Færsluflokkur: Ingibjörg Sólrún

Ingibjörg í afneitun?

 

Á tveimur dögum, laugardag og sunnudag, upplýsti Ingibjörg Sólrún okkur um að hún og Jóhanna ætluðu að taka fyrsta og annað sætið í prófkjörinu í Reykjavík, að Össur mætti vera í þriðja sæti, að ekki ætti að persónugera veikindi manna og áhrif þeirra á flokka, að Jóhanna væri kandidat Samfylkingarinnar til forsætisráðherra og að hún vissi fyrir víst að sér myndi batna. Það væri jafn víst og að sólin kæmi upp á morgun.

Sennilega er ég að miskilja eitthvað. Það hlýtur bara að vera. Konan sem viðurkennir að hún hefði átt að taka sér veikindafrí, að hún hefði átt að hætta fyrr með Geir og hefði átt að fylgjast betur með hvað stofnanir ríkisins voru að gera vegna yfirvofandi bankakreppu, hún er með þetta allt á hreinu núna.

 Það eru liðnir þeir tímar þegar það þurfti hamfarir til að rífa hana og hina þingmenn flokksins úr faðmlaginu við Sjálfstæðisflokkinn. Á tröppum Þjóðleikhússins brunnu eldar að kvöldi 21. janúar þar sem þúsund manns stóðu utan dyra og börðu búsáhöld og í kjallara hússins voru þúsund manns sem komu til að draga flokksforystuna burt úr þessu faðmlagi. Þetta var magnaðasta kvöld sem ég man eftir. Í kjölfarið sagði Björgvin af sér og þá loksins virtist forystan fatta að henni var ekki sætt.

Ingibjörg Sólrún virtist ekkert skilja síðatliði haust og miðað við yfirlýsingar hennar um síðustu helgi fattar hún það ekki enn þá. Hún játar á sig mistök eftir mistök en hún talar eins og sú sem allt veit. Hver veit örlög sín á morgun eða í næstu viku. Þegar hún gekk til fundar 23. september gat hún ekki vitað að hún myndi ekki hafa það út af fundinum án aðstoðar. 

Síðasta helgi var því miður ekki til þess fallin að  auka traust mitt á Ingibjörgu Sólrúnu. Mér fannst ekki að þarna færi heilsteyptur og mikilhæfur leiðtogi.

Ég hef skrifað áður um veikindi stjórmálamanna hér og brottvikningu Samfylkingarinnar úr ríkisstjórn hér.


Ísland úr NATO

Eitt af því marga sem þarf að endurskoða eftir 18 ára valdatímabil Sjálfstæðisflokksins er þessi loftrýmiseftirlitssamningur. Það er í raun dálítið magnað að Ingibjörg Sólrún skuli ekki hafa gert það á þeim tveimur árum sem hún hefur setið í utanríkisráðuneytinu.

Til að byrja með má gera grein fyrir forsendum samninganna. Með hverju eru menn að hafa eftirlit og hvaða hætta steðjar að okkur sem eftirlitið á að upplýsa um? Mér finnst alveg koma til greina að segja sig frá öllu þessu hernaðarbrölti sem er undirrót meirihluta allra vandræða í heiminum.


mbl.is „Þessa leiki þarna suðurfrá“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkstjórn og langlundargeð

n679043560_807039_2738_edited-1.jpgIngibjörg Sólrún var sigurvegari gærdagsins. Hún kom til leiks þennan dag fullviss um hvað hún þyrfti að gera, - hvað hún vildi gera. Það geislaði af henni sjálfstraustið. Það var eins og hún hefði frelsast, eins og að þungu oki hefði verið létt af henni við að taka þá ákvörðun sem fyrir lá að þyrfti að taka.

Það getur verið upplýsandi að spá í líkamstjáningu (bodylanguage) manna. Líkamstjáning Ingibjargar virtist breytast ótrúlega mikið frá því henni brá fyrir í sjónvarpi á sunnudagskvöld þar til hún mætti til þingflokksfundar á mánudagsmorgni. Þegar komið var fram á eftirmiðdaginn talaði hún hiklaust um hroka og auðmýkt, um langlundargeð og upplausn í fari manna og flokka.  Hún gerði skýra grein fyrir ástæðunum fyrir falli ríkisstjórnarinnar og svaraði spurningum fumlaust og af sannfæringu.

Svipað átti við um fleiri þingmenn Samfylkingarinnar. T.d. var Árni Páll mjög beinskeyttur og ákveðinn og Ágúst Ólafur var einlægur og hreinskilinn að vanda. 

Þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins áttu framan af í erfiðleikum með að átta sig og finna gildar ástæður fyrir sig og kjósendur sína. Þeir reyndu stjórnleysið í Samfylkingunni og Guðl. Þór reyndi að nota langlundargeðið sem Ingibjörg hafði notað fyrr um daginn. Hjá honum varð það aðeins hjáróma nöldur og ráðleysið var yfirgnæfandi.

Verst urðu þeir úti sem ekki gátu dulið pirring sinn vegna þess að Samfylkingarfólkið kallaði formann Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra verkstjóra.  Það trompaði virðingarleysið fyrir valdstjórn Sjálfstæðisflokksins, - að þeirra mati.

Samfylkingin og einkum Ingibjörg Sólrún áttu daginn.

Til hamingju með það.


mbl.is Ekki tími fyrir málfund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðingarvert en......

n679043560_807039_2738.jpgJísúskræst hvað stjórnmálamenn geta verið grunnir. Sennilega halda menn að nú dugi að fórna Björgvin. Sennilega hefði nægt að fórna honum ásamt Árna Matt fyrir þremur mánuðum síðan. Ekki fyrir það að í mínum huga hefur höfuðpaurinn Geir H alltaf verið efstur á blaði. E.t.v. hleypur Sjálfstæðisflokkurinn til eftir hádegið og fórnar Árna Matt og Davíð.

En eftir allt sem á undan er gengið eru aðrar og meiri kröfur uppi í samfélaginu. Það hefur orðið algjör trúnaðarbrestur milli þjóðarinnar og ríkisstjórnarinnar. Og meira en það því trúnaðarbresturinn hefur færst yfir á alla stjórnmálamenn. Það er afleit og stjórnarfarslega hættuleg staða og þess vegna dugar ekkert hálfkák núna.

Í vikunni sem leið kom fram eindregin krafa grasrótar Samfylkingarinnar um að slíta stjórnarsamstarfinu nú þegar. Allt annað verður talið til undanbragða. Um allt þjóðfélagið hljómar krafan um stjórnlagþing til að taka völdin af Alþingi og stjórnmálamönnunum sem þar sitja og munu væntanlega sitja eftir kosningar. Á stjórnlagaþingi á að endurskrifa stjórnarskránna ekki síst með það í huga að setja stjórnmálamönnum skorður og beina valdinu í auknum mæli til fólksins. 

Ingibjörg stóð sig ágætlega sem borgarstjóri í góðæri. Við lok setu sinnar sýndi hún hinsvegar  algjöran skort á pólitísku innsæi. Það sama hefur sýnt sig eftir strandið í október.

Því miður!


mbl.is Björgvin segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjúkir stjórnmálaleiðtogar?

n679043560_807039_2738.jpgMín fyrstu viðbrögð við yfirlýsingu Geirs H um veikindi sín í gær voru að sennilega væri þetta bara spuni. Lýgin og leyndarmakkið undanfarna mánuði ásamt nýjum upplýsingum daglega um það svindl og svínarí sem átti sér stað í fjármálaheiminum hefur gert mig svo tortryggin að mér datt í alvöru í hug að kallinn væri að koma sér undan með enn einni barbabrellunni. Það þurfti massíft tiltal félaga og vina til að sannfæra mig um annað.

 Allir hafa verið veikir. Allir vita að starfsgeta þeirra er stórlega skert í veikindum, eftir veikindi og meira að segja í aðdraganda veikinda áður en þeir vissu hvað var á seyði. Og þetta á við tiltölulega saklaus veikindi eins og kvef og gigtarkast. Það þarf enginn að segja mér að einstaklingur sem greinist með alvarlegan sjúkdóm sem getur leitt til mikilla og langvarandi veikinda sé með fulla starfsgetu. Sennilega býr sá hin sami aðeins við brot af eðlilegu þreki.

Báðir leiðtogar stjórnarflokkanna hafa greinst með þannig sjúkdóma. Við vissum fyrir að þeir þjást af alvarlegum dómgreindarskorti varðandi þarfir þjóðarinnar fyrir breytingar, hreinskilni og heiðaleika. Nú bætist við að þá virðist algjörlega skorta dómgreind til að meta áhrif persónulegra áfalla á sig sjálfa og líkamlegt og andlegt atgjörvi sitt. Þeir virðast halda að alvarlega sjúkir eða ekki, þá séu þeir bestir og e.t.v. þeir einu sem geta leitt flokka sína og þjóðin. 

Þegar þetta er skrifað er boltinn enn og aftur hjá Ingibjörgu Sólrúnu. Sagt er að hún hafi umboð formanna flokksfélaganna um allt land en ekki sagt til hvers hún hefur umboð frekar en venjulega. Líklega kemur það  þjóðinni ekki við.  Flokksfélögin í Reykjavík og víðar hafa hinsvegar bæði veitt henni umboð og gert henni skylt að setjast niður með fleirum en formanni Sjálfstæðisflokksins með það fyrir augum að koma Sjálfstæðisflokknum frá.

Það er mikill og alvarlegur misskilningur Ingibjörg Sólrún að þær þúsundir manna sem mótmæltu um allt land í dag tali ekki fyrir þjóðina. Lestu bara skoðanakannanir þar að lútandi.


mbl.is Mikill fjöldi á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velkomin til starfa Ingibjörg Sólrún...

....en ég vona að greinin sé einmitt til vitnis um að þú sért búin að ná þér nægilega til að koma til starfa á ný, a.m.k. að einhverju leyti. Í fjarveru þinni hefur okkur sárvantað  skynsemisraddir sem tala um jafnrétti, jafnræði og "hagfræði hinnar hagsýnu húsmóður." Það er alls ekki laust við að ég sakni máflutnings sem ég kenni við Kvennalista í seinnitíma umræðum um stjórnmál. Ekki það að  ég væri alltaf sammála Kvennalistanum, en ég var yfirleitt ánægður með málflutninginn.

Vissulega er þessi kreppa alþjóðleg og við hefðum aldrei getað ráðið neinu um tilurð hennar. En hitt er jafn víst, að kreppan hefur farið miklu verr með okkur en aðrar vestrænar þjóðir. Og hvers vegna er það? Þegar ég rifja upp forsöguna standa nokkur atriði uppúr í mínu pólitíska og gloppótta minni:

  •  Eftir að við stofnuðum EES var umræða um að við tækjum næstu skref og sæktum um fulla aðild að ESB og tækjum upp Evru "tekin út af borðinu" og læst niður í skúffu í 10 ár.
  • Við einkavinavæðingu bankanna var þess vandlega gætt að engar hömlur væru á starfsemi þeirra og eigenda þeirra. Það gekk svo langt að steinar voru lagðir í götu annarra sem vildu komast að þessu alsgnægta borði og þeir lagðir í einelti
  • Frjálshyggjustefna Sjálfsæðisflokksins hefur skarað ágóða að útrásareldi fárra aðila og þeir hafa skrækt ámátlega í hvert skipti sem imprað hefur verið á regluverki og jafnræði.
  • Hávaxtastefna Seðlabankans hefur átt þátt í að skapa hér verðbólgu sem hefur gert okkur mjög erfitt fyrir um hagstjórn og eðlilega dreifingu á bættum kjörum.
  • Athafnir Seðlabankans síðustu 2-3 vikur hafa verið mjög umdeilanlegar og í sumum tilfellum algjörlega út í hött.
Öll atriðin eiga það sameiginlegt að vera að fullu og öllu á ábyrgð Davíðs Oddssonar, átrúnaðargoðs Sjálfstæðismanna. Reiði mín beinist því ekki að útrásar forkólfunum sem störfuðu eftir íslenskum lögum og reglum heldur að Davíð og Sjálfstæðisflokknum sem eru ábyrgir fyrir kerfinu. Þar liggur meinsemdin.
 
Ég er sammála þér um tækifærin sem felast í stöðunni og einkum þó því að "við verðum... að vita hvert við stefnum og læra af þeim mistökum sem við höfum þegar gert," og svo hinu að "nú eru það leikreglurnar sem eiga að gilda en ekki samböndin."
 
Gangi þér vel og góðan bata. 

mbl.is Ingibjörg Sólrún: Fyrst IMF og svo ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband