keyptu bankana, (matvöruverslunina), samgöngutækin og fjölmiðlana ásamt smáfyrirtækjum sem fylgdu með svo sem tryggingarfélögin, byggingarvöruverslanirnar og eldsneytisdreifinguna.

Það gengur hreinlega ekki að  Sjálfstæðisflokkurinn stjórni endurreisnarstarfinu.

Í mínum huga ber Samfylkingin litla ábyrgð á efnahagsstefnu síðustu 13 ára. En héðan í frá verður hún ekki stikkfrí. Það verður tekið vel eftir því hvað hún gerir og gerir ekki í þessari stöðu. Framtíð hennar til næstu ára og jafnvel áratuga verður mótuð á næstu vikum.


Við viljum kosningar

Þetta er allt dálítið öfugsnúið. Ég held að Vagerður Sverrisdóttir hafi staðið sig vel, - fyrir sinn flokk. Hinsvegar hef ég nánast alltaf verið ósammála henni þangað til núna. Ég er sem sagt sammála henni um að það eigi að blása til kosninga eins fljótt og unnt er.  T.d. næsta vor.

Staðan er þannig að Sjálfstæðismenn fara með embætti forsætis- og fjármálaráðherra, eins og þeir hafa gert í meira en 17 ár. Að mínu mati er það út í hött að endurreisnarstarfinu verði stjórnað af Sjálfstæðisflokknum. Það bara gengur ekki. Nú þarf ný viðhorf og ný vinnubrögð. Það verður að víkja sérhagsmunaneti Sjálfstæðisflokksins til hliðar um stund. 

Nú leita menn logandi ljósi að ráðgjöfum Sjálfstæðisflokksins undanfarin ár.  Ekki svo að skilja að Davíð Oddsson hafi talið sig hafa þörf fyrir ráðgjafa, en líklegast er að ráðgjafarnir hafi verið sömu mennirnir sem keyptu bankana, - og settu þá á hausinn. 


mbl.is Stjórnmálin biðu hnekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband