Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009
Sverð og skjöldur Sjálfstæðisflokksins?
21.3.2009 | 12:47
Um miðjan apríl 2007 hélt Sjálfstæðisflokkurinn landsfund. Geir H hélt um klukkutíma ræðu sem í ljósi sögunnar inniheldur líklega fleiri öfugmæli en nokkurt annað plagg í seinni tíð. Geir er hrokinn uppmálaður, grobbar sig af verkum sem voru ekkert annað en efnahagsleg hryðjuverk, gerir grín að þeim sem þorðu að benda á klæðaleysi foringjans og lofar meiru af sama.
Lítum á sundurlausar glefsur úr ræðunni sem er hér í heild sinni:
- Þau viðfangsefni sem við glímum nú við í efnahagsstjórninni hér á landi þættu flestum öðrum ríkjum öfundsverð ...
- Frelsi var leiðarljós þeirra breytinga sem innleiddar voru á tíunda áratugnum undir forystu okkar flokks... Það hefur gefið þá góðu raun sem við vissum fyrir...
- ... ef mesta framfaraskeið hagsögunnar endurspeglar mistök í hagstjórn, skulum við sjálfstæðismenn fúslega gangast við þeim...
- Atvinnulífinu tryggjum við öruggt rekstrarumhverfi með því að setja því ramma sem hæfir í frjálsu markaðshagkerfi og með skýrum leikreglum sem allir verða að hlíta...
Á þessum tíma höfðu mikilsmetnir innlendir og erlendir hagfræðingar margbent á að þetta "efnahagskerfi" Sjálfstæðisflokksins gæti ekki staðist, Það var m.a bent á að að áhættan sem fylgdi því væri allt of mikil fyrir þjóðina og að þetta gæti ekki staðist til lengdar alveg óháð því sem var að gerast annarsstaðar. Matsfyrirtæki höfðu hækkað lánaálag á bankana og lækkað lánastuðul banka og þjóðar, greiningardeildir erlendra banka höfðu notað háttstemmt orðalag til viðvörunar ofl ofl. Nánast allir nema Tryggvi Þór sem stóð dyggilega vörð um óhefta frjálshyggju og sparaði ekki orðin (ásamt meðreinahöfundum) í garð þeirra sem leyfðu sér að hafa uppi varnaðarorð.
Þar sem Geir H hefur ekki gengist við neinu telur hann væntanlega að engin mistök hafi átt sér stað. Vilja Íslendingar virkilega meira af hinu sama?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Alþingi rúið trausti
17.3.2009 | 17:14
Í síðustu færslu kenndi ég skorti á trúnaðartrausti milli þings, þingmanna og þjóðar um dræma þátttöku í prófkjörum síðustu helgar. Í þjóðarpúlsi Gallups frá 3.3.2009 kemur fram að einungis 13% Íslendinga bera mikið trausts til Alþingis. Þetta má væntanlega færa rakleitt ýir á þingmenn sem heild og þetta þurfa þeir að taka þetta alvarlega, - grafalvarlega. Þeir sem tala um virðingu þingsins og meina etv virðingu sem bera skal til þingmanna ættu að fara í meðferð.
Annar maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandi Eystra, Tryggvi Þór, á sér skrítinn feril síðustu misserin. Háskólaprófessor, forstjóri fjárfestingarbanka, sérstakur ráðgjafi forsætisráðherra og frambjóðandi til Alþingis. Hann er einn af þeim sem notar smjörklípur eins og þá að hann ætli ekki að segja frá því hvað varð til þess að uppúr slitnaði með honum og Geir H "að sinni." Það er fjallað um feril Tryggva á þessari síðu.
Sjálfstæðisflokkurinn er a.m.k. sjálfum sér samkvæmur. Velur í búntum menn sem eiga trúlega eftir að sæta rannsókn. Þar á bæ er traust ekki hátt skrifað.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skyni skroppnir sjálfstæðismenn?
15.3.2009 | 18:36
Mikilli prófkjörshelgi er að ljúka og margt athyglisvert hefur komið í ljós. Eitt það merkilegasta og í raun það alvarlegasta er hvað þátttaka var tiltölulega lítil. Eftir magnaðasta vetur sem um getur í stjórnmálasögu Ísland, eftir hrun banka- og efnahagskerfis landsins og í skugganum af rannsóknum og málaferlum, sem etv eiga eftir að rífa íslenskt þjóðlíf í tætlur, þá er þátttakan mun minni en var 2007.
Eftir 18 ára stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins hefur jafnvel flokksbundið fólk svo gjörsamlega tapað trausti til stjórnmálamanna að það mætir ekki til að kjósa þá á framboðslista.
Annað sem sker í augu er hvernig Sjálfstæðismenn raða á listana sína. Í Reykjavík úthluta þeir fyrrverandi stjórnarformanni peningabréfasjóðs nr. 9 hjá Glitni fyrsta sæti listans. Það á enn eftir að rannsaka allt varðandi þennan sjóð og þ.á.m. hvernig á því stóð að forsætis- og fjármálaráðherrar lýðveldisins nánast heimtuðu að fá að kaupa verðlitla pappíra af sjóðnum fyrir 11 milljarða án heimildar á fjárlögum og áður en neyðarlögin vegna yfirtöku bankanna voru samþykkt. Það er ekki víst að þarna hafi spillingarhrammur Sjálfstæðisflokksins verið að verki en það kann vel að vera.
Annað sætið lendir hjá fyrrverandi útrásarstjórnarformanni OR. Þetta er maðurinn sem var við stjórnvölinn þegar gerð var tilraun til að gefa græðgigæjunum fyrirtækið. Þetta er sami maðurinn sem taldi að janúar 2009 væri heppilegur tími til að setja allt á annan endann með misráðnum breytingum á heilbrigðiskerfinu. Eftir að hans menn höfðu ýtt okkur fram af hengifluginu ákvað hann að fjarlægja öryggisnetið líka.
Í Garðabæ var tilvonandi flokksformaður settur í fyrsta sæti. Maður sem væntanlega er persónulega og gegnum fjölskyldu sína meira flæktur í fjármálaævintýri síðustu ára en nokkur annar þingmaður. Í öðru sæti er kona sem var aðili að fyrirtæki sem átti í grunsamlegum viðskiptum við Kaupþing svo ekki sé meira sagt. Þetta er ekki búið að rannsaka og sekt eða sakleysi því ósannað.
Sjálfstæðismenn eru ekki alltaf sammála um það hvort hrunið og kreppan eru stefnu flokksins eða "bara" þingmönnum flokksins að kenna. Hvorugu skal því breytt að sinni.
Illugi sigraði í Reykjavík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.3.2009 kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sjálfstæðisflokkur stikkfrí
13.3.2009 | 21:54
Atburðirnir í janúar og febrúar voru aldeilis magnaðir. Í vetrarhörkum tók almenningur í landinu sig til og barði bumbur dag eftir dag og langt framá nótt. Það loguðu eldar á Austurvelli og við hið virðulega Þjóðleikhús Íslendinga. Og stemmingin var magnþrungin. Tryllt trommutónlist í bland við búsáhalda blús og lúðra blástur í nístandi kulda við yl frá logandi bálköstum. Þetta var görótt og engu líkt. Þessu gleymir enginn sem þarna var.
Þótt engar skýrslur væru lagðar fram komust skilaboðin til skila a lokum. Ekki alveg hjá öllum þó því þingmenn Sjálfstæðisflokksins náðu þessu aldrei og hafa ekki fattað enn út á hvað þetta allt saman gekk. En það er e.t.v. ekki við að búast af mönnum sem studdu innrásina í Iraq, studdu Söru Palin í forsetakosningunum í BNA og telja hlýnun jarðar vera bábilju. E.t.v. þurfum við að taka aðra rispu á pönnunum okkar með haustinu.
Sjálfstæðismenn tala enn eins og ekkert hafi skeð. Ónýtt Alþingi er enn heilagt í þeirra augum og þeir heilagir vegna nándar við það. Þeir hafa enn ekki fattað að nú er leitað allra ráða til að færa vald frá Alþingi til fólksins og að engar sættir munu verða fyrr en það næst. Hitt er jafn mikilvægt, að almenningur fái miklu virkari tæki til að veita Alþingi aðhald og helst setja það frá ef um koll keyrir. Þetta eru nú afleiðingar 18 ára valdatímabili Sjálfstæðisflokksins.
Ég vek athygli á glæsilegri myndsyrpu Jóhanns Smára Karlssonar frá mótmælunum. Honum hefur tekist að fanga augnablik sem lýsa stemmingunni nokkuð vel. Jóhann er líka á Flickr.
En við þurfum að fylgjast með og passa uppá að stjórnarflokkarnir gefist ekki upp.
Meirihluti vill stjórnlagaþing samkvæmt könnun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Eva Joly, Ragna og Gylfi
10.3.2009 | 19:33
Þessa dagana eru menn mikið sammála um tvennt.
Annarsvegar um það hversu sterkur leikur það var hjá ríkisstjórninni að kalla tvo ópólitíska fagmenn til starfa með stjórninni. Þau Ragna og Gylfi hafa unnið sér sess fyrir hógværð, látleysi og fagmennsku. Engir útúrsnúningar eða ráðherrarembingur þar. Þau svara spurningum hreint og beint og þurfa ekki að aðlaga svörin að flokkshagsmunum eða hugsanlegum ómálefnalegum árásum andstæðinga. Þau virðast í raun eiga miklu færri andstæðinga en flokkspólitískir ráðherrar og geta betur sinnt þeim störfum sem þeim eru ætluð. Þetta er akkúrat það sem þjóðin þarf á að halda þessa dagana.
Hitt atriðið varðar ráðningu Evu Joly til ráðgjafar fyrir þá sem sinna eiga rannsókn á hruninu og aðdraganda þess. Ég hef stundum hugsað hvort það sé hluti af drambsemi Íslendinga að telja sig geta allt sjálfir og vera bestir í öllu. Þessi hrokafulla afstaða átti örugglega sinn þátt í að við misstum allt. Drambsömu drengirnir ætluðu að breyta klukkunni, taka upp nýtt móðurmál og fundu enga í öllum heiminum sem stóð þeim á sporði.
Við hin horfum á þessa örfáu aðila sem eiga að finna, rannsaka og sækja til sakar þá sem etv hafa brotið af sér og finna þá sem bera pólitíska ábyrgð líka. Það sker í augun hversu fámennar þessar stofnanir eru og varla hægt að búast við að hver stofnun ráði við nema 2-3 mál. Sennilega verður þörf á að rannsaka 20-30 ef ekki 200-300 mál hjá hverri stofnun.
Ráðning Evu voru því einhverjar bestu fréttir undanfarinna mánuða. Það verður að gera hlutina upp á trúverðugan hátt. Í þjóðfélaginu ríkir reiði og tortryggni. Traust er beinlínis undirstöðuatriði til að hægt sé að starfa í lýðræði. Traust á kerfinu, traust til Alþingis og traust til stjórnmálamanna. En stofnanir og einstaklingar eru rúin trausti eins og nú er og margir liggja beinlínis undir grun um að þeir séu glæpamenn. Þessu verður að linna og Eva vekur von um að það megi takast.
Og hún byrjar vel með því að kalla mönnunina á embætti hins sérstaka saksóknara brandara.
Eva Joly sérstakur ráðgjafi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kvenskörungur dregur sig í hlé
9.3.2009 | 11:22
Í hartnær 30 ár hefur Ingibjörg Sólrún verið hreyfiafl í íslenskum stjórnmálum. Ég hef átt þess kost að starfa með henni, þótt í litlu væri, og dáðist af þeim mannkostum sem hún lagði með sér. Það dylst engum að þarna fer vel gáfuð og skarpgreind kona. Það var hrein unun að fylgjast með henni og stöllum hennar í Kvennaframboði og Kvennalista. Endurteknir sigrar á íhaldinu í Reykjavík og afar farsæll ferill hennar í Borgarstjórn segja líka sína sögu. Hennar þáttur í stofnun Samfylkingarinnar og hennar störf þar verða seint ofmetin.
Sumir munu helst vilja tala um síðustu viku Ingibjargar Sólrúnar í stjórnmálum (að sinni) og stöðuna í Samfylkingunni eftir hana. Það er að mínu mati engan vegin sanngjarnt og nær að rifja upp stjörnuleik hennar dagana 25. og 26. janúar þegar Geir H var settur af. Þar var hún í essinu sínu, eins og ég skrifaði um hér, þótt hún gengi líkamlega ekki heil til skógar og þannig vil ég muna eftir henni. Og hvað sem öðru líður þá er hún auðvitað einn af mikilhæfustu stjórnmálaleiðtogum síðustu ára.
Gangi þér allt í haginn Ingibjörg Sólrún. Gaman að hafa verið samferða þér.
Ingibjörg Sólrún hættir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ingibjörg í afneitun?
3.3.2009 | 22:03
Á tveimur dögum, laugardag og sunnudag, upplýsti Ingibjörg Sólrún okkur um að hún og Jóhanna ætluðu að taka fyrsta og annað sætið í prófkjörinu í Reykjavík, að Össur mætti vera í þriðja sæti, að ekki ætti að persónugera veikindi manna og áhrif þeirra á flokka, að Jóhanna væri kandidat Samfylkingarinnar til forsætisráðherra og að hún vissi fyrir víst að sér myndi batna. Það væri jafn víst og að sólin kæmi upp á morgun.
Sennilega er ég að miskilja eitthvað. Það hlýtur bara að vera. Konan sem viðurkennir að hún hefði átt að taka sér veikindafrí, að hún hefði átt að hætta fyrr með Geir og hefði átt að fylgjast betur með hvað stofnanir ríkisins voru að gera vegna yfirvofandi bankakreppu, hún er með þetta allt á hreinu núna.
Það eru liðnir þeir tímar þegar það þurfti hamfarir til að rífa hana og hina þingmenn flokksins úr faðmlaginu við Sjálfstæðisflokkinn. Á tröppum Þjóðleikhússins brunnu eldar að kvöldi 21. janúar þar sem þúsund manns stóðu utan dyra og börðu búsáhöld og í kjallara hússins voru þúsund manns sem komu til að draga flokksforystuna burt úr þessu faðmlagi. Þetta var magnaðasta kvöld sem ég man eftir. Í kjölfarið sagði Björgvin af sér og þá loksins virtist forystan fatta að henni var ekki sætt.
Ingibjörg Sólrún virtist ekkert skilja síðatliði haust og miðað við yfirlýsingar hennar um síðustu helgi fattar hún það ekki enn þá. Hún játar á sig mistök eftir mistök en hún talar eins og sú sem allt veit. Hver veit örlög sín á morgun eða í næstu viku. Þegar hún gekk til fundar 23. september gat hún ekki vitað að hún myndi ekki hafa það út af fundinum án aðstoðar.
Síðasta helgi var því miður ekki til þess fallin að auka traust mitt á Ingibjörgu Sólrúnu. Mér fannst ekki að þarna færi heilsteyptur og mikilhæfur leiðtogi.
Ég hef skrifað áður um veikindi stjórmálamanna hér og brottvikningu Samfylkingarinnar úr ríkisstjórn hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ísland úr NATO
3.3.2009 | 10:57
Eitt af því marga sem þarf að endurskoða eftir 18 ára valdatímabil Sjálfstæðisflokksins er þessi loftrýmiseftirlitssamningur. Það er í raun dálítið magnað að Ingibjörg Sólrún skuli ekki hafa gert það á þeim tveimur árum sem hún hefur setið í utanríkisráðuneytinu.
Til að byrja með má gera grein fyrir forsendum samninganna. Með hverju eru menn að hafa eftirlit og hvaða hætta steðjar að okkur sem eftirlitið á að upplýsa um? Mér finnst alveg koma til greina að segja sig frá öllu þessu hernaðarbrölti sem er undirrót meirihluta allra vandræða í heiminum.
„Þessa leiki þarna suðurfrá“ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)