Færsluflokkur: Sjálfstæðisflokkurinn

Sorugur Sjálfstæðisflokkur

Sumir halda kannske að samtvinning auðvalds og stjórnmála í Sjálfstæðisflokknum sé nýtt fyrirbrigði. En það er ekki og áður náði hún hámarki á fyrrihluta síðustu aldar þegar Ólafur Thors gegndi starfi forsætisráðherra, bankaráðsmanns í Landsbankanum, forstjórastarfi í Kveldúlfi og formennsku í Sjálfstæðisflokknum, allt á sama tíma. Á fyrsta áratug þessarar aldar náði þessi samtvinning aftur hámarki þegar Sjálfstæðisflokkurinn bankavæddi samfélagið með aðstoð auðvaldsins og þegar bankarnir síðan eikavæddu samfélagið með aðstoð Sjálfstæðisflokksins. Þá var D-flokkurinn orðinn ómerkilegt peð á skákborði bankanna og fór aðeins með stjórnmálin í umboði þeirra.

Í þessu sérhagsmuna fyrirkomulagi taldi mikill fjöldi manna sér trú um að hag þeirra væri best komið undir pilsfaldi flokksins og að það gæti verið stórhættulegt fyrir þá að hafa sjálfstæða skoðun. Sennilega höfðu þeir rétt fyrir sér. Mörgum fannst þó lyktin vond þegar Reykjavíkurdeild flokksins gerði hvað eftir annað á sig svo um munaði og margur óbreyttur d-liðinn tapaði stórfé í kollsteypunni miklu. Þegar flokkurinn var svo "settur af" í janúar s.l. og stoðunum þar með kippt undan valdastoðunum þá fóru menn í alvöru að hugsa sinn gang.

Eftir nýjustu uppákomuna er svo ljóst að flokkurinn er að hrynja, - innanfrá. Hver á fætur öðrum verða menn nú tvísaga, muna ekki og benda á næsta mann. Það er ótvírætt merki um að menn séu að ljúga þegar þeir svara ekki því sem spurt er um heldur einhverri spurningu sem ekki var orðuð við þá. Þannig hafa þeir svarað Guðlaugur Þ, Kjartan G o.fl.

Og það er brostinn flótti í liðið. Margir hafa nú þegar lýst hneykslun sinni á vinnubrögðum flokksins og margir eiga eftir að tjá sig bæði um síðustu uppákomu og annað. Óbreyttum þingmönnum þykir erfitt að sitja undir ámæli um spillingu og margir sem orðið hafa undir í gegnum árin munu upplýsa um soruga gerninga. Og það er nú það.

 


mbl.is Það þarf að upplýsa alla atburðarásina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérhagsmunir Sjálfstæðisflokksins

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki áttað sig á því að hann er í málþófi. Og málþófið beinist gegn því að valdinu sé skipað í samræmi við óskir fólksins í landinu. Flokkurinn virðist ekki gera sér grein fyrir að allt vald býr með fólkinu og fólkið getur hagað framsali þess eins og því hentar best á hverjum tíma. Og nú hentar fólkinu best að taka valdið til að semja og/eða gera breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins frá Alþingi og færa það til stjórnlagaþings. Af hverju skyldi það nú vera?

  • Gæti það verið vegna reynslunnar af því hvernig Alþingi hefur gengið að gera nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni?
  • Gæti það verið vegna þess að það sé algjörlega út í hött af grundvallar ástæðum að Alþingi  ávarði sjálft hvernig valdi þess sé háttað?
  • Gæti það verið vegna þess að breytingar á stjórnarskrá séu svo mikilvægar að það beri að fela það samkomu (stjórnlagaþingi) sem er sérstaklega til þess kosin og til einskis annars?
  • Gæti það verið vegna þess að þjóðin vill freista þess að losa sig úr málþófi eins og Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir á Alþingi þessa dagana?
Sumir segja að Sjálfstæðisflokknum sé ekki sjálfrátt vegna afstöðu sinnar til breytinganna sem ræddar eru á þinginu dag og nótt að undanförnu. En ég held að þarna komi einmitt fram hið sanna eðli flokksins. Hann er að gera það sem eigendur hans ætlast til af honum. Hann er að verja sérhagsmuni þeirra.
mbl.is Hlé á þingfundi vegna framboðsfundar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skyni skroppnir sjálfstæðismenn?

Mikilli prófkjörshelgi er að ljúka og margt athyglisvert hefur komið í ljós. Eitt það merkilegasta og í raun það alvarlegasta er hvað þátttaka var tiltölulega lítil. Eftir magnaðasta vetur sem um getur í stjórnmálasögu Ísland, eftir hrun banka- og efnahagskerfis landsins og í skugganum af rannsóknum og málaferlum, sem etv eiga eftir að rífa íslenskt þjóðlíf í tætlur, þá er þátttakan mun minni en var 2007. 

Eftir 18 ára stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins hefur jafnvel flokksbundið fólk svo gjörsamlega tapað trausti til stjórnmálamanna að það mætir ekki til að kjósa þá á framboðslista. 

 Annað sem sker í augu er hvernig Sjálfstæðismenn raða á listana sína. Í Reykjavík úthluta þeir fyrrverandi stjórnarformanni peningabréfasjóðs nr. 9 hjá Glitni fyrsta sæti listans. Það á enn eftir að rannsaka allt varðandi þennan sjóð og þ.á.m. hvernig á því stóð að forsætis- og fjármálaráðherrar lýðveldisins nánast heimtuðu að fá að kaupa verðlitla pappíra af sjóðnum fyrir 11 milljarða án heimildar á fjárlögum og áður en neyðarlögin vegna yfirtöku bankanna voru samþykkt. Það er ekki víst að þarna hafi spillingarhrammur Sjálfstæðisflokksins verið að verki en það kann vel að vera.

Annað sætið lendir hjá fyrrverandi útrásarstjórnarformanni OR. Þetta er maðurinn sem var við stjórnvölinn þegar gerð var tilraun til að gefa græðgigæjunum fyrirtækið. Þetta er sami maðurinn sem taldi að janúar 2009 væri heppilegur tími til að setja allt á annan endann með misráðnum breytingum á heilbrigðiskerfinu. Eftir að hans menn höfðu ýtt okkur fram af hengifluginu ákvað hann að fjarlægja öryggisnetið líka.

Í Garðabæ var tilvonandi flokksformaður settur í fyrsta sæti. Maður sem væntanlega er persónulega og gegnum fjölskyldu sína meira flæktur í fjármálaævintýri síðustu ára en nokkur annar þingmaður.  Í öðru sæti er kona sem var aðili að fyrirtæki sem átti í grunsamlegum viðskiptum við Kaupþing svo ekki sé meira sagt. Þetta er ekki búið að rannsaka og sekt eða sakleysi því ósannað.

Sjálfstæðismenn eru ekki alltaf sammála um það hvort hrunið og kreppan eru stefnu flokksins eða "bara" þingmönnum flokksins að kenna. Hvorugu skal því breytt að sinni.

 


mbl.is Illugi sigraði í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkur stikkfrí

n818268081_1987824_8257.jpgAtburðirnir í janúar og febrúar voru aldeilis magnaðir. Í vetrarhörkum tók almenningur í landinu sig til og barði bumbur dag eftir dag og langt framá nótt. Það loguðu eldar á Austurvelli og við hið virðulega Þjóðleikhús Íslendinga. Og stemmingin var magnþrungin. Tryllt trommutónlist í bland við búsáhalda blús og lúðra blástur í nístandi kulda við yl frá logandi bálköstum. Þetta var görótt og engu líkt. Þessu gleymir enginn sem þarna var.

Þótt engar skýrslur væru lagðar fram komust skilaboðin til skila a lokum. Ekki alveg hjá öllum þó því þingmenn Sjálfstæðisflokksins náðu þessu aldrei og hafa ekki fattað enn út á hvað þetta allt saman gekk. En það er e.t.v. ekki við að búast af mönnum sem studdu innrásina í Iraq, studdu Söru Palin í forsetakosningunum í BNA og telja hlýnun jarðar vera bábilju. E.t.v. þurfum við að taka aðra rispu á pönnunum okkar með haustinu. 

n818268081_1981490_3082_811023.jpgSjálfstæðismenn tala enn eins og ekkert hafi skeð. Ónýtt Alþingi er enn heilagt í þeirra augum og þeir heilagir vegna nándar við það. Þeir hafa enn ekki fattað að nú er leitað allra ráða til að færa vald frá Alþingi til fólksins og að engar sættir munu verða fyrr en það næst. Hitt er jafn mikilvægt, að almenningur fái miklu virkari tæki til að veita Alþingi aðhald og helst setja það frá ef um koll keyrir. Þetta eru nú afleiðingar 18 ára valdatímabili Sjálfstæðisflokksins.

Ég vek athygli á glæsilegri myndsyrpu Jóhanns Smára Karlssonar frá mótmælunum. Honum hefur tekist að fanga augnablik sem lýsa stemmingunni nokkuð vel. Jóhann er líka á Flickr.

En við þurfum að fylgjast með og passa uppá að stjórnarflokkarnir gefist ekki upp. 


mbl.is Meirihluti vill stjórnlagaþing samkvæmt könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylking á skilorði

Annar fallinnAf þeim aragrúa verkefna sem þurfti að einhenda sér í við hrun banka og efnahags í október s.l. var eitt langmikilvægast: AÐ LOSNA VIÐ SJÁLFSTÆÐISFLOKKINN ÚR STJÓRNARRÁÐINU.Um þetta skrifaði ég pistla í október s.l. bæði hér og hér. Í seinni pistlinum benti ég líka á að næstu mánuðir myndu ráða úrslitum um það hvort Samfylkingin yrði leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum í næstu framtíð. Í lok desember taldi ég í pistli að Samfylkingin væri fallisti ársins í pólitík þar sem hún hefði ekki náð að rísa upp og taka frumkvæði.

Það þurfti byltingarkennt ástand í þjóðfélaginu, uppreisn innan flokksins og einkaafsögn eins ráðherra til að vekja flokkinn af tiltölulega værum blundi. Tiltölulega værum blundi segi ég af því að nú hefur komið í ljós að Samfylkingin hafði af og til uppi fremur veiklulega tilburði til að takast á við ástandið í fyrri ríkisstjórn. Ef marka má "úrslitakostina" sem flokkurinn setti Sjálfstæðisflokknum daginn fyrir fall síðustu ríkisstjórnar þá megum við vel við una að ekki náðist samstaða.

Samfylkingin er á skilorði fram að kosningum. Og eins og títt er um menn á skilorði þá verða þeir að hafa samband við skilorðsfulltrúann sinn reglulega og ekki sjaldnar en vikulega. Skilorðsfulltrúinn erum við, - fólkið í landinu. Og í guðanna bænum ekki byrja á því hvort ég sem þetta ritar sé fólkið í landinu. 

Ráðuneytin eru ekkert annað en skrifstofur viðkomandi ráherra. Pælið í því hvernig það er fyrir stjórnarandstöðu þingmann að fá alltíeinu fullbúna skrifstofu með húsnæði, mannafla, tækjabúnaði og bílstjóra til afnota fyrir sig persónulega. Það er eins gott að það liggi eitthvað eftir þá.

Fyrsta verk er að setja saman auðskiljanlega tímasetta áætlun um stöðuna núna og aðgerðir til að vinna okkur út úr kreppunni til skamms og langs tíma. Og hér dugir ekkert almennt froðusnakk um afbragðs ásetning.


Stjórnsýsluhryðjuverk Einars K

hvalveidar-trio.jpgDaglega bætast við fréttir af fjármálahryðjuverkum sem framin voru hér eftir að fyrir lá að bankarnir og allt herfið myndi hrynja. Og ekki bara síðustu dagana heldur síðustu mánuðina eftir að m.a. Buiter-skýrslan hafði rökstutt að bankarnir myndu falla. Það væri bara spurning um hvenær. Þetta sýnir svo ekki verður dregið í efa að siðferði þessara manna var svo gjörspillt að í stað þess að reyna að gíra niður og bjarga bönkunum og þjóðinni þá var gefið í og peningar fluttir í tonnatali á einkareikninga í skattaparadísum.

Það sama  er nú að gerast í ráðuneytunum. Einar K ríður á vaðið og gefur út mjög umdeilda reglugerð um hvalveiðar. Reglan er sú að sitjandi starfsstjórnir hafist lítt að og taki ekki umdeildar ákvarðanir. Jafnvel GWB, og þá er mikið sagt,  virti þetta og gerði fátt sem ekki neitt án þess að bera það undir Obama.

En þetta sýnir í hnotskurn hversvegna við þurftum að losa okkur við Sjálfstæðisflokkinn. Siðferði ráðherra flokksins er það sama og þeirra sem stunduðu fjármálahryðjuverkin. Því fór sem fór og við eigum eftir að sjá og heyra margar fréttir þar sem vinnubrögð þeirra eru afhjúpuð. Það kæmi mér ekki á óvart þótt menn stæðu baki brotnu yfir pappírstæturunum í þeirra ráðuneytum þessa síðustu klukkutíma.

Klíkan á myndinni er svo sannarlega part af problemet.


mbl.is Hvalveiðum ætlað að tefja ESB-ferli?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Burt með Árna Matt

Umboðsmanni Alþingis ber "að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga... og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins" (sbr. lög 85/1997).

Ef einhver töggur væri í Alþingi myndi það taka sig til og reka Árna Matt heim með skít og skömm. En bíðum við. Getur Alþingi rekið einstaka ráðherra. Ég er ekki viss um það. Einstakir ráðherrar starfa á ábyrgð ríkisstjórnarinnar eða þess innan ríkisstjórnarinnar sem tilnefndi þá. Árni starfar í umboði og á ábyrgð Geirs H og það eru engar líkur á að hann verði rekinn heim eða að hann segi af sér. Stjórnsýslan á Íslandi er siðblind og gjörspillt. 

Í týpískum Árna Matt stíl er haft eftir honum á visir.is "að hugsanlega sé hægt að læra af áliti Umboðsmanns Alþingis."  Þetta er sami hrokinn og kom fram í umsögn Árna um niðurstöðu hæfisnefndarinnar. Í stað þess að skammast sín talar hann niður til umboðsmannsins.

Á mbl.is er haft eftir honum að umboðsmaður telur annmarka á þessu en þó ekki meiri en svo að hann telur að þeir leiði ekki til ógildingar."

Ekkert í álitinu gefur tilefni til þessarar ályktunar sem sýnir enn og aftur yfirgengilegan hroka þessa manns.

Burt með Árna Matt.


mbl.is Annmarkar á skipun dómara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvurn skrattan getum við að gert?

Enn eitt frábært Silfur hjá Agli. Eftir að hann fór að bjóða til sín venjulegu fólki og fólki með sérþekkingu á því sem hæst ber þessa dagana hefur þátturinn gengið í endurnýjun lífdaga. Þessi svokallaða stjórnmálaumræða, eins og hún fór fram þar og í kastljósi, var alveg hætt að skila nokkrum sköpuðum hlut. Reyndar er langt síðan.

Samlíking Kristínar Helgu á  ástandinu í fjölskyldu fíkilsins og á þjóðarheimilinu var sláandi.

Undanfarin ár hafa fíklar ráðið ferðinni hjá okkur. Eftir að hafa notfært sér velvilja, meðvirkni og fáfræði fjölskyldunnar (þjóðarinnar) til að harka út lán og komast hjá uppgjöri við lánadrottna, þá setja þeir heimilið á hausinn. En það nægir ekki til að fíklarnir sjái ljósið. Öllum nema þeim er ljóst að þeir þurfa að fara í meðferð en það er bæði gagnlaust og illmögulegt að koma þeim í meðferð nema með þeirra eigin samþykki.

Og þjóðin er einmitt í þessari stöðu. Allir sjá spillinguna, hrokann og yfirganginn sem stjórnvöld sýna okkur, - nema þau sjálf. Eru einhver vandamál þar spyr Geir H þegar hann er spurður um aðgerðir til að reisa við orðstý þjóðarinnar og breytingar í Seðlabankanum.  Það eru spennandi og skemmtilegir tímar framundan segir Þorgerður Katrín. Eru þau nokkuð að spila hörpudúett meðan þjóðin þjáist? Og hvurn skrattann getum við gert? Þetta er eins og í tilviki fíkilsins. Við getum ekki lagt hann inn og við getum heldur ekki svipt hann forræði. 

Það hlýtur að vanta eitthvað í stjórnskipun landsins!!!

Sá eini sem ekki virtist skilja neitt var Ágúst Ólafur, þingmaður og varaformaður Samfylkingarinnar. Heldur hann í raun að þingið geti skipað óháða nefnd Íslendinga sem rannsaka á hann og kollega hans? Þmt alla ráðherrana sem eru jú þingmenn. Heldur hann í raun að bankaráðin séu ópólitísk, óháð og eingöngu fagleg eða talar hann bara svona? Ágúst er ungur og vel menntaður maður en vantar hann svona gjörsamlega bæði reynslu og þroska eða er hann svona samdauna kerfinu?


Burt með Árna Matt!

Ferill Árna Matt sem ráðherra er æði sóðalegur. Dómaraskipunin kemur fyrst upp í hugan og sá hroki sem birtist í röksemdafærslu hans þar. Allt sem hann kemur nálægt á þessum síðustu og verstu tímum bendir til þess að hann hafi ekkert lært. Framkoma hans bendir öll til þess að hann ráði ekki við verkefnið. Ýmsar upplýsingar um störf hans benda til þess að hann sé eitt af stóru vandamálunum.
mbl.is Deilur vegna Íslands í gerðardóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherrar Sjálfstæðisfokksins segja okkur að éta skít

Reiðin er mikil í þjóðfélaginu þessa dagana. Margir segja "þeir setja allt á hausinn og ætla svo að láta okkur borga" eða eitthvað í þessa veru. Það þarf ekki hámenntaðan hagfræðing til að átta sig á að auðvitað verða einstaklingar og fyrirtæki í landinu að borga allt sem landið skuldar og að byggja upp á ný. Það er ekki öðrum til að dreifa.

En hitt skiptir miklu að byrðunum sé deilt á sanngjarnan hátt.

Og þar kemur að Sjálfstæðisflokknum og sérhagsmunaneti hans. Að öllu jöfnu teljum við eðlilegt að sá sem sóðar út taki til eftir sig, en það er hreinlega óhugsandi að flokkurinn sem leiddi okkur í þessar ógöngur stjórni tiltektinni. Við sjáum nú þegar tilburði flokksins til að koma sér fyrir í rústunum til að helga sér svæði. Björn Bjarna sér ekkert athugavert við það að feður drengjanna sem áttu bankana skipuleggi og stjórni gjaldþrotaskiptum á ábyrgðinni. Björn telur að þeir sem hafa eitthvað við þetta að athuga séu haldnir misskilningi og drengjaliðið í flokknum étur upp eftir honum.

Þetta eru sömu rök sem færð voru  fyrir fjölmiðlafumvarpinu, dómararáðningunum, prófessoraráðningum, stríðsþátttöku o.m.fl.  Þeir gætu eins sagt almenningi að éta skít, honum komi þetta ekkert við. Mikilsmetinn lagaprófessor skrifaði m.a í tilefni af veitingu Árna Matt á dómaraembætti að innan Sjálfstæðisflokksins megi finna „ofsatrúarhópa" þar sem „valdboðið eitt er haft að leiðarljósi …".  Árni hafði auðvitað áður sagt almenningi, umboðsmanni alþingis og dómnefnd, sem skipuð var að lögum til að meta umsækjendur,  að éta skít.

 Almenningur  krefst þess að Sjálfstæðisflokkurinn verði ekki látinn stjórna uppbyggingunni sem framundan er. Á hverjum einasta degi koma í ljós nýir gjörningar sem benda til þess að spillingarkerfi Sjálfstæðisflokksins hafi náð djúpt inn í bankana eða að spillingarkerfi bankanna hafi náð djúpt inn í Sjálfstæðisflokksins. Við getum ráðið hvort við köllum það.  Ljósglætan er sú, að það vottar aðeins fyrir þeirri skoðun meðal fáeinna Sjálfstæðismanna að ekki sé allt í fínast lagi. Í þeim tilfellum sem ég þekki (Ragnheiður Ríkharðs og Þorgerður Katrín) eru það konur sem hafa tjáð sig.

Af hverju kemur það ekki á óvart?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband