Færsluflokkur: Samfylkingin

Magma og heillum horfin Samfylking

2_juni_2007_027.jpg

 Úr stofnskrá Samfylkingarinnar samþ. 2000:

"Samfylkingin telur að sameiginlegar auðlindir Íslendinga, svo sem nytjastofnar sjávar og orkan í fallvötnum og á jarðhitasvæðum, skuli vera ævarandi þjóðareign. Eðlilegt endurgjald fyrir afnot af þeim á að renna til þjóðarinnar."

Úr stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar 2007:

"Samfylkingin vill að þjóðareign á sameiginlegum auðlindum verði bundin í stjórnarskrá."

Úr stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar 2009:

"Nauðsynlegt er að breyta stjórnarskrá til að tryggja þjóðareign á sameiginlegum auðlindum..." 

Úr stefnuræðu formanns Samfylkingarinnar á landsfundi 2009:

"Við leggjum mikla áherslu á að ákvæði um þjóðareign á auðlindum verði sett í stjórnarskrá og að þannig verði komið í veg fyrir að eignarhald okkar mikilvægustu auðlinda lendi í einkaeign fárra."

Úr samstarfsyfirlýsingu Samfylkingar og VG 2009: 

"Standa þarf vörð um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum sínum."

Miðað við samantektina hér að ofan myndu sumir halda að stefna Samfylkingarinnar í auðlindamálum væri nokkuð skýr. Margir myndu líka halda að þegar Samfylkingin er í stjórnarsamstarfi með flokki sem í aðalatriðum hefur sömu afstöðu til eignarhalds á auðlindum þá sé öllu óhætt.  Staðreyndin er hinsvegar sú að forystumenn Samfylkingarinnar virðast handónýtir þegar kemur því að varðveita eða að koma auðlindunum í þjóðareign.

Þegar alþjóðleg risafyrirtæki eru að sölsa undir sig auðlindir þá beita þau gjarnan málflutningi sem byggist á því "að enn sé ekkert ákveðið, að eingöngu sé um könnun að ræða, að það sé nægur tími til að gera athugasemdir" o.s.frv. Um leið eru hinsvegar settir frestir og bundnar dagsetningar og fyrr en varir er orðið allt of seint að hafa skoðun á málinu. Mér finnst eins og stjórnvöld hafi beitt almenning svipuðum aðferðum varðandi þetta Magma mál. Í 4 ár hefur okkur verið sagt að ekkert væri að óttast og að stjórnvöld hefðu fullan rétt til að koma að málinu á síðari stigum.

Það er ömurlegt að þurfa nú að hlusta á fulltrúa Magma endurtaka í sífellu að stjórnvöld hafi haft ótal tækifæri til að hafa áhrif á og/eða koma í veg fyrir þessa samninga en nú sé það um seinan.

Miðað við kynningu á þessum samningi sem ég hlustaði á í Grindavík í fyrra þá er hann ein svívirða frá upphafi til enda. Sjálfbær nýting auðlindanna er ekki tryggð, tímalengdin jafngildir nánast sölu á auðlindunum og endurgjaldið fyrir afnotin er svo lágt að engu tali tekur.

Hvað þýðir eiginlega þjóðareign? Á þjóðareign við um það þegar hlutafélög á markaði eða lífeyrissjóðir eiga auðlindir. Ég held ekki og dæmin sýna að hvorugt gengur upp. Við þurftum að fara gegnum ansi erfiða atburðarás til að átta okkur á þessu enda var þetta ein af kennisetningum útrásarapanna og þeirra stjórnmálaafla sem deildu völdum með þeim. En getur þjóðareign átt við um eign sem er í eigu fámenns sveitarfélags? Nei.  Þjóðareign þýðir bara þjóðareign, eign sem öll þjóðin á, ber ábyrgð á og nýtur arðs af ef svo vill til.

 

 


mbl.is Styðja ekki ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er eiginlega í gangi?

Er allt að falla í sama gamla flokkspólitíska farið þar sem hagsmunir FLOKKSINS ganga ávallt framar hagsmunum fólksins? Miklu framar. Leyndar- og lygahjúp er sveipað um málefnaumræður og gegnið á svig við yfirlýsingar í kosningabaráttunni. Formenn og forystulið gengur íbyggið um ganga og gefur misvísandi en einskisverðar upplýsingar um ekki neitt. Þetta kemur okkur ekkert við. FLOKKARNIR eru að semja.

Margir kusu VG vegna ítrekaðra yfirlýsinga um að ekki yrði mikið mál að semja um lýðræðislega leið til að fólkið fengi að tjá sig um ESB-viðræður. Margir kusu SF vegna þess að þeir héldu að flokkurinn sem setti D-flokkinn frá myndi starfa í anda gegnsæis og lýðræðis.  En strax daginn eftir kosningar var kosningunum rænt af FLOKKUNUM. Djúp og að því er virðist illbrúanleg gjá opnaðist á milli forystumanna þeirra um ESB.  Okkur var sagt að viðræður um ríkisfjármál og stjórnkerfisbætur væru hafnar og færu fram samhliða umræðum um ESB en í raun hófust þessar viðræður ekki fyrr en á laugardaginn var. Allt tóm lygi og við virðumst ekkert eiga inni frá stjórn hinna 80 daga nema skít undir teppum. 

 Allt er eins og það var 2008.

Ráðuneyti hinna 18 ölmusuúrræða  er heillum horfin. Allar aðgerðir sem miða að því að forða heimilum og fyrirtækjum frá því að lenda á sveit eru sagðar kosta of mikið. En hvað kostar það ríkissjóð að yfirtaka húsnæði tugþúsunda fjölskyldna? Hvað verður um allar þessar fjölskyldur eftir að þær hafa verið settar á sveit? Hvað ætla bankar og íbúðalánasjóður að gera við allt þetta húsnæði? 

Nú þegar sjást merki kreppunnar í skólum og á vinnustöðum en það er bara forsmekkur af því sem mun verða þegar fjöldagjaldþrotin dynja yfir. Tugþúsundir fjölskyldna, sumir segja 40 þús, á faraldsfæti. Börn flutt "en gross" milli skóla, stóraukin afbrotatíðni, þverrandi andlegt og líkamlegt heilbrigði, aukinn ójöfnuður og sár fátækt í meira mæli en við höfum séð áður. Hvað kostar þetta???

Væri ekki sniðugt að reikna út hvað þetta kostar frekar en að afskrifa með drambi allar tillögur um neyðarhjálp fyrir fólk sem ekki er alveg drukknað. Það fólk getur náð sér aftur þegar hlúð er að því. Þeir sem drukkna ná sér aldrei aftur. Tímarnir eru óvenjulegir og þeir kalla á óvenjulegar aðgerðir.

Aðgerðir til stuðnings fólki sem ekki er orðið gjaldþrota eiga sér stuðning í öllum flokkum þ.á.m. í stjórnarflokkunum. Þær hafa verið til umræðu síðan í fyrra haust t.d. í þessum pistli og margar útfærslur hafa litið dagsins ljós. E.t.v. þurfum við samt annarskonar stjórn til að þær nái fram að ganga og sama gildir um ESB. 

 


mbl.is Stjórnarmyndunarviðræðum haldið áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylking á skilorði

Annar fallinnAf þeim aragrúa verkefna sem þurfti að einhenda sér í við hrun banka og efnahags í október s.l. var eitt langmikilvægast: AÐ LOSNA VIÐ SJÁLFSTÆÐISFLOKKINN ÚR STJÓRNARRÁÐINU.Um þetta skrifaði ég pistla í október s.l. bæði hér og hér. Í seinni pistlinum benti ég líka á að næstu mánuðir myndu ráða úrslitum um það hvort Samfylkingin yrði leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum í næstu framtíð. Í lok desember taldi ég í pistli að Samfylkingin væri fallisti ársins í pólitík þar sem hún hefði ekki náð að rísa upp og taka frumkvæði.

Það þurfti byltingarkennt ástand í þjóðfélaginu, uppreisn innan flokksins og einkaafsögn eins ráðherra til að vekja flokkinn af tiltölulega værum blundi. Tiltölulega værum blundi segi ég af því að nú hefur komið í ljós að Samfylkingin hafði af og til uppi fremur veiklulega tilburði til að takast á við ástandið í fyrri ríkisstjórn. Ef marka má "úrslitakostina" sem flokkurinn setti Sjálfstæðisflokknum daginn fyrir fall síðustu ríkisstjórnar þá megum við vel við una að ekki náðist samstaða.

Samfylkingin er á skilorði fram að kosningum. Og eins og títt er um menn á skilorði þá verða þeir að hafa samband við skilorðsfulltrúann sinn reglulega og ekki sjaldnar en vikulega. Skilorðsfulltrúinn erum við, - fólkið í landinu. Og í guðanna bænum ekki byrja á því hvort ég sem þetta ritar sé fólkið í landinu. 

Ráðuneytin eru ekkert annað en skrifstofur viðkomandi ráherra. Pælið í því hvernig það er fyrir stjórnarandstöðu þingmann að fá alltíeinu fullbúna skrifstofu með húsnæði, mannafla, tækjabúnaði og bílstjóra til afnota fyrir sig persónulega. Það er eins gott að það liggi eitthvað eftir þá.

Fyrsta verk er að setja saman auðskiljanlega tímasetta áætlun um stöðuna núna og aðgerðir til að vinna okkur út úr kreppunni til skamms og langs tíma. Og hér dugir ekkert almennt froðusnakk um afbragðs ásetning.


Góðar fréttir og slæmar

 n679043560_807039_2738.jpg

Góðu fréttirnar eru samþykkt langstærsta flokksfélagsins innan Samfylkingarinnar um að tafarlaust skuli slíta stjórnarsamstarfinu og blása til kosninga eigi síðar en í maí. Nú á eftir að koma í ljós hvort línurnar milli grasrótarinnar og flokksforystunnar séu styttri en milli fólksins í landinu og ríkisstjórnarinnar. Á sama tíma hefur skyndilega opnast ný leið til að mynda stjórn án Sjálfstæðisflokksins til skamms tíma.

Slæmu fréttirnar eru þær að á  hverjum deginum sem líður verður ljósara að Geir H ræður ekki við nokkurn skapaðan hlut og hrokinn í honum og hans liði öllu (t.d. Árna Matt) er nánast óskiljanlegur. Hvað hefur hann til að hreykja sér af? Ekki efnahagsstjórn síðustu 10 ára. Hann talar um vinnufrið sem hann hefur ekki unnið fyrir og hótar upplausn sem hann sér ekki að er löngu brostin á.

Útspil Guðlaugs Þórs í heilbrigðismálum  sínir betur en margt annað hversu gjörsamlega blindir og ónæmir ráðherrarnir eru fyrir ástandinu í þjóðfélaginu. Það að varpa þessum tillögum inn í þetta ástand er sannarlega eins og að kasta olíu á eld. Er þetta rétti tíminn til að setja líf óteljandi einstaklinga, heilu vinnustaðanna, í uppnám. Er þetta rétti tíminn til að segja fólki upp, flytja það milli sveitarfélaga, neyða það til að selja húsin sín, færa börn milli skóla og rífa þau úr samhengi við vini sína og umhverfi, skipa fólki á nýja vinnustaði með nýju fólki. Og allt þetta fyrir og miklu meira fyrir ótrúlega lítinn sparnað sem væntanlega reiknast innan skekkjumarka þegar allt er talið. 

Þessir menn hafa sýnt það að þá skortir dómgreind til að sinna starfi sínu. Burt með báða. 


mbl.is Samþykktu ályktun um stjórnarslit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin, fallisti ársins?

Þetta ár færði okkur marga fallista en fáa sigurvegara. Í mínum huga standa tveir upp úr, sinn í hvorum flokki.

samfylkingin.jpg

 Samfylkingin er fallisti ársins. Allt fram í september leit út fyrir að hún myndi setja mark sitt á núverandi ríkisstjórnarsamstarf. Fyrstu fjárlögin lofuðu góðu og allt leit út fyrir að hún myndi hafa forgöngu um að endurreisa velferðarkerfi sem svo mjög var laskað eftir 12 ára frjálshyggjufyllirí Sjálfstæðisflokks (og Framsóknar). Hún virtist ætla að standa sig þokkalega í góðærinu.

 Þegar kreppan skall á virtist hana skorta þekkingu, þor og pólitískan metnað. Hún gerði t.d. ekkert af því sem Göran Person lýsti sem undirstöðuatriðum til að ná tökum á afleitu ástandi. Hún greindi ekki ástandið á skipulagðan hátt, hún markaði ekki skilgreindar leiðir út úr kreppunni og hún kynnti ekki heilsteypta aðgerðaáætlun til skamms og langs tíma.

 Til viðbótar þessu þá hlustaði hún ekki á fólkið í landinu sem tjáði sig á Austurvelli og í Háskólabíói, á hundruðum bloggsíðna, í sjónvarpi og útvarpi, í dagblöðum og heitum pottum.  Jafnvel örvæntingaróp fólks á eigin flokksstjórnarfundi, sem sagðist ekki geta stutt flokkinn sinn nema hann tæki sig á, megnuðu ekki að vekja forystuna til lífs.

 Það er svo langt frá því að það sé nóg að hamra á því að við núverandi aðstæður sé aldeilis nauðsynlegt að jafnaðarmenn sitji í ríkisstjórn. Í ríkisstjórn verða að sitja jafnaðarmenn sem tjá sig kvölds og morgna um lýðræði og jöfnuð, um spillingu og vanhæfi, um skilgreind markmið og leiðir. Það er ekki nóg að draga eitt og eitt lagafrumvarp upp úr hatti og veifa því. Við krefjumst þess að jafnaðar menn tali og tali opinskátt og af hreinskilni. Á þetta hefur vantað stórlega.

thorger_ur.jpg

 Sigurvegari ársins kemur úr ólíklegustu átt, - úr Sjálfstæðisflokknum. Hún heitir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Það er langt frá því að ég sé sammála henni um alla hluti. Ég skil t.d. ekkert í tali hennar um að nú þurfi að smala fólki til mennta og að skera um leið niður námslán og framlög til menntamála. En hún þorði að veita Davíði tiltal og hún hefur nánast ein og óstudd snúið Evrópustefnu Davíðs og Sjálfstæðisflokksins í hálfhring.

 Og nú bíðum við kosninga. Þegar þetta er skrifað er ekki líklegt að kosningar skili miklu. Það er ekki von til þess að núverandi stjórnmálaflokkar með að miklu leyti sama fólk í framboði geti tekið á þeim þjóðfélagsmeinum sem hafa komið svo skýrt í ljós að undanförnu. Þess vegna bíðum við líka eftir nýjum stjórnmálaöflum sem eru reiðubúin að berjast fyrir uppskurði á íslensku stjórnarfari.

 Við viljum meiri þátttöku almennings, virkara og rismeira þing og aukna ábyrgð framkvæmdavaldsins.


Mikið er sakleysi þitt

FélagarMikið er langlundargeð og sakleysi þessa manns. Hann var illa svívirtur helgina dramatísku þegar atburðarásin var sett í gang. Hann lét sig samt hafa það dag eftir dag að stilla sér upp á blaðamannafundum við hlið Geirs  til þess eins að mæra hann og stuðla að blekkingunni um að ríkisstjórnin hefði stjórn á atburðarásinni.

Miðað við frétt mbl.is af því sem fram kom í Markaðnum var hann þó bara statisti. Davíð og Geir skrifuðu handritið og réttu leikurunum, - og statistunum, aðeins þær línur sem þeir áttu að fara með og upplýsingar um hvar þeir ættu að standa. Enda var altalað að Björgvin væri á þessum fundum uppá punt. Hann hefði ekkert að segja en lygarnar og leyndarmálamakkið virkuðu betur ef fulltrúi Samfylkingarinnar stæði þarna líka.

En nú virðist Björgvin vera að átta sig á þessu líka og vonandi er Samfylkingin í heild að átta sig á því að hún hefur verið höfð að fífli. Eða er hún kannske bara að átta sig á því að VG hefur meira fylgi en hún og það bara gangi ekki?

Greining Samfylkingarinnar (a.m.k. sú sem við fáum að vita um) á ástandinu hefur verið kolröng og þar af leiðandi viðbrögð og aðgerðir líka. Hún hefur talið sig vera ómissandi og hangið á þeirri mítu að nú væri gott að hafa jafnaðarmenn í ríkisstjórn. En jafnaðarmenn 

  • sem ekki heyra raddir fólksins
  • sem ekki viðhafa lýðræði og opna stjórnsýslu
  • sem ekki stunda hreinskilni og að segja satt
  • sem láta sér lynda að starfa í skjóli frjálshyggjuklíkunnar sem lagði þjóðfélagið í rúst

er einskis virði. Þessir jafnaðarmenn eru ekki ómissandi og menn snúa sér eitthvað annað. En fyrst og fremst:

Það gengur ekki að þeir sem lögðu hagkerfið í rúst
stjórni viðreisninni.


mbl.is Björgvin: Spurningarmerki við Glitnisatburðarás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylking er eina vonin

Ég hef bent á það í fyrri færslum að eina von almennings í þessu landi er að Samfylkingin hafi styrk og þor til að stjórna endurreisninni. Það er gífurlega mikilvægt að það verði ekki Sjálfstæðisflokkurinn. Honum er ekki treystandi til þess að standa fyrir þeim úrbótum á íslensku lýðræði, jafnrétti og jafnræði sem þörf er á. Framtíð Samfylkingarinnar veltur líka á því að hún sýni að hún ráði við þetta verkefni.

Samfylkingin hefur lítið sem ekki komið að stjórn efnahagsmála fram til þessa.  Nú er hennar tími runninn upp. Ef hún bregst mun skapast tómarúm sem verður fyllt af - Sjálfstæðisflokknum. Aðrir flokkar hafa ekki burði til þess.

Myndbandið og textinn sem fylgir frétt mbl.is gefur til kynna að Samylkingin muni kikna. Hins vegar er engan vegin víst að fréttin gefi rétta mynd af því sem fram fór á Alþingi. Það væri ekki í fyrsta skipti sem fréttir þar eru litaðar af sérhagsmunum Sjálfstæðisflokksins og "hans" manna. 


mbl.is Ekki benda á mig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband