Færsluflokkur: Kreppan

To be or not to be!

Enn er komið að grundvallar uppgjöri. Eva Joly hótar að hætta nema ríkisstjórnin sýni að hún sé tilbúin að standa að baki alvöru rannsókn. Ástandið í þjóðfélaginu er að verða eins og það var alvarlegast í vetur og ríkisstjórnin þarf að sanna fyrir þjóðinni hvort hún ætlar eða ætlar ekki:

  • Ætlar hún að láta rannsaka hvort lögbrot voru framin í bönkunum?
  • Ætlar hún að draga menn til saka ef lögbrot voru framin?
  • Ætlar hún að leita að stolnu fé?
  • Ætlar hún að hefja sig yfir feðraveldið á Íslandi?

 

Einhverjum kann að þykja að það sé við hæfi að taka ákvörðun um þessi atriði og upplýsa okkur kjósendur um þau á sama tíma og við erum upplýst um upphæðirnar sem okkur er ætlað að greiða vegna ófara bankanna. Ég er í þeim hópi.

Rannsóknin verður ekki einfalt verk og leikurinn mun berast um víðan völl. Sjálfsæðisflokkurinn hefur leitt krónprins Engeyjarættarinnar til formennsku og þar með tekið sér stöðu með Kolkrabbanum og á móti rannsókn. Jafnframt var leiddur fram Illugi nokkur formaður peningabréfasjóðs sem fékk sérstaka aðstoð umfram aðra slíka. Guðlaugur Þór var kosinn til mikilla áhrifa en hann var formaður Orkuveitunnar þegar til stóð að færa einkaaðilum öll verðmæti sem þar fyndust og hann hefur þegið ríflega styrki í formi peninga og fríðinda úr hendi greddugæjanna sem tröllriðu bönkunum. Varaformaðurinn Þorgerður Katrín naut gegnum eiginmann sinn „vildarkjara" við kaup á hlutabréfum. Framsókn kaus Sigmund Davíð til formennsku, erkijarl Marglyttunnar og erfingja framsóknarauðæfa og nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar, t.d. Steinun Valdís og Helgi Hjörvar hafa þegið styrki frá sömu aðilum.

Þetta sýnir bara lítið brot af þeim hagsmunatengslum sem eflaust eiga eftir að koma í ljós þegar og ef rannsóknin kemst af stað. Stjórnkerfið mun verða fyrir áföllum bæði kerfislægum og persónubundnum. Stjórnmálamenn munu verða yfirheyrðir og kallaðir til að bera vitni fyrir dómstólum, einkavæðingarferli bankanna mun verða áberandi sem og aðgerðir eftir að í óefni var komið og etv munu mútur og stórhneyksli verða á allra vörum. Það mun hrikta í baktjaldanetum hinna einstöku hagsmunahópa. 

Það var alltaf fyrirséð að Íslendingar myndu illa ráða við þetta verkefni sjálfir. Í okkar þjóðfélagi bætast ættar- og kunningjabönd við hagsmunanet sérhyggju og einkavina og hér hafa ættarböndin verið sterkustu böndin allt frá upphafi byggðar. Þess vegna batt ég miklar vonir við ráðningu Evu Joly. En svo virðist að þau öfl sem hafa hagsmuni af því að ekkert verði rannsakað séu langt komin með að vinna þessa baráttu áður en hún er hafin fyrir alvöru.

Ef ríkisstjórnin ætlar að svara einhverri af ofangreindum spurningum játandi þá er tími til aðgerða núna. Þó Eva geti líklega ekki formlega leitt þessa rannsókn þá þarf að líta á hana sem hinn raunverulega leiðtoga hennar. Það þýðir að hennar ráð verða okkar ráð. Það þarf greinilega að endurskipuleggja vinnuna og mér þætti ekkert skrítið þó ráða þyrfti hátt í 100 manns að henni, þar af ca þriðjung óháðra erlenda sérfræðinga. Og kostnaðurinn? Í fyrsta lagi verðum við að líta þannig á að þessum milljörðum sé varið til að styrkja innviði réttarríkisins.  Í öðrulagi til að innheimta eitthvað af því fé sem virðist hafa horfið og í þriðja lagi til að stuðla að friði í samfélaginu.

Orð Jóhönnu í grein mbl.is um afstöðu ríkisstjórnarinnar vekja nokkra bjartsýni um að farið verði að ráðum Evu.


mbl.is Ríkisstjórn styður Joly
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er eiginlega í gangi?

Er allt að falla í sama gamla flokkspólitíska farið þar sem hagsmunir FLOKKSINS ganga ávallt framar hagsmunum fólksins? Miklu framar. Leyndar- og lygahjúp er sveipað um málefnaumræður og gegnið á svig við yfirlýsingar í kosningabaráttunni. Formenn og forystulið gengur íbyggið um ganga og gefur misvísandi en einskisverðar upplýsingar um ekki neitt. Þetta kemur okkur ekkert við. FLOKKARNIR eru að semja.

Margir kusu VG vegna ítrekaðra yfirlýsinga um að ekki yrði mikið mál að semja um lýðræðislega leið til að fólkið fengi að tjá sig um ESB-viðræður. Margir kusu SF vegna þess að þeir héldu að flokkurinn sem setti D-flokkinn frá myndi starfa í anda gegnsæis og lýðræðis.  En strax daginn eftir kosningar var kosningunum rænt af FLOKKUNUM. Djúp og að því er virðist illbrúanleg gjá opnaðist á milli forystumanna þeirra um ESB.  Okkur var sagt að viðræður um ríkisfjármál og stjórnkerfisbætur væru hafnar og færu fram samhliða umræðum um ESB en í raun hófust þessar viðræður ekki fyrr en á laugardaginn var. Allt tóm lygi og við virðumst ekkert eiga inni frá stjórn hinna 80 daga nema skít undir teppum. 

 Allt er eins og það var 2008.

Ráðuneyti hinna 18 ölmusuúrræða  er heillum horfin. Allar aðgerðir sem miða að því að forða heimilum og fyrirtækjum frá því að lenda á sveit eru sagðar kosta of mikið. En hvað kostar það ríkissjóð að yfirtaka húsnæði tugþúsunda fjölskyldna? Hvað verður um allar þessar fjölskyldur eftir að þær hafa verið settar á sveit? Hvað ætla bankar og íbúðalánasjóður að gera við allt þetta húsnæði? 

Nú þegar sjást merki kreppunnar í skólum og á vinnustöðum en það er bara forsmekkur af því sem mun verða þegar fjöldagjaldþrotin dynja yfir. Tugþúsundir fjölskyldna, sumir segja 40 þús, á faraldsfæti. Börn flutt "en gross" milli skóla, stóraukin afbrotatíðni, þverrandi andlegt og líkamlegt heilbrigði, aukinn ójöfnuður og sár fátækt í meira mæli en við höfum séð áður. Hvað kostar þetta???

Væri ekki sniðugt að reikna út hvað þetta kostar frekar en að afskrifa með drambi allar tillögur um neyðarhjálp fyrir fólk sem ekki er alveg drukknað. Það fólk getur náð sér aftur þegar hlúð er að því. Þeir sem drukkna ná sér aldrei aftur. Tímarnir eru óvenjulegir og þeir kalla á óvenjulegar aðgerðir.

Aðgerðir til stuðnings fólki sem ekki er orðið gjaldþrota eiga sér stuðning í öllum flokkum þ.á.m. í stjórnarflokkunum. Þær hafa verið til umræðu síðan í fyrra haust t.d. í þessum pistli og margar útfærslur hafa litið dagsins ljós. E.t.v. þurfum við samt annarskonar stjórn til að þær nái fram að ganga og sama gildir um ESB. 

 


mbl.is Stjórnarmyndunarviðræðum haldið áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spillta Ísland

n818268081_1987817_5348.jpgKosningabaráttunni lauk í gærkvöldi þegar formenn stjórnmálaflokkanna sátu fyrir svörum í sjónvarpi og útvarpi. Enn og aftur sátu menn og ræddu saman eins og síðastliðinn vetur hefði verið fremur tíðindalaus. Það var engin leið að merkja að eldar hefðu brunnið á Austurvelli, bumbur hefðu verið barðar og að tugir eða hundruð lögreglumanna hefðu staðið vörð um Alþingishúsið og Alþingismenn, gráir fyrir járnum. 
 
Það var ekki minnst orði á að þúsundir mótmæltu á Austurvelli í 23 vikur samfellt. Það jafngildir því að margar milljónir hefðu mótmælt helgi eftir helgi í Washington eða hundruð þúsunda í London. Það var ekki minnst á kröfur fólksins um lýðræðisbætur og stjórnlagaþing eða að grasrótin í Samfylkingunni gerði uppreisn gegn forystu flokksins.  Það var ekki minnst á þann fáheyrða atburð að ráðherra sagði af sér eða á mútugreiðslur til stjórnmálaflokka og/eða styrki til einstakra Alþingismanna. 
 
 Í stjórnmálum eru traust og heiðarleiki langmikilvægustu eiginleikar fólks og flokka. Þegar hvorugt er til staðar er lítils virði að ræða um fjármál, atvinnumál og velferð. Þetta er það sem brennur á kjósendum eftir  fjárhagshrunið í vetur sem leið og siðferðisbresti kjörinna fulltrúa sem komu í ljós í framhaldinu.
 
HVAÐ ER TIL RÁÐA HVAÐ Á MAÐUR AÐ KJÓSA?
 
Hér fyrir neðan eru glefsur úr leiðara DV í gær
 

"Stjórnmálamennirnir sýna sterkan ásetning um að fela fyrir kjósendum mikilvægar upplýsingar um gjafir til þeirra frá stórfyrirtækjunum sem þeir áttu að beita aðhaldi fyrir okkar hönd. Þeir samtryggja sig um að fela krosstengslin milli stjórnmála og viðskipta. Það er í slíku samfélagi sem spilling þrífst...

Baráttan gegn spillingu er ekki aðeins hugsjón. Hún snýst þegar allt kemur til alls um hagkvæmni og velferð samfélagsins í heild. Spillingin gagnast hinum fáu, eins og þingmönnunum okkar og þeim ríkustu á meðal okkar, en hún kostar almenning. Hún endar alltaf á því að seilast í vasa almennings og færa fé yfir í hendur hinna fáu...

Árið 1993 fengu 1% ríkustu fjölskyldurnar á Íslandi 4,2% af heildartekjunum. Árið 2007 hafði hlutur hinna fáu aukist í tæp 20%...

Við vitum ekki enn hversu mikið stórfyrirtækin styrktu stjórnmálamennina, hverjir styrktu þá og hvað peningarnir voru notaðir í. Þannig vilja stjórnmálamennirnir okkar hafa það. En þeir verða að skilja, að þeir komast ekki upp með það... 

Stóra kosningamálið í ár er ekki ESB, ekki fiskveiðistjórnunarkerfið og ekki virkjanaframkvæmdir. Stóra spurningin í kosningunum er: Hverjum getum við treyst?... "
 
 

Sjálfstæðisflokkur stikkfrí

n818268081_1987824_8257.jpgAtburðirnir í janúar og febrúar voru aldeilis magnaðir. Í vetrarhörkum tók almenningur í landinu sig til og barði bumbur dag eftir dag og langt framá nótt. Það loguðu eldar á Austurvelli og við hið virðulega Þjóðleikhús Íslendinga. Og stemmingin var magnþrungin. Tryllt trommutónlist í bland við búsáhalda blús og lúðra blástur í nístandi kulda við yl frá logandi bálköstum. Þetta var görótt og engu líkt. Þessu gleymir enginn sem þarna var.

Þótt engar skýrslur væru lagðar fram komust skilaboðin til skila a lokum. Ekki alveg hjá öllum þó því þingmenn Sjálfstæðisflokksins náðu þessu aldrei og hafa ekki fattað enn út á hvað þetta allt saman gekk. En það er e.t.v. ekki við að búast af mönnum sem studdu innrásina í Iraq, studdu Söru Palin í forsetakosningunum í BNA og telja hlýnun jarðar vera bábilju. E.t.v. þurfum við að taka aðra rispu á pönnunum okkar með haustinu. 

n818268081_1981490_3082_811023.jpgSjálfstæðismenn tala enn eins og ekkert hafi skeð. Ónýtt Alþingi er enn heilagt í þeirra augum og þeir heilagir vegna nándar við það. Þeir hafa enn ekki fattað að nú er leitað allra ráða til að færa vald frá Alþingi til fólksins og að engar sættir munu verða fyrr en það næst. Hitt er jafn mikilvægt, að almenningur fái miklu virkari tæki til að veita Alþingi aðhald og helst setja það frá ef um koll keyrir. Þetta eru nú afleiðingar 18 ára valdatímabili Sjálfstæðisflokksins.

Ég vek athygli á glæsilegri myndsyrpu Jóhanns Smára Karlssonar frá mótmælunum. Honum hefur tekist að fanga augnablik sem lýsa stemmingunni nokkuð vel. Jóhann er líka á Flickr.

En við þurfum að fylgjast með og passa uppá að stjórnarflokkarnir gefist ekki upp. 


mbl.is Meirihluti vill stjórnlagaþing samkvæmt könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eva Joly, Ragna og Gylfi

Eva-Joly-1

Þessa dagana eru menn mikið sammála um tvennt.

Annarsvegar um það hversu sterkur leikur það var hjá ríkisstjórninni að kalla tvo ópólitíska fagmenn til starfa með stjórninni. Þau Ragna og Gylfi hafa unnið sér sess  fyrir hógværð, látleysi og fagmennsku. Engir útúrsnúningar eða ráðherrarembingur þar. Þau svara spurningum hreint og beint og þurfa ekki að aðlaga svörin að  flokkshagsmunum eða hugsanlegum ómálefnalegum árásum andstæðinga. Þau virðast í raun eiga miklu færri andstæðinga en flokkspólitískir ráðherrar og geta betur sinnt þeim störfum sem þeim eru ætluð. Þetta er akkúrat það sem þjóðin þarf á að halda þessa dagana.

 Hitt atriðið varðar ráðningu Evu Joly til ráðgjafar fyrir þá sem sinna eiga rannsókn á hruninu og aðdraganda þess. Ég hef stundum hugsað hvort það sé hluti af drambsemi Íslendinga að telja sig geta allt sjálfir og vera bestir í öllu. Þessi hrokafulla afstaða átti örugglega sinn þátt í að við misstum allt. Drambsömu drengirnir ætluðu að breyta klukkunni, taka upp nýtt móðurmál og fundu enga í öllum heiminum sem stóð þeim á sporði.

Við hin horfum á þessa örfáu aðila sem eiga að finna, rannsaka og sækja til sakar þá sem etv hafa brotið af sér og finna þá sem bera pólitíska ábyrgð líka. Það sker í augun hversu fámennar þessar stofnanir eru og varla hægt að búast við að hver stofnun ráði við nema 2-3 mál. Sennilega verður þörf á að rannsaka 20-30 ef ekki 200-300 mál hjá hverri stofnun. 

Ráðning Evu voru því einhverjar bestu fréttir undanfarinna mánuða.  Það verður að gera hlutina upp á trúverðugan hátt. Í þjóðfélaginu ríkir reiði og tortryggni. Traust er beinlínis undirstöðuatriði til að hægt sé að starfa í lýðræði. Traust á kerfinu, traust til Alþingis og traust til stjórnmálamanna. En stofnanir og einstaklingar eru rúin trausti eins og nú er og margir liggja beinlínis undir grun um að þeir séu glæpamenn. Þessu verður að linna og Eva vekur von um að það megi takast.

Og hún byrjar vel með því að kalla mönnunina á embætti hins sérstaka saksóknara brandara. 


mbl.is Eva Joly sérstakur ráðgjafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvenskörungur dregur sig í hlé

ingibjörg_808492.jpg

Í hartnær 30 ár hefur Ingibjörg Sólrún verið hreyfiafl í íslenskum stjórnmálum. Ég hef átt þess kost að starfa með henni, þótt í litlu væri, og dáðist af þeim mannkostum sem hún lagði með sér. Það dylst engum að þarna fer vel gáfuð og skarpgreind kona. Það var hrein unun að fylgjast með henni og stöllum hennar í Kvennaframboði og Kvennalista. Endurteknir sigrar á íhaldinu í Reykjavík og afar farsæll ferill hennar í Borgarstjórn segja líka sína sögu. Hennar þáttur í stofnun Samfylkingarinnar og hennar störf þar verða seint ofmetin.

Sumir munu helst vilja tala um síðustu viku Ingibjargar Sólrúnar í stjórnmálum (að sinni) og stöðuna í Samfylkingunni eftir hana. Það er að mínu mati engan vegin sanngjarnt og nær að rifja upp stjörnuleik hennar dagana 25. og 26. janúar þegar Geir H var settur af. Þar var hún í essinu sínu, eins og ég skrifaði um hér, þótt hún gengi líkamlega ekki heil til skógar og þannig vil ég muna eftir henni. Og hvað sem öðru líður þá er hún auðvitað einn af mikilhæfustu stjórnmálaleiðtogum síðustu ára. 

Gangi þér allt í haginn Ingibjörg Sólrún. Gaman að hafa verið samferða þér. 


mbl.is Ingibjörg Sólrún hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dreifum byrðunum

Neyðarástand og neyðarlög.

Nú stefnir í það að byrðunum verði velt að miklu leyti á skuldara þessa lands. Skuldarar geta fengið lítilsháttar gálgafrest en þeir skulu borga brúsann. Við núverandi aðstæður er það lágmarks sanngirni að skuldarar og lánadrottnar skipti með sér byrðunum. Tillaga Benedikts gengur út á það.

Ef svo fer sem horfir verða foreldrar þessa lands að bera byrðina en lánadrottnar skulu hafa allt sitt á hreinu. Þegar atvinna minnkar hrökklast konur fyrst af vinnumarkaði og síðan karlar. Fyrst verður vinnan minni og síðan kannski engin, verðlag hækkar.  Vanskil hrannast upp á heimilunum, kvíði og þunglyndi hreiðrar um sig, heilsan versnar. Börnin verða líka fórnarlömb. Allt þetta má minnka og koma í veg fyrir með því að dreifa byrðunum rétt. 

Dreifum byrðunum bæði á skuldara og lánadrottna.


mbl.is Verðtryggingin verði fryst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðgjafar Geirs eru fundnir

Þetta er alveg þrælmögnuð frétt.

  1. Fréttin er að langmestu um það hvernig Davíð hirtir efnahagsmálaráðherrann Geir H á fundi í höfuðvígi Sjálfstæðismanna, en fyrirsögnin er um fjölmiðla. Þetta er Mogginn!!! 
  2. Davíð upplýsir um að hann sé alsaklaus og gefur smjörklípur á báða bóga til að varpa kastljósinu á aðra.
  3. Seðlabankastjóri talar eins og pólitíkus sem er auðvitað best til þess fallið að hvorki embættismenn. sérfræðingar eða stjórnmálamenn geta treyst honum.

Geir H svarar svo þessum ásökunum foringja síns og læriföðurs með nokkrum orðum í fréttum RÚV í hádeginu. Þar kemur fram að vissulaga hafi Davíð varað hann við. Það gerðu líka tugir af virtum innlendum og erlendum hagfræðingum. En Geir H fór með þetta allt saman á fund bankastjóranna og þeir sögðu honum að ekkert væri að óttast.

Þar með er staðfest að ráðgjafar Geirs H, efnahagsmálaráðherra, voru bankastjórar viðskiptabankanna sem áttu að vera undir sérstöku eftirliti hans og ríkisstjórnarinnar. Þetta er það sem ég taldi mig vita og kemur fram í færslu hér og hér.

Þetta gengur engan vegin.


mbl.is Fjölmiðlar í heljargreipum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir fattar ekki málið!

Það er mjög líklegt að ástæðan fyrir því að IMF vill ekki veita okkur fyrirgreiðslu sé allt önnur en sú sem íslensk stjórnvöld segja okkur. Geir H segir  Breta og Hollendinga beita þrýstingi til að Icesave málin verði leyst áður en IMF afgreiði umsókn okkar. Hann telur þetta til marks um að þeir blandi saman óskyldum málum og beiti bolabrögðum.

Sennilega er rétta skýringin sú að IMF telur sig ekki vita hver efnahagsleg staða Íslands er eða hver hún verður  fyrr en búið er að ganga frá uppgjöri um Icesave reikningana. Jón Daníelsson telur að skuldirnar sem Ísland gæti þurft að taka á sig nemi sem svarar vergri landsframleiðslu. Það munar um minna og eðlilegt að IMF og önnur ríki geti illa tekið afstöðu til lána án þess að vita hver staða þjóðarbúsins sé.

Þetta er líklega það sem Geir H hefur ekki fattað og það sem hefur tafið fyrir endurreisninni. Það er tími til kominn að horfast í augu við raunveruleikann og snúa sér að lögfræðilegum rökum varðandi Icesave. Við þekkjum útúrsnúningarök Sjálfstæðisflokksins vel frá umræðunni hér innanlands og vitum að þau eru ekki boðleg.


mbl.is Samningar um Icesave eina leiðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þögnin er sjálfstætt vandamál

Af hverju segir enginn okkur hvað er að gerast. Í illa unninni frétt sem tengist þessari færslu staðfestir Geir H að "enn sé eftir að ganga frá fjármögnun annarra ríkja sem þurfi að fylgja láni IMF." Allt annað er í véfrétta stíl. Á mbl.is og visir.is eru amk 7 misvísandi fréttir bara í dag. Athygli vekur að margar skástu heimildirnar eru erlendar. Auk þess er frétt á visir.is um það sem blaðið hefur ekki fengið svör um. 

Þögnin er orðin sjálfstætt vandamál.

Ingibjörg: Hollendingar og Bretar leggja ofurkapp á að tefja vegna Icesave

Afgreiðslu umsóknar frestað

Engar ástæður gefnar fyrir frestun

IMF-lán strandar á öðrum lánum

Beita sér ekki gegn Íslandi

Bretar styðja IMF-lán, Hollendingar standa í veginum

Fátt um svör hjá ráðamönnum


mbl.is IMF-lán strandar á öðrum lánum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband